Stephan G Stephansson

Vesturfarar

Stephan G. Stephansson á Íslandi

Áskorun til fjársöfnunar

Stephan G. Stephansson er eitt af frumlegustu skáldum þjóðar vorrar, víðsýnn, djúphygginn og orðspakur. Sum kvæði hans eru snilldarverk. Hann fór tvítugur til Vesturheims 1873 og hefir dvalið þar síðan. Hann er alþýðumaður og hefir jafnan unnið hörðum höndum  fyrir sér og sínum. Þó hefir hann lagt þann skerf til bókmenta vorra, er seint mun fyrnast, því að hann hefir auðgað þær bæði að efni og formi. Þjóð vorri, landi og tungu ann hann heitt, sem kvæði hans bezt sýna. – Landar hans í Vesturheimi hafa á ýmsan hátt vottað honum þökk sína, en íslenzka þjóðin hér heima hefir ekki enn sýnt honum neinn vott virðingar sinnar né þakklætis. Kvæðin falla henni í skaut, og mætti ætla að henni væri kært að sýna á einhvern hátt þökk sína í verki.

Vér undirritaðir fulltrúar : Ungmennafélaganna í Reykjavík, Hins íslenzka stúdentafélags, Stúdentafélags háskólans, Lestrarfélags kvenna Reykjavíkur, mentaskólafélagsins Framtíðarinnar, verzlunarmannafélagsins Merkúrs og sambandsstjórnar U.M.F.Í, höfum því afráðið að gangast fyrir því að bjóða skáldinu hingað í kynnisför á komanda vori, og safna því fé, er til þess þarf. Vonum vér að öllum vinum skáldsins verði ljúft að leggja nokkurn skerf til þessa, eftir efnum og ástæðum. Gefendur riti nöfn sín og tillög á lista þenna, og sé hann síðar sendur , ásamt fénu, til gjaldkera nefndarinnar, Helga Bergs, Þingholtsstræti 27, Reykjavík.

Reykjavík, 12. desember, 1916

Ágúst H. Bjarnason, Guðbrandur Magnússon, Guðm. Davíðsson, Guðm. Finnbogason, Helgi Bergs, Laufey Vilhjálmsdóttir, Stefán Jóh. Stefánsson, Steinþór Guðmundsson, Theódóra Thoroddsen.

 Boðsbréfið Reykjavík, 2. janúar, 1917

Herra Stephan G. Stephansson
Markerville, Alberta
Kæra skáld!

Oft hefir hér verið á það minst manna á meðal og jafnvel á prenti, hve gaman það væri fyrir oss landa yðar, ef oss eitt sinn mætti auðnast að fá að sjá yður hér heima á ættlandi yðar. Þér eigið hér að vonum marga vini, sem unna ljóðum yðar og dást að þeim, og mundu þeir einskis fremur óska en að mega sýna yður einhvern vott þeirrar virðingar og þess þakklætis, sem íslenzka þjóðin skuldar yður. Eins og í sumum örðum efnum hefir þó higað til framkvæmdanna verið vant, þótt viljinn væri góður. En fyrir skömmu tóku Ungmennafélögin í Reykjavík, Lestrarfélag Kvenna Reykjavíkur, Mentaskólafélagið Framtíðin, verzlunarmannafélagð Merkúr og sambandsstjórn U.M.F.Í. sig saman um það að bjóða yður hingað í kynnisför á komandi vori og safna því fé er til þess þarf. Vorum vér undirrituð kosin í nefnd til að hafa á hendi framkvæmdir í þessu efni.

Vér leyfum oss því hér með að flytja yður heimboð í nafni þessara félaga og allra þeirra, er með oss vinna og óskum vér þess innilega, að þér mættuð sjá yður fært að taka þessu boði. Það er í ráði, að Gullfoss fari til New York síðast í Apríl næstk. og mundi hann þá að öllum líkindum fara þaðan heimleiðis um miðjan maí, en koma hingað seint í þeim mánuði. Hefir oss hugkvæmst, að sú ferð mundi ef till vill henta yður vel. Gætuð þér þá dvalið hér yfir sumartímann og ferðast um landið eftir vild yðar og langan. Vonum vér að sú ferð mætti verða yður til nokkurrar skemtunar, ef íslenzka sumarið fagnar yður svo sem þér hafið til unnið.

