Vangaveltur á Möðruvöllum: Sigtryggur Jónasson var aðeins 12 ára þegar hann kvaddi Skagafjörð og vistaðist að Möðruvöllum hjá Pétri Hafstein amtmanni. Dvölin þar mótaði drenginn, hann var 15 ára þegar honum var fengið ábyrgðarstarf (skrifari) hjá embættinu. Hann eignaðist marga vini unga sem aldna og má nefna bræðurna Eggert og Tryggva Gunnarssyni svo og Jón Sveinsson (Nonna). Umræður þessara vina hans hafa áreiðanlega mikið snúist um Ísland og Danaveldið. Á Möðruvöllum kynntist Sigtryggur Rannveigu Ólafsdóttur Briem sem seinna varð kona hans en þar var líka önnur stúlka sem hafði dvalið um skeið í Englandi og hjá henni lærði Sigtryggur eitthvað í ensku. Árið 1870 breytti miklu í lífi Sigtryggs vegna þess að Pétri var vikið úr embætti og flutti frá Möðruvöllum að Ytri-Skjaldarvík í Eyjafirði og þangað með þeim fór Sigtryggur. Hann varð vinnumaður þar um hríð en hugur hans leitaði annað, hann dreymdi um betra líf annars staðar. Ungir menn höfðu um árabil farið til Kaupmannahafnar til náms og freistuðu gæfunnar en ekki þótti honum Danmörk fýsilegur kostur, honum var einfaldlega of mikið í nöp við Dani. Um þær mundir var umræða um brottflutninga frá Íslandi býsna mikil og voru ýmsir kostir nefndir, m.a, Norður Ameríka. Sögur bárust af vesturferðum frá Norðurlöndum til Ameríku og var þá einungis rætt um Bandaríkin. Slétturnar vestur af stóruvötnunum freistuðu margra Dana og Norðmanna og kynnti Sigtryggur sér kosti þar en óráðinn hvert hann ætlaði, sigldi hann brott frá Íslandi sumarið 1872 og steig á land í Quebec borg í Kanada 12. september. Ontario 1872-1875: Jón Hjaltason hefur skrifað skýringu (Sjá Ísland í efnisyfirliti) á því hvers vegna Sigtryggur kaus að vera áfram í Kanada í stað þess að leita suður til Wisconsin þar sem fyrstu, íslensku vesturfararnir voru sestir að. Við ætlum að forvitnast um fyrst ár hans í Kanada og því ferðumst við með honum frá Quebec borg, vestur til Kingston í Ontario, þaðan áfram til Toronto. Mikill uppgangur var á báðum þessum stöðum og gaf Sigtryggur sér tíma til að skoða sig um og kynna sér ýmsa möguleika. Hann fékk vinnu í London vestur af Toronto hjá fyrirtæki sem framleiddi hverskyns hestavagna og kerrur. Hann flutti sig um set og fór til St. Thomas þars sem járnbrautarfyrirtæki lagði járnbraut frá Detroit á til Niagara. Eitthvað gekk fjármögnun fyrirtækisins (The Canadian Southern Railway Co.) brösulega svo okkar maður var enn á ferðinni og endaði í þetta sinn í Bismarck. Þar vann hann við timburflutninga yfir veturinn en um vorið 1873 hvarf hann þaðan og nú hófst ævintýrið. Hann kynntist Kanadamanni og saman sömdu þeir um framleiðslu á viðarbitum undir járnbrautarteina fyrir bandarískt fyrirtæki. Þessi viðskipti gengu vel og þegar þessu lauk í febrúar árið 1875 hugleiddi Sigtryggur landnám en vaxandi áhugi landa hans á að setjast að í Kanada leiddi hann á aðra braut. Árið 1873 kom lítill hópur frá Íslandi til Kanada, sumir fóru rakleitt suður til Bandaríkjanna en aðrir skoðuðu möguleika í Ontario og settust að í Muskokahéraði. Á þessum árum dreymdi flesta Íslendinga sem vestur fóru um íslenska nýlendu, helst eitthvað afskekkta. Hópurinn litli í Muskoka tók Sigtryggi fagnandi þegar hann heimsótti landa sína í bænum Rosseau í Muskoka um vorið 1874. Hann fór með nokkrum þeirra í smá skoðunarleiðangur og túlkaði á skrifstofu umboðsmanns stjórnvalda sem annaðist skipulagningu landnáms. Ekki fann Sigtryggur ákjósanlegt svæði fyrir íslensku nýlenduna en fólkið í Rosseau sætti sig við svæði stutt frá bænum. Áhugi landa Sigtryggs á landnámi í Kanada átti eflaust þátt í samtölum hans við ráðamenn í Toronto um sumarið 1874 en