Þegar Stefán Eyjólfsson var beðinn um upplýsingar um sig og sína fjölskylduhagi í Vesturheimi árið 1924 gerði hann gott betur og setti saman merkilega frásögn.
Fósturmoldin – Hugurinn hvarflar ósjálfrátt til baka til æskustöðvanna heima á Íslandi, þegar ég yfirvega umliðnatíð og ævivegferð. Eg er fæddur á Unaósi í Norður-Múlasýslu 25. desember, 1849. Eg var tekinn í fósturs af afa mínum, Stefáni Guðmundssyni og ömmu minni Sesselju Jóakimsdóttur, er bjuggu að Heyskálum, næsta bæ við Unaós. Þegar eg var 11 ára, fór eg til foreldra minna, Eyjólfs Magnússonar og Steinunnar Stefánsdóttur á Ósi. Þar var eg til eg var 22 ára. að eg vat 2 ár í Höfn í Borgarfirði hjá föðurbróður mínum, Þorsteini Magnússyni. Mér eru minnisstæð árin mín á Ósi; þar hverfur ekki sól á sumri, og getur varla heitið að sjáist að vetri, um tíma, því bærinn stendur í skugga Ósfjallanna, sem skyggja á að sunnan. Á sumrin er hið fegursta útsýni yfir Fljótsdalshérað frá Ósfjöllunum, grænar sléttur, skreyttar glóandi túnum í kringum bæina. Sama má segja að horfa til hafs yfir sléttan sjóinn, með seglskipum hér og þar, fuglafjölda, og af og til hvalablásturs-strokum yfir vatnsfletinum. Þetta bar mér oft fyrir sjónir, því eg gætti kvikfjár að sumri og sauðahúa að vetri. Breytilegt var útsýnið líka, svo sem á haustin. þegar hafrót hauststormanna og gnýr holskeflanna, þrumandi á ströndinni, töluðu svo hátt, að varla var hægt fyrir mennina, að láta til sín heyra. Það var fremur óttaleg en skemtileg sjón. Á útmánuðum kom það oft fyrir, að hafísbreiðan huldi alla útsýn, með sinni hvítu slæðu og nístandi kulda. En merkilegt er það, að þegar hugurinn hvarflar til þessa, þá eins og hylst óveður hafsins og ískuldi vetrarins; maður man aðeins hafið spegilslétt, seglbúin skip, mergð fugla, fífilbrekkur, glóandi tún, sem standa manni glögt fyrir sjónum, og færir söknuð í brjóst hins hvarflandi barns fósturmoldarinnar, stöddum á framandi grund.
Á sveimi í níu ár – Eg var tuttugu og fjögra ára, þegar eg fór frá Íslandi, 9. júní 1874. Eg fór með seglskipi til Kaupmannahafnar, og þaðan til Ameríku; settist fyrst að í Milwaukee og var þar eitt ár. Í október 1875 fór eg til Nýja Íslands, og var þar þangað til í júlí 1880, að eg fór til Dakota, settist að í Pembina, tók þar land en 1883 seldi eg það og flutti til Garðarbygðar og settist að á hálendinu austan við Pembinafjöllin, og hefi búið þar síðan. Þegar eg fór frá Pembina, var eg búinn að vera 9 ár í Ameríku, og hafði ekki tekið mér neina verulega bólfestu, on oft leitað staðar til þess að setjast að á til lengdar. Draum hafði mig dreymt, sem eg hafði oft hugsað hvað myndi þýða, og af því mig dreymdi hann oftar en einu sinni, hafði eg orð á því við vin minn, Ólaf Ólagfsson frá Espihóli, og hann áleit að draumurinn myndi hafa einhverja sérstaka þýðingu. Þessi draumur var, að ég þóttist sjá yfir Héraðsflóa, og sá land í hafsbrún, fagurt og skógi vaxið, og þótti mér mikils vert að líta. Annan tíma dreymdi mig, að sjórinn var horfinn og fagurt land bar fyrir augað, með skógarbeltum hér og þar. Þetta land horfi eg nú yfir frá heimili mínu í dag; samt þekti eg það ekki, eða tók eftir því, fyr en eg var búinn að vera hér lengi. Eitt sumar dreymdi mig, eftir að eg kom hér, að óvepur sveit yfir Héraðsflóa og brimið huldi ströndina hátt á land upp. Eg tók draum þenna sem viðvörun og lét flytja heim gnægð af heyi og strái um haustið, og kom það sér vel, því veturinn á eftir varð mjög harður og mikil snjóþyngsli. Annan draum um landnám, dreymdi vin minn Halldór Þorgilsson, er hann var á Gimli. Hann og Halldór Reykjalín höfðu komið sér saman um að skoða lönd í Dakota, og var Halldór Reykjalín sá, sem fór suður til þess. Áður en hann fór, sagði Halldór við hann. “ Mig hefir dreymt að eg sæi land það, sem eg tek mér bústað á.“ Hann sagði nafna sínum drauminn, og lýsti því fyrir honum, og bað hann leggja drög fyrir að taka það, ef hann fyndi það eftir lýsingunni. Vestan til í Pembinasýslu fann Halldór land, sem hann þóttist þekkja samkvæmt lýsingu vinar síns, og tók hann það fyrir hann, og annað við hliðina fyrir sig. Á þessum löndum bjuggu þeir til dauðadags.