Allur kostnaður af för yðar, frá því þér farið að heiman, unz þér eruð aftur heim kominn, skal yður verða greiddur og ferðakostnaður að vestan sendur yður fyrirfram. Munum vér gera það, sem í voru valdi stendur til að yður verði heimkoman ljúf. Ef þér, sem vér vonum, þiggið heimboð vort, væri oss kært að fá sem fyrst svohljóðandi símskeyti: Dr. Finnbogason Reykjavík  Yes Stephansson.

Með beztu kveðjum og óskum gleðilegs nýárs.

Virðingarfylst.

August Bjarnason, Guðbrandur Magnússon, Guðm. Davíðsson, Guðm. Finnbogason, Laufey Vilhjálmsdóttir, Gunnl. Einarsson, Helgi Bergs, Stefán Jóh. Stefánsson, Steinþór Guðmundsson, Theódóra Thoroddsen.

Í Vesturheimi fögnuðu Íslendingar með skáldinu og ritstjóri og útgefandi Almanaksins, Ólafur S. Thorgeirsson, helgaði útgáfuna 1918 heimför Stephans G. Stephanssonar. Hann birti í riti sínu ljóð, ræður og myndir sem hér er birt.

Heimför Stephans G. Stephánssonar, skálds 1917 

,,Einn merkasti viðburður í sögu Vestur-Íslendinga er heimboð Stepháns G. Stephánssonar til Íslands árið sem leið. Öll helztu menningarfélög þjóðarinnar gengust fyrir boðinu…Stephán fór að heiman frá sér 7. maí, en dvaldi um tveggja vikna tíma í Winnipeg, áður en hann lagði af stað til New York, því þaðan var ferðinni heitið yfir hafið með Gullfossi, skipi Eimskipafélags Íslands sem boðið hafði Stepháni að vera sinn gestur landa milli. Meðan á dvöl Stepháns stóð í Winnipeg, var honum haldið veglegt kveðjusamsæti, ásamt herra Árna Eggertssyni, sem honum varð samferða til Íslands. Fyrir því stóð klúbburinn Helgi magri. Til Reykjavíkur kom Stephán daginn fyrir minningardag þjóðarinnar, sem orðinn er 17. júní. Að undantekinni hinni vanalegu virðingar-athöfn, sem sýnd er þjóðhetjunni framliðnu, Jóni Sigurðssyni, þann dag, snerist hátíðahaldið að mestu leyti um Klettafjallabóndann og skáldið: Stephán G. Stephánsson.

Útgefanda Almanaksins kom í hug, að bæði væri það gagn og gaman að safna öllu því saman í eina heild sem um Stephán var sagt heima, í bundnu og óbundnu máli og kom á prenti hér og þar í blöðum, og í sérprenti, en þó er hér fleira, sem eigi var borin prentsverta. Veit eg það vel að öllum Vestur-Íslendingum mun mikil nautn í að lesa það, sem hér fer á eftir um einn mætasta manninn sem þeir eiga.“ 

Jakob Thorarensen

Stephan G. Stephansson

Skáldagramur, gestur mæti,
Gaktu’ ‘í bæinn, taktu’ sæti.
“Langförull“ í listar heimi,
Lands vors sæmd af beztu gerð.
Óra fórstu, en endist lengur,
ennþá muntu fullvel gengur.
:,:Klettafari í hug og hreimi,
Hvað er títt úr þinni ferð?:,:

Af þér straukstu vetrarvindinn,
Vatzt þér upp á hæsta tindinn,
Söngva vanst úr víðsýninu,
vökufús og geislakær.
Nær sem Ísland af þér frétti,
altaf varstu’ á geistum spretti
:,:fram úr miðlungs mýsuðinu,
máttkvæður og hamrafær. :,:

Dýr og þung er þeigna gjöfin,
þú slóst vita’ á breiðu höfin.
Sólarris að vestanverðu
virðir Frón þinn hörpuslátt
arnfleygastur Íslendingur,
Ameríski bragkýfingur
:,: gæfulega goðorð berðu,
gelur nýjan Egilshátt. :,:

