Sigurgeir Pétursson

Vesturfarar

,,Safn til Landnámssögu Íslendinga í Vesturheimi“ hétu þættir sem birtir voru í Almanaki Ólafs Þorgeirssonar í Winnipeg. Fróðir menn í hinum ýmsu byggðum Íslendinga í Vesturheimi unnu þætti þessa og byggðu oft á frásögnum landnámsmanna sjálfra eða afkomenda þeirra. Einn höfundur slíkur var Jón Jónsson frá Sleðbrjót og árið 1914 birtist eftirfarandi frásögn hans af Sigurgeir Péturssyni frá Reykjahlíð í S. Þingeyjarsýslu:

,,Sigurgeir Pétursson, sonur merkisbóndans Péturs Jónssonar í Reykjahlíð, Jónssonar prests Þorsteinssonar hins ríka í Reykjahlíð. Móðir Sigurgeirs var Guðfinna Jónsdóttir bónda á Grænavatni. Bróðir Péturs í Reykjahlíð var Hallgrímur prófastur á Hólmum. Voru þeir margir bræðurnir og alment nefndir „Reykjahlíðarbræður“. Sigurgeir er tvígiftur. Fyrri kona hans var Hólmfríður Jónsdóttir Jónssonar bónda á Grænavatni. Það lifa tvö börn þeirra, Geirfinnur og Kristjana…Seinni kona Sigurgeirs er María dóttir hins alkunna merkismanns Jóns Jóakimssonar bónda á Þverá í Laxárdal í Þingeyjars. Móðir Maríu var Herdís Ásmundsdóttir, bónda á Stóruvöllum í Bárðardal; var hún náskyld Sigurði bónda á Gautlöndum, föður Jóns alþingismanns á Gautlöndum. – Þau Sigurgeir og María eiga tvær dætur, Hólmfríði og Bergljótu, báðar enn í föðurgarði“.

Vesturför – landnám

,,Sigurgeir flutti vestur um haf árið 1893; var fyrst í Argyle-bygð, en flutti síðan hingað og nam hér land og hefir búið hér síðan. Hefir hann bygt reisulegt íbúðarhús á landi sínu, með miðstöðvarhitun, og býr rausnarbúi. Sá harmur bar Sigurgeiri og skyldfólki hans að höndum, snemma vetrar 1909 að sonur hans Arnþór druknaði ofan um ís á Manitobavatni. Arnþór sál. var mesti efnismaður, og vinsæll og öllum harmdauði, er kynni höfðu af honum. Sigurgeir Pétursson er greindur maður og naut öllu meiri uppfræðslu í æsku en jafnaldrar hans margir. Hann er höfðingi heim að sækja og alíslenxk gestrisni á heimilinu. Hann hefir manna mest hvatt menn hér til félagsskapar um þau mál, er lúta framtíðarhag bygðarinnar. Og sá tími mun einhvern tíma upp renna, að bygðarmenn hér sjá að hann hefir farið með rétt mál og að samheldni og samtök eru sveitarbót. Hann hefir ásamt Geirfinni syni sínum verið helzti hvatamaður þess að hefta vínnautn í bygðinni og stofna Goodtemplarafélagið hér. Er þeim málum svo komið að talsverður meiri hluti æskulýðsins er í þeim hópi með töluverðum áhuga. Einnig var Sigurgeir með helztu forgöngumönnum þess, að hér var stofnað lestrarfélag og var formaður þess fyrstu árin. Hann fylgir með einlægum áhuga öllum hreyfingum í íslenzku þjóðlífi, bæði heima á Íslandi og hér vestra, og er ætíð reiðubúinn að leggja lið til góðrar hluttöku í málum þeim, er Vestur-Íslendingar vilja styrkja heima á Íslandi. Sigurgeir er nú rúmlega sextugur að aldri, en ern og nokkuð hraustur enn, og er með réttu talinn með nýtustu bændum bygðarinnar“. (Kort; sjá Byggðir við norðanvert vatn)