Sigríður ólst upp í Leirá í Bargarfjarðarsýslu en á sjötta ári fór hún vestur um haf með móður sinni, Guðrúnu Magnúsdóttur. Í VÍÆ I er eftirfarandi skrifað um Sigríði:,,Sigríður dvaldist með móður sinni að Leirá og fór með henni vestur um haf 5 ára gömul. Var fyrst eitt ár í Nýja Íslandi en annars lengst af í Winnipeg vegna skólavistar. Að loknu miðskólanámi lagði hún stund á listmálningu hjá Mrs. Sutherland í Winnipeg og seinna hjá Miss Farren í Cambridge á Englandi, en þar dvaldist hún hjá frú Sigríði, konu Eiríks meistara Magnússonar, föðursystur sinni, og giftist þar séra Guðmundi, seinna presti í Winnipeg. Kenndi listmálningu bæði í Winnipeg og að Oak Point,Man., þar sem hún hafði dráttlistarskóla fyrir kennara. Starfaði í góðtemplarastúkunni Heklu í Winnipeg, sem faðir hennar hafði stofnað. Forseti Sambandskvenfélagsins að Oak Point 1929-33, féhirðir kvenfélagsins Eining að Lundar 1933-43. Varaforseti The Ladies Social Benefit Club, Oak Point, mörg ár, skrifari þess og féhirðir. Starfaði að hjúkrun sjúkra á Oak Point 17 ár, og hafði þar saumakennslu fyrir ungar stúlkur nokkur ár. Lærði fatasaum á yngri árum. Var um tíma skrifari og fjármálaritari Sambands frjálstrúarkvenfélaganna og kjörin heiðursfélagi þess 1943. Kjörin ævifélagi í General Alliance, Boston, 1947.“