Nú er “Fóstran“ fjálg og ræðin:
“Fyrirgefðu vöggukvæðin.
Gáfur svona glaðvakandi
get eg aldrei krept né svæft.
Þolinn varstu – því fór betur –
þinnar æsku snjóavetur.
:,: Fremd vor bezt í fjörru landi,
Frækilega’ er mark þitt hæft. :,:

Velkominn þig vornótt býður;
Vinarkveðja’ í blænum líður.
Dalaelfur djúp þitt róma;
Duna fossar gleðislag.
Stormur betri stilling sýnir.
Stuðlabjörgin frændur þínir,
:,: tíguleg í tíbrá ljóma,
telja sér þinn höfðingsbrag. :,:

Ekki þarftu’ í langar leitir,
ljós er kveikt um allar sveitir.
Saman lesa æska’ og elli
undir hinstu náttamál.
Logar yfir þessu þingi
þökk frá hverjum Íslendingi.
:,: Heilir þeysi’ að þínum velli!
Þakka fyrir silki’ og stál. :,:
17. júní 1917. Jakob Thorarensen

Guðmundur Finnbogason

 Ræða dr. Guðmundar Finnbogasonar í heiðurssamsæti fyrir   Stephan G. Stephansson, 17. júní 1917.

Eg man hve starsýnt mér var á grösin, sem uxu upp úr sandinum austur á Fjöllunum, þar sem eg var í æsku. Þau voru kjarnmeiri en aðrar jurtir, og þar var ilmur úr grasi. Eg hefi líka oft hugsað um það, að einhver orðspakasti maðurinn, sem sögur vorar greina frá, var einmitt sá, sem allra manna lengst varð að fara einförum og hafast við á öræfum; eg á við Gretti Ásmundsson. Og mér finst það eigi síður einkennilegt, að tvö afskekt eyðikot skuli metast um heiðurinn af því að hafa fóstrað annað eins kraftaskáld og heiðursgesturinn okkar,   Stephan G. Stephansson, er. En þetta ber alt að sama brunni. Það sýnir, að öræfanna andi, sem á sér ríki og völd á þessum slóðum, er heilnæmur og hreinn. Í biblíunni er oft getið um óhreina anda út af mönnum, sem þeir höfðu farið í. Hann spurði einn þessara óhreinu anda að heiti. En hann svaraði: “Legíó heiti eg, af því að vér erum svo margir.“ Það var þessi Legíó, sem bað um að mega fara í svínin, og það fekk hann. En Legíó er ekki úr sögunni. Hann lifir enn. Legíó er hinn óhreini andi, sem púkkar upp á fjöldann, höfðatöluna, meirihlutasamvizkuna, aldarandann, tízkuna. Það er hann, sem vill steypa alla í sama mótinu, þola engum að hugsa, tala, lifa og láta öðruvísi en allur almenningur. Legíó er fjandi alls þess, sem frumlegt er, allra þeirra, sem ekki vilja “binda bagga sína sömu hnútum og samferðamenn“. Legíó leitar á hvern mann og margir eru þunglega haldnir af honum. Hann er því magnaðri sem þéttbýlið er meira. En uppi á öræfum má hann sín einskis. Þar ræður hinn hreini andi einverunnar, víðáttunnar, andi frjálsra ferða. Þar er einstaklingurinn veginn á sína eðlisvog. Grösin, sem þar gróa, eru landnemar. Þau byggja ekki í skjóli annara. Þau festa rætur í sandinum upp á sína ábyrgð, lifa eftir eðlislögum sínum af eigin ramleik, í frjálsri samvinnu við sólina, regnið og blæinn. Þess vegna er þar einkennilegur ilmur úr grasi. Þar og finnur andi mannsins sjálfan sig, þar stillast strengir hans í samræmi við náttúruna. Þess vegna eru orð Grettis svo djúpúðug. Skáld öræfanna er

“ haralyndur
hlákuvindur –
höfundur sem engan stælir,
sitt á eigin orðum mælir
hvað sem hugsar tún og tindur –
starfar, stundar,
straums og grundar
öflin leysa úr ísa-tjóðri
opna dyrnar fyrir gróðri
rumska því sem bundið blundar.“