þá var von á nokkuð stórum hópi frá Íslandi. Hann hafði hugsað sér að koma heimilisfeðrum og einhleypum mönnum í vinnu við uppskeru um haustið en vegna tafa á Íslandi kom skipið ekki til Kanada fyrr en 23. september og uppskerutíminn nánast að baki svo leita þurfti annarra úrræða. Skortur á vinnuafli í Ontario varð til þess að Sigtryggur gekk á fund D. D. Hay í Toronto en sá annaðist innflytjendamál í fylkinu. Járnbrautarfélagið Victoria Railway Co. undirbjó lagninu brautar á milli bæjanna Lindsay og Kinmount og sárvantaði menn í verkið. Sigtryggur kom því til leiðar að íslenskir innflytjendur yrðu ráðnir og voru þeir, ásamt með fjölskyldum fluttir í búðir í Kinmount. (Sjá kaflann um Kinmount) Um vorið 1875 var Sigtryggi ljóst að ákjósanlegt svæði fyrir íslenska nýlendu var ekki að finna í Ontario og því afréð hann að kanna möguleika á sléttunni vestur af Ontario. Nýja Ísland 1875-1881: Samningar tókust milli ríkisstjórnarinnar í Kanada og Sigtryggs Jónasonar og John Taylor um að þeir settu saman könnunarleiðangur til að svipast um vestur á kanadísku sléttunni en þangað beindi stjórnin nú innflytjendum, einkum bændum. (Sjá kaflann Nýja Ísland) Marga kosti þóttust leiðangursmenn sjá á vesturbakka Winnipegvatns, tóku frá svæði undir Nýja Ísland og þangað komu flestir frá Kinmount en einnig aðrir sunnan úr Bandaríkjunum. Sigtryggur dvaldi stutt það haust í Nýja Íslandi því hann sigldi til Íslands og skráði fólk til vesturfarar sem umboðsmaður Kanadastjórnar. Með honum var Kanadamaður, W. C. Krieger að nafni og saman skráðu þeir um 1400 Íslendinga til vesturferðar. Sigtryggur kom svo í Nýja Ísland um haustið og byggði upp Möðruvelli sem urðu nokkurs konar höfuðsetur nýlendunnar. Sigtryggur kunni til verka, lét hreinsa landið, plægja og svo sá í það ýmsum tegundum. Þá flutti hann í byggðina kýr, kindur og hænsn svo dæmi séu tekin. Heimili hans gengdi ýmsum hlutverkum, þar var messað, rekinn skóli, fundir haldnir og pósthús rekið. Þar var síðan ritstjórnarskrifstofa Framfara og höfuðstöðvar fyrirtækis Sigtryggs og Friðjóns Friðrikssonar, Jónasson-Friðriksson Co. Fyrirtækið rak sögunarmillu, verslun og annaðist flutninga á bátnum Victoria frá Íslendingafljóti til og frá Selkirk. Fordæmið sem Sigtryggur gaf og kapp það sem hann lagði á sig til að nýlendan yrði framtíðarheimili þúsunda Íslendinga dugðu skammt eftir nær stöðug áföll, s.s. bólusótt, flóð og trúardeilur. Spurnir af ágætis árangri Íslendinga í nýlendunni í Minnesota, flutningur stórs hóps suður til N. Dakota og annarra í Argylebyggð suðvestur af Winnipeg nánast lagði byggðina í Nýja Íslandi í eyði. Þeir sem eftir urðu fluttu í sveitina við Íslendingafljót þar sem Friðjón Friðriksson tók við Möðruvöllum, Sigtryggur og Rannveig fluttu til Winnipeg í júní, 1881. Árin í Nýja Íslandi reyndu mjög á Rannveigu, hún var alinn upp á menningarheimili, vel menntuð og unni listum og bókmenntum en ekki gerð fyrir frumbýlingslíf í óbyggðum Kanada. Brottflutningurinn úr byggðinni lagðist þungt á hana, lífið sem við tók í fámenninu, afskekkt, einangruð varð henni þungbært. Sigtryggur sá um skipaflutningana og áttaði sig fljótlega á því að Selkirk væri heppilegri heimabær vegna þeirra og þangað fluttu þau hjónin árið 1882.
