Stefán Björnsson – Ritstjóri

Vesturfarar

Allt Vesturfaratímabilið, 1870-1914 reyndu blöð og tímarit á Íslandi að færa þjóðinni fregnir af vesturförum í N. Ameríku. Íslenskir landnemar í N. Ameríku lögðu sitt af mörkum, sendu ættingjum og vinum bréf þar sem þeir lýstu eftir fremsta megni tilrunum sínum við að fóta sig í framandi landi, vera þátttakendur í myndun nýrrar þjóðar. Smám saman mótaðist íslenskt samfélag í N. Ameríku með eigið kirkjufélag, dagblöð og tímarit á íslensku og metnað til að viðhalda íslenskri arfleifð fjarri gamla landinu. Ritstjórar Lögbergs og Heimskringlu, fréttablaðanna í Winnipeg voru flestir vandanum vaxnir, drógu upp í sínum skrifum mynd af því helsta og voru bæði blöðin víðlesin vestra svo og á Íslandi. Árið 1904 kom ungur guðfræðingur til Winnipeg. Stefán Björnsson hét sá, nýútskrifaður úr Prestaskólanum í Reykjavík og ári síðar var hann ráðinn ritstjóri Lögbergs. Baldur Sveinsson, stúdent, fór vestur til Winnipeg frá Eskifirði árið 1907 og í einni gönguferð um borgina rakst hann á Stefán en þeir þekktust frá námsárunum í Reykjavík. Í grein sem birt var í Óðni í Reykjavík árið 1913 segir Baldur frá kynnum sínum af Stefáni, skoðum skrif hans:

Stefán Björnsson 
Ritstjóri Lögbergs

,,Það er mikið starf, og ekki vandalaust, að vera ritstjóri stærsta íslensks blaðs í heimi. Óðinn flytur að þessu sinni  mynd þess manns, sem gegnt hefur því starfi nokkur undanfarin ár. Það er Stefán Bjönsson cand. theol , ritstjóri Lögbergs. Blaðið Lögberg er gefið út í Winnipeg, sem kunnugt er. Það er langstærst allra íslenskra blaða; kemur út einu sinni í viku og er hvert blað 8 síður. Það var frá upphafi mun stærra en hjerlend blöð, og hefur þó verið stækkað oftar en einu sinni – síðast árið 1911. Þessir voru ritstjórar þess á undan Stefáni; Einar Hjörleifsson, Jón Ólafsson, Sigtryggur Jónasson og Magnús Paulson. Blaðið fylgir stefnu frjálslynda flokksins í Canada, og eru nokkrir Íslendingar í Winnipeg eigendur þess.“ 

Uppruni og ættir

,,Stefán Björnsson er fæddur á  Kolfreyjustað 14. dag marsmánaðar 1876. Hann lauk stúdentsprófi í Reykjavík árið 1900, og embættistprófi við prestaskólann þrem árum síðar. Árið 1904 fór hann til Vesturheims, og varð ritstjóri Lögbergs góðu ári síðar. Kona hans er Helga Jónsdóttir frá Rauðseyjum á Breiðafirði. Stefán er af góðu bergi brotinn í báðar ættir. Faðir hans er merkismaðurinn Björn bóndi í Dölum í Fáskrúðsfirði Stefánsson umboðsmanns frá Snartastöðum í Núpssveit, Jónssonar prests á Helgastöðum, af ætt Kolbeins á Stóruvöllum, er margt mætra manna er frá komið. Margrjet, móðir Stefáns ritstjóra var Stefánsdóttir, síðast prests á Kolfreyjustað, Jónssonar, Guðmundssonar prests á Hjaltastað, albróðir Benedikts Gröndals assersors og sjera Þórarins í Múla, en þeir bræður voru synir Jóns prests við Mývatn, Þórarinssonar prests Jónssonar, prests í Stærra-Árskógi (D. 1696), er bæði var skáld og merkur maður, Guðmundssonar. Í móðurætt var Stefán prestur Jónsson kominn af Sauðanessprestum, Schevings-ætt og Reynustaðamönnum, er komnir eru af Bjarna Halldórssyni sýslumanni á Þingeyri og Páli Vídalín lögmanni.“ 

Vandaðir starfshættir

,,Jeg kyntist Stefáni lítið eitt í skóla, en er jeg kom til Winnipeg, hitti jeg hann af hendingu á götu úti og tók hann mjer þátveim höndum sem bróður sínum og bauð mjer að dvelja á heimili sínu meðan jeg vildi. Var jeg þar hjá honum í besta yfirlæti í hálfan mánuð, en ári síðar varð jeg samverkamaður hans við Lögberg og kyntumst við þá mikið. Oft undraðist jeg dugnað hans og starfsþol og ætla jeg fárra manna færi  að jafnast við hann í því. Hann hefur jafnan gert sjer hið mesta far um að vanda útgáfu blaðsins sem best,og miklum og góðuum stakkaskiptum tók íslensk blaðamenska vestanhafs, þegar hann gerðist ritstjóri Lögbergs, því að þá tókust mjög af skammir þær, er áður höfðu verið milli ritstjóranna. Hafa vestanblöðin síðan alla jafna tekið hjerlendum blöðum fram í kurteislegum rithætti. Þó eru þar deilumál mörg og stór, en Stefán hefur varið málstað sinn með stillilegum rökum og prúðmannlegum rithætti, eins og sæmir menntuðum manni, og hafa mótstöðumenn hans metið það að makleikum. Munu allir á einu máli um að hann sje maður óáleitinn við aðra að fyrra bragði. Hann er mjög stefnufastur og tryggur sínum málstað, hvort sem liðsmenn eru fleiri eða færri.“

Sönn ættjarðarást

,,Fáa menn hef jeg vitað bera jafn hlýjan hug til Íslands sem hann, en ekki er hann margmáll um föðurlandsást sína, hvorki í ræðu nje riti. En drengilega hefur hann reynst þjóð vorri í verki, ef slys hafa borið hjer að höndum, og er síðast að minnast á hinar miklu gjafir, er safnað var vestan hafs í fyrra til að hjálpa konum þeim, er misu menn sína í skipasköpum í fyrra. Það samskot studdi hann af alefli, en auðvitað unnu margir fleiri að þeim. Og oft hafði hann áður lagt þjóð vorri drjúgum liðsyrði, er í neyðirnar rak. Svo sem sjá má af mynd þeirri, er hjer fylgir, er Stefán fríður maður sýnum. Hann er hár vexti og vel vaxinn. Á námsárum sínum stundaði hann glímur og aðrar íþróttir og var hann einhver besti glímumaður í skóla á sinni tíð. Hann fjekst og nokkuð við skáldskap á þeim árum og var hagmæltur vel, en lagt hefur hann nú niður þá list svo að segja með öllu. Stefán er seintekinn og heldur fálátur í fyrstu og sækist ekki eftir vináttu manna. En glaður er hann í sinn hóp og orðheppinn, ráðhollur og hjálpsamur, ef til hans er leitað. Ekki hef jeg þekt hugþekkari samverkamann. Hann er allmikill fjesýslumaður og kominn í góð efni, þ´að hann eigi lítið í samanburði við auðmenn þá úr hóp Íslendinga vestanhafs, er Óðinn hefur áður flutt myndir af. Ef jeg mætti ráða, skyldi jeg fá Stefáni eitthvert trúnaðarstarf hjer á landi, því jeg veit að hann yrði þjóð sinni að miklu liði.“                                                                                     Baldur Sveinsson