Eg sé ekki betur en að þetta sé lýsing á heiðursgestinum okkar. Og hafi andi öræfanna nokkurn tíma orðið hold og búið með oss, þá situr hann nú hérna. Stephan G. Stephansson er í mínum augum dularfylsta fyrirbrigðið í íslenzkum skáldskap. Hann er, eins og eg benti á áðan, uppalinn á tveimur eyðikotum, sem nú eru, og hefir víst ekki farið víða um þetta land. Hann hefir aldrei gengið á neinn skóla. Hann hefir alla tíð unnið hörðum höndum fyrir sér og sínum. Hann fer héðan tvítugur og nemur land í annari heimsálfu, ekki einu sinni, heldur þrisvar. Þrisvar hefir hann tekið nýtt land til ræktunar, rutt mörkina og lagt land undir plóg. Slíkt gerir enginn nema sá, sem fæddur er landnámsmaður, forustumaður, sem alt af þorir að ríða á vaðið undan öðrum og leggja fyrstur hönd á plóginn. Reyndar veit eg ekki, hvers vegna Stephan G. Stephansson hefir ekki numið yndi í fyrstu eða öðru landnámi sínu og ekki fyr en hann er kominn vestur undir Klettafjöll, nema það hafi verið af því, að hann vildi vera sem fjærst Legíó og sem næst öræfunum, svo hann gæti kveðist á við “andheita fjallrænuna“. En í öllum þessum önnum frumbýlingsins, meðan hann var að yrkja landið,
“opna dyrnar fyrir gróðri,
rumska því sem bundið blundar“
í moldinni, þá hefir hann verið að yrkja ljóð, sem hafa flogið eins langt og íslenzk tunga er töluð og geymast munu jafnlengi og hún. Sáðmaðurinn og skáldið yrkja báðir á íslenzku, og í lífi Stephans hefir þetta orð alt af haldið sinni tvöföldu merkingu.

Og þetta er það, sem mér þykir merkilegast: Þessi maður sem í æsku lifði óbrotnulífi alþýðudrengsins á afskektum stöðvum, og síðan hefir nálega hvern virkan dag haft höndina hefta á öxinni, plógnum, orfinu, rekunni, hann er einn af víðlendustu landnámsmönnum og höfðingjum í andans ríki þjóðar vorrar. Þegar hann fór tvítugur úr landi og allir hugðu að hann flytti aleigu sína í einu kofforti, eða hver sem hirzlan hans var, þá flutti hann með sér ósýnilegan sjóð alls þess, sem dýrast er og bezt ættað í tungu vorri, bókmentum og þjóðareðli, og þann sjónauka, er sýndi honum ættlandið í allri sinni tign og fegurð, hvenær sem hann brá honum fyrir augu. Á þann einn hjátt get eg gert mér grein fyrir því lífi, sem íslenzkan lifir í ljóðum hans og þeim myndum, sem þar eru af landinu okkar. Í ljóðum Stephans er íslenzkan frjó, hún er þar “mærðar timbur máli laufgað“, eins og Egils. Það er eins og honum séu tiltæk orð úr hverju fylgsni íslenzkunnar, forn og ný, þau koma þar í nýju ljósi og óvæntum samböndum, eða steypt upp í þau form, er tungan hefir skapað endur fyrir löngu. Eg varð alveg forviða, þegar eg heimsótti Stephan og komst að því, að hann á enga íslenzka orðabók sem gagn er í – nema sjálfan sig. En það er líka það orðasafn sem seint mundi þrjóta. – Ef eg á að dæma af kvæðum Stephans, þá er íslenzkan fær í allan sjó, og verður aldrei kveðin í kútinn, hvaða yrkisefni sem henni er beitt við.