Winnipeg – Politics: Rekstur Victoriu á Winnipegvatni gekk bærilega fyrstu árin en að því kom að stærra gufuskip var keypt og hét það Aurora. Árið 1890 var orðið ljóst að reksturinn var ekki að ganga upp og Sigtryggur sneri sér að öðru eftir að þau fluttu frá Selkirk til Winnipeg. Hann hafði ætíð tekið þátt í uppbyggingu íslenska samfélagsins í Manitoba og í Winnipeg tók hann virkan þátt í byggingu upprunalegu kirkju Fyrsta Lúterska safnaðarins þá sat hann í nefnd sem vann að stofnun nýs blaðs, Lögbergs og varð Sigtryggur ritstjóri þess um nokkurra ára skeið. Frá fyrstu tíð fylgdist hann vel með komu landa sinna til Vesturheims og aðstoðaði marga. Þessi vinna varð til þess að fylkisstjórn Manitoba sendi hann sem umboðsmann sinn til Íslands árið 1893. Þar tókst honum fyrstum manna að fá leigt skip sem sigldi með vesturfara beint vestur til Kanada og stytti það siglinguna um sex daga en áður hafði iðulega verið siglt frá Íslandi til Bretlands og þaðan vestur. Hann undirbjó sig vel fyrir Íslandsferðina, hitti ráðamenn og lagði fram merkar tillögur til hagsbóta fyrir íslenska þjóð. Má nefna stóraukinn útflutning á kjöti, mjólkurafurðum og fiski auk aukinna viðskipta við útlönd. Sigtryggur fór til Englands til að kynna hugmyndir sínar og vakti áhuga fjárfesta í London. Viðbrögð á Íslandi voru góð en minna úr framkvæmdum en þó má segja að Sigtryggur hafi ýtt við Dönum því dönsk skipafélög bættu þjónustuna við Ísland. Þegar til Winnipeg kom tók hófst nýr kafli í lífi Sigtryggs, hann varð ritstjóri Lögbergs og kosinn á fylkisþingið í Manitoba, fyrstur Íslendinga til þess árið 1896. Hann bauð sig fram fyrir frjálslynda í St. Andrews kjördæmi en Nýja Ísland tilheyrði einmitt því. Andstæðingur hans í þeim kosningum var frændi hans, Baldvin L Baldvinsson, ritstjóri Heimskringlu og mikill íhaldsmaður. Sigtryggur vann vel á þingi og tókst að sannfæra þingheim um ágæti þess að leggja járnbraut frá Selkirk norður að Íslendingafljóti. Í næstu kosningum komst hins vegar Íhaldsflokkurinn til valda og þá voru öll áform um járnbrautna sett í skúffu. Í næstu kosningum tapaði Sigtryggur fyrir frænda sínum með átta atvæðamun en betur gekk árið 1907 þegar hann aftur hlaut kosningu og þá tókst honum að fá stuðning við járnbrautina um Nýja Ísland. Þeir frændur voru ekki aðeins andstæðingar í stjórnmálum heldur deildu þeir oft um menn og málefni í blöðum þeirra. Ein athyglisverð deila var val á degi fyrir Íslendingahátíð í Winnipeg. Baldvin var fylgjandi 2. ágúst vegna þess að þann dag 1874 fengu Íslendingar afhenta nýja stjórnarskrá. Sigtryggur var því mótfallinn taldi þann atburð ekki þess virði að Íslendingar í Vesturheimi færu að minnast hans árlega. Öðru máli gilti um 17. júní, fæðingardag Jóns Sigurðssonar, það væri dagur sem allir Íslendingar gætu og ættu að halda hátíðlegan. Þessi deila endaði með klofningi í Winnipeg, Baldvin og hans menn ríghéldu í 2. ágúst en Sigtryggur og liðsmenn hans hunsuðu þá hátíð og sóttu frekar hátíðir í Selkirk eða Argylebyggð í júní ár hvert. Efri árin: Sigtryggur dró sig í hlé árið 1910, hætti stjórnmálaafskiptum og hætti að mestu öllu starfi í þágu íslenska samfélagsins í Manitoba. Hann flutti í Arborg og sýslaði þar í viðskiptum. Járnbraut hafði verið lögð til og við það dafnaði ungur bær. Rannveig treysti sér ekki norður þangað vegna heilsubrests, var um skeið vestur við Kyrrahaf en sneri svo til baka og bjó í Winnipeg sín síðustu ár. Sigtryggur seldi fóstursyni sínum Percy sinn hlut í fyrirtækinu í Arborg í mars árið 1912. Nú kaus hann að hefja búskap á Möðruvöllum, gömlu landnámsjörðinni sinni sem hann fékk aftur í sínar hendur um aldamótin. Hann kaus land nærri Arborg og seinna annan skika þar nærri sem hann kallaði Grashaga. Árið 1920, þá 68 ára gamall hætti hann búskap, flutti til Riverton og bjó næstu áta árin á Engimýri, hjá Tómasi Jónassyni, frænda sínum. Hann naut dvalarinnar þar meðal ættingja og gamalla vina. Aldurinn færðist yfir og heilsan ekki lengur góð svo hann flutti í Arborg til Percy þar sem hann bjó sín síðustu ár.