Nýbyggjarinn – Til Dakota kom eg 1880. Eg hafði tvo uxa og $50.00 í vasanum, og gengu þeir peningar til að borga tollinn af uxunum, en eg fékk þá til baka, þegar eg hafði sezt að á landinu, sem eg tók, 7 mílur fyrir sunnan Pembina. Eg vann með uxunum til þess að brjóta land fyrir mig og aðra. Eftir þrjú ár seldi eg landið, en hafði farnast svo búskapurinn, að eg var kominn í meiri skuld en eg gat borgað. Árið 1884 byrjaði eg búskap þar sem eg nú er; en farnaðist svo búskapurinn, að eftir þrjú ár, 1886, var eg aftur djaldþrota í verunni; en þeir sem eg skuldaði mest, ráðlögðu mér að halda áfram, þar sem eg var, og bættu við skuldina, með því að láta mig hafa nautgripahjörð til láns. Síðan hefir altaf þokast í betra horg með búskapinn, og nú, eftir 40 ár, höfum við sæmilega gott bú, þú skuld sé á löndum okkar.
Árið 1885, 29. október, giftist eg Guðrúnu Þorláksdóttur Björnssonar frá Fornhaga í Eyjafirði. Við höfum eignast 8 börn: sex af þeim eru lifandi, og er eitt af þeim heima, Björn, 21 árs gamall. Þórdís, Margrét og Pearl eru giftar, Cecilía er sýsluhjúkrunarkona fyrir Pembinasýslu, og Þorlákur er á National Soldiers´ Home Bandaríkjanna. Í opinberum störfum hef eg tekið þátt síðan eg kom hingað, og haft ýmsan starfa á hendi; t.d. verið bygðarráðsmaður nokkur ár, friðdómari 15 ár, skólanefndarmaður 20 ár, héraðsfulltrúi nokkur ár, þimgmaður á ríkisþinginu í Bismarck 2 ár. Eg hefi einnig verið viðriðinn ýmis önnur félagsmál; safnaðarfulltrúi var eg í 15 ár, bændafélagsformaður nokkur ár. Eg hefi þannig, sem hver annar brautryðjandi, stuðlað að landsmálum eftir kringumstæðum. Nú er eg 75 ára og mér er farinn að stirðna fótur.
Á þessu 45 ára tímabili, hefir þetta pláss tekið mikilli breytingu, undir starfi bygðarmanna, að ótrúlegt myndi hafa þótt á fyrstu landnámstíð. Það er eins og töfrasproti hafi snortið landið. Frá eyðiskógum, mýrarfenum, sléttum og sandhólum, hefir það umhverfst í fagrar bújarðir, ræktuð skógarbelti, snotur og vel bygð þorp, með járnbrautum, talþráðum og rafmagnsljósum. Bændabýlin hafa daglegan bréfbera, “Radio“ og ýmis önnur nútíðar hlunnindi. Í einu orði að segja, íslenzka bygðin í Dakota er nú fagurt og farsælt bygðarlag. Þetta er nú hvað snertir bændurna hér í landi og sannast fullkomlega hið gamla spakmæli, að “bóndi er bústólpi, bú er landstólpi“. Því miður hefir íslenzka bygðin í Dakota ekki verið laus við innbyrðis óeirðir, og bæta íslenzku blöðin því miður ekki úr þesskonar.
Yfirlit – Nú, þegar eg lít yfir landnám Íslendinga á Íslandi, og nú í þessum nýja heimi á nítjándu öldinni, og hugsa um gullöld Íslands, þegar manndómur, löghlýðni og réttsýni réðu völdum; og svo eymdaröld þess , þegar yfirgangur, hatur og ómennska náði yfirhönd, sem ekki batnaði fyr en óeigingjarn mannskapur öldum síðar bætti hag landsins, – þá finst mér það alvarlegt spursmál, að Íslendingar rýri ekki velferð sína með flokka drætti. Sameiginleg velvild er miklu starkara afl en stríðandi óvild. Að endingu vil eg leyfa mér að tilfæra orð, sem W. S. Russell, í bók sinni “Iceland“, hefir í kveðju sinni til Íslands: “Já, Ísland, synir þínir og dætur á sléttum Dakota, í Winnipeg eða annarsstaðar, sem hafa fjarlægst þínar iðngrænu hlíðar og fögru dali, finna til sárs saknaðar, er hugur þeirra svífur til föðurlandsins. Þitt þúsund ára stríð við þinn innbyrðis ójöfnuð, prestavald og prangara, jarðskjálfta og eld, hafa skilið eftir sitt djúpt grafna mark á þeirra ennum. En þú ert frjáls, fyrir þér liggur framtíð, fögur sem brá Baldurs. Láttu ekki innbyrðis ójöfnuð og öfund yfir nágrannans velmegun, verða þér til falls. Frá umliðinni tíð hefir þú næg dæmi þér til viðvörunar, sem vísa þér veg eins glögt og varðan á fjallinu.“ Þetta má einnig heimfæra til Vestur-Íslendinga, því að andi mannsins er sá sami sem hann var fyrir þúsund árum.