Lýsingar Stephans virðast mér hafa það til síns ágætis, að um leið og orðunum slær niður, einmitt þar sem þeim er ætlað að hitta, þá sindra samlíkingarnar og gera alt lifandi og sjálfstakt. En einmitt þetta hefir á öllum öldum verið einkenni hins sanna skáldskapar, að gefa öllu líf og andadrátt, að gera hina sýnilegu veröld samkvæða við sál mannsins, svo að hún yrði eign hennar og óðal. Og í mörgum beztu kvæðum Stephans finnum vér einmitt þennan undirstraum lífsins í náttúrunni, finnum, að lýsingin gefur hvorttveggja í senn: mynd hins sýnilega og sögu hins ósýnilega anda, sem í því býr og hrærist. Í tíbrá málsins rennur náttúran og mannslífið saman. Þar endurspeglar hvað annað, þar sprettur hvað af öðru:
“Mér skapar veröld með einstökum orðum,
íslenzkan nú, eins og hann gerði forðum“
kveður skáldið. Og stundum getum vér naumast greint rödd náttúrunnar og rödd skáldsins að, því að þær eru samróma.

Yrkisefni Stephans eru ekki síður auðug og margháttuð en málið hans. Mann furðar, hvaðan honum kemur allur sá hugmynda-auður, hvar og hvenær hann hefir numið alt það, sem hann veit. Hann hefir sagt, að
“lífsins kvöð og kjarni er það að líða
og kenna til í stormum sinna tíða.“
Og það hefir hann gert. Hann er svo veðurnæmur, að hann finnur jafnt til með því sem gerist hár heima á Íslandi, austur á Rússlandi, suður í Transvaal og því sem nær honum er, og hugur hand býr jafnt í fornöld vorri og sögum og í nútíð og framtíð. Hann fær yrkisefni úr öllum áttum. Og þegar vér gætum alls þessa og minnumst þess, að skáldagyðjan á sextugasta afmælisdegi hans sagði við hann:
“Þú helgaðir stritinu hraustleik og dag,
mér hríðar og nótt og þreytu.“
Þegar vér með öðrum orðum minnumst þess, að ljóðin hans, með öllu því sem í þeim felst, eru aðallega andvökustarf, þá verður manni að spyrja: Hvenær hefir hann sofið? Eitt er víst:
“Þú hefir af þér æfilangt
engan róður sofið.“
Og nú situr þú hér á meðal vor, Stephan G. Stephansson. Vertu velkominn! Við báðum þig að koma vegna þess, að okkur langaði svo innilega til að taka í hönd þína og þakka þér fyrir landnámsstarf þitt í þarfir íslenzkra bókmenta. Þú hefir auðgað þær að margvíslegum ljóðum, sem lifa munu um ókomnar aldir, því að eins og þú hefir sjálfur kveðið til annars skálds:
“Yfir áraflóðið
út með Furðuströndum,
langseildara er ljóðið
lengstum vinahöndum!

Það berst út á Ægi eilífðanna
eins og byr til frægustu siglinganna.
Þér þarf ekki að segja það né sanna
sextugum í flokki yngri manna.

Yfir aldasjóum
óma hörpur Braga
enn frá eyðiskógum
elztu landnámsdaga.

Hver sem orti, ungur þó að félli,
uppi er hann! því kvæði heldur velli.
Aftanskin þér skín frá hverju felli.
Skáldin bera fegurst hæstu elli.“

Þetta á alt við sjálfan þig, og það er gaman, að því lofi sem þú hefir kveðið um aðra, má snúa upp á sjálfan þig og segja eins og strákarnir:“Það getur þú sjálfur verið.“ En þú ert jafnframt eitt hið fegursta dæmi þess, sem eg tel ódauðlegan heiður þjóðar vorrar, að íslenzkur bóndi, sem
“ár og eindaga
sólbitinn slær,
siglir særokinn
stjörnuskininn stritar.“
hann getur sezt á hinn æðri bekk með andans mönnum þjóðarinnar og skipað þar sæti sitt með rögg og skörungsskap.

Ljóð þín eru oss og sönnun þess, að íslenzkan er landnámstunga og þarf ekki að visna í rót né fölna, þó hún sé gróðursett á fjarri strönd innan um aðrar fjölmennari tungur, að hún reynist máttug í eðli, hvar sem hún kemur og yngist upp með hverju nýju yrkisefni. Vér könnumst í fari þínu við margt það sem mestum ljóma hefir orpið yfir líf og bókmentir forfeðra vorra: drengskapinn, hreinlyndið, áræðið, einræðið og orðspekina. Þú hefir farið þinna ferða, hvort sem öðrum líkaði betur eða ver, og fylgt því einu að málum er þú hugðir sannast og drengilegast. Allar götur eru í fyrsta einstigi, allir forustumenn einyrkjar. En þar sem góður drengur er fyrir, þó í allra óþökk sé, þar fara aðrir eftir:
“og alfaraleið verður, einstígur hans
þó aldirnar fenni yfir sporin.“

Við þökkum þér fyrir þann hug og það hjartalag, er þú hefir borið til þjóðar þinnar og ættjarðar, fyrir öll yndislegu kvæðin, sem þú hefir til þeirra kveðið. Við þokkum þér fyrir það, að þú lézt þér ekki fyrir brjósti brenna að leggja út á hafið það hið djúpa og hættulega og koma hingað, og við óskum og vonum, að ferðin megi verða þér til ánægju og að ættjörðin fagni þér með öllum þeim unaði og blíðu, sem hún á til. Við vonum, að hún reynist þér eins og þú hefir kveðið:
“nóttlaus voraldar veröld
þar sem víðsýnið skín.“
Sit heill með oss!

Um Stephan G. Stephansson. (Flutt á kvennahátíðinni í Reykjavík 19. júní 1917)

Skáldið vestur-íslenzka, Stephan G. Stephansson, er kominn heim. Það er næstum eins og ævintýri, að við skulum loks fá að sjá hann hér heima og getað þakkað honum sjálf með hlýju handtaki fyrir ljóðin hans. Þau hafa alt af borist oss úr svo mikilli fjarlægð, full af heimþrá, full af ást og fölskvalausri trygð til ættjarðarinnar og alls, sem íslenzkt var. Ástaljóð hans til ættjarðarinnar eru altaf fögur, en þó hjartnæmust úr fjarlægðinni. Það átti vel við, að höfuðstaðarbúar gátu fagnað honum hér heima 17. júní, á minningardegi þjóðarinnar, en konurnar vildu líka fegnar minnast heimkomu hans á hátíðisdegi sínum 19. júní.                                                                                                                                                                                                              Og konurnar hafa líka fylstu ástæðu til þess. Stephan er jafnréttismaður meir en að nafninu til. Fá skáld okkar myndu fremur samfagna konum með fengin réttindi, skilja betur hverja þýðingu þau réttindi hafa og gleðjast yfir því, að konur kynnu að meta þau. Þetta sýna margar kvenlýsingar hans ótvírætt. Það eru engin væmin ástaljóð, enginn fagurgali. Þau eru þar hvergi til þessi “vesælu lognmolluljóð“ um “lífið mitt blíða“ og “elskan mín fríða“. Hann krefst þess líka af konunum,  að þær hafi til að bera heilbrigði og andlegt göfgi, séu sannar konur. Þá eiginleika kann hann að meta. Hann markar þá með fám orðum en skýrum. Og mér finst hver kona oft vera betur sæmd af að fá viðurkenningu frá Stephani í tveimur, þremur ljóðlínum, en af löngum lofkvæðum af venjulegri gerð. – Eg mundi fljótt hafa getið mér til um höfundinn að öðrum eins vísuorðum og þessum:
“Og drotningar hjarta er viðkvæmt og varmt
þó varirnar fljóti ekki í gælum“.

En hann hefir líka auga fyrir kvenfegurð sé hún hrein og sönn.

“Og vorsins yndi og örugt traust
mér ofið fanst í svip þinn inn,
og viðmót  hýrt og hispurslaust“

segir hann í eina mansöngnum, sem til er í Andvökum. Þar finnur hann að vorið sjálft hefir tekið sér gerfi þessarar konu. Hann er viss um það, því allir eiginleikar hennar eru eiginleikar vorsins. Í yfirliti hennar er vorfegurð.

“Og svipur yfir ennið hátt,
-svo æskuslétt og frítt og breitt –
af dagsbrún langri í austurátt
þá alt er loftið milt og heitt.
Hún árdags lit og ljóma ber,
en ljósið bak við skærra er.

Og augun dökk við dimma brá
-svo djúp og skær og morgunglöð-
þau sýndust öllu ljós sitt ljá.
Eins ljóma í geisla döggvot blöð,
þá út um skúra skýin svört
sést skína um dagmál sólin björt.“

En sál hennar er líka þrungin af geislum og heiðríkju vorsins.

“Og mér fanst æ við orðin þín
mér opnast heimur fagurskýr
og alt hið forna sökkva úr sýn,
en sjónarhringur birtast nýr.
Svo breytir vorið velli og björk
og víkkar heimsins endamörk.

Það var sem inst í öndu mér
að augun þín þú hefðir fest,
og eins og vísað væri þér
á versin þau sem kvað eg bezt.
Svo ratar vor á blómablað,
sem býr í skugga á eyðistað.“

Það væri engin tískubrúða né tildursdrós, sem fengi svona kvæði. Ljóðin til þeirra eru öðruvísi. Þar er Hlaðgerður fremst í flokki. Þar kveður við annan tón:

“Nú skil eg hví hönd þín var hvít eins og ull
en haldlaus, – og þetta sem skein eins og gull
í silkiþráð glitað, þitt sólbjarta hár,
Var gefið til sýnis, en engum til fjár.
Þú hefðir ei léð það til liðþurfa manns,
í lífshættu stöddum, í bogastreng hans.

Nú sé eg að augun þín svelldoðagljá
sem sævarós lagður, en djúpöldublá,
en tennurnar, hvirfing úr hafperlum gjör
um hláturinn tamda, er svaf þér á vör –
og heiðslétta ennið og íroðin kinn
var alt saman gert fyrir spegilinn þinn.“

Eg hefi oft undrast, hvernig hægt var að koma svo glöggri mynd og jafn sárbiturri ádeilu fyrir í tveimur erindum. En hann skygnist líka dýpra:

“Trúðu mér, Hlaðgerður að eins um eitt,
eg yrki ekki til þess að sakast um neitt“

Afsökunin er þessi.

“Venjurnar heimta þig svona til sín,
úr siðum og háttum er innrætni þín.
Og það er oss sveinunum sjálfþakkarvert,
því svona höfum vor boð til þín gert.“

Þeir væru ekki allir karlmennirnir, sem fengjust til að viðurkenna þetta, að almennings álitið þurfi hér að breytast, kröfurnar að verða heilbrigðari og stærri. En þá eru kvenréttindin fyrst komin í rétt horf, þegar bæði karlmenn og konur skilja það til fullnustu.. Stephan finnur sjálfur til þess, að hann er ekki ástaskáld, eftir venjulegum mælikvarða. Hann kann ekki listina þá, að ríma alt upp á “sál“ og “bál“, “hjarta“ og “bjarta“ og “ást“ sem “brást“. Hann segir sjálfur um það:

“Já mig, sem var þrásinnis kveðinn í kút
og kaus mér að hlusta og þegja,
er hjúfrandi ástaskáld heltu sér út –
ef hendingar kvæði eg til meyja:
hver tólf vetra Rósalind reigðist við mér
með “rómaninn“ fyrsta í kjöltunni á sér!“

Því miður eru konurnar of margar, sem halda áfram við rómanalesturinn en reigjast við kröfum og kenningum þeirra, er hugsa eins og Stephan G. – Of fáar konur hafa líka lesið ljós hans þannig, að þær hafi grafið þar til gullsins. Þær gætu ekki allar sagt eins og Ólöf á Hlöðum:

“Stephan G. minn Stephansson
stendur bak við tjöldin.

Annars hugar utan við
oní potta gæti’ eg,
stari inn á andans svið,
óði hans þar mæti eg.“

Stephan er orðfár. En það sem hann segir, er honum alvara. Þess vegna er stundum hálfkveðin vísa meira virði en eldheitar ástarjátningar á vörum sumra annara. Það er ekki íburðamikið þetta um stúlku, sem hann játar, að ekki hafi neinn sérstakan fríðleik til að bera.:

“En liti eg augun hennar hlýju í,
hreinlega sagt: eg fann til ljúfrar gleði.“

Og svo kemur þessi lýsing á tilfinningalífi hans sjálfs:

“Eg á til karl minn, kró í huga mér,
hvaðvetna fagurt óvart þangað safnast.

Sumarkvölds eilífð, skógur skúra blár,
skríðbúin hlíð og fossahljóð þar stendur,
Hrafnsvartir lokkar, ljósar augnabrár,
ljúflinga brjóst og mjúkar hvítar hendur.
Mér er þó sérhvers svipmynd ung og ný –
samt á eg enn þar marga kyma tóma.
Fallegu augun hennar þráfalt því
þangað sér smeygja milli eldri blóma.“

Finnum við ekki að inn í þessa kyma hefir fátt getað smeygt sér, nema það, sem var “ekta“?  Og hún er “ekta“ myndin sem hann dregur upp, þar sem hann í minningarljóðum um frændkonu sína kveður þannig:

“Og höndin þín kvenlega, knáleg og feit,
sem kærleikur mjúk og sem einlægnin heit,
jafn hæf til að styðja og hjúkra:
öll vandaverk sýndist að gæti afgreitt
og geirinn, ef þyrfti, eins hæglega reitt
sem hagræða  hægindi sjúkra“

Væri ekki hver kona öfundsverð, sem fengi slík erfiljóð? Einmitt frá manni eins og Stephani G. Stephanssyni, manni sem ekki virðist kunna að smjaðra. Eða sú, er fengi minningarljóð, lífs eða liðin, líkt og í kvæðinu “Kurly“. Það er æskuvina hans. Hann hefir ekki séð hana né frétt ad henni árum saman:

“Þann kaldlýsta haustmorgun höfðum við kvaðst,
þú hrygg – eg með fáyrðaró“

Hann gleymir henni aldrei. Eftir mörg ár, er hann að geta sér þess til hvar hún muni vera og hvernig henni líði. Hann veit það ekki, en eitt veit hann: hún hefir aldrei getað tapað manngildi sínu, sem sönn og fögur kona, hlýtur alt af að vera dýrmæt og hrein perla, hvert sem lífsflaumurinn hefir skolað henni.

“Þú átt kannse í fjölsótta garðinum gröf
við “hleym ei“ og drjúpandi tré-
‘ið bezta kvað fallvaltast, forlögin þau,
að fegurðin skammlífust sé.
Og það, sem er ágætast, þroskast og fyrst,
og þarf ekki áranna með –
Eg fæst ekki um ranglátt þó ræzt hafi á þér
sú reglan, sem vel getur skeð.

Þú sætir í dýflissu, dæmd henni var
oft drenglund, eins hrein eins og þín .–

Og eins er það sama þó sjálfmenskuþræll
þú sért eins og fjöldinn og eg,
þín snild breytir hreysum í hallir og skart
í heimkynni allsnægjuleg.
Því kongborin sál gerir kimann að sal,
að kastala garðshornið svalt!“

Þó frú sértu göfug og skrýðist í skart,
sá skrúði þér maklega fer,
þú prýðir svo gullið! – og dementadjásn
er dýrmætt í hárinu á þér.

Í gröf þína “Kurly“, mín kveð eg um jól.
Í kot þitt, í höll þína inn.
Í fásinni áranna ekki er þér gleymt,
því enn er eg riddarinn þinn.“

Mönnum eins og Stephani G. Stephanssyni er ekki svo mjög hætt við að gleyma. Konur, eins og þær, sem hann lýsir bezt, ættu að vera ógleymanlegar, og hann hefir gert sitt til að þær verði það.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            Fáar ræður eru yfirleitt lítilmótlegri og væmnari en allflest “minni kvenna“, sem flutt hafa verið í heiminum. Þau hafa sjaldan haft bætandi áhrif á hugsunarhátt né þroska kvenna, né átt að hafa það. Okkur hefir oft langað til að loka eyrunum fyrir þeim. En í  “Andvökum Stephans G. eru mörg minni kvenna, sem gætu gert okkur gðfugri og stærri. Það ætti engin okkar, að loka eyrunum fyrir þeim. Við konurnar stöndum þar í þakklætisskuld. Þau minni eru þannig vaxin, að við getum helgað þau öll 19. júní.
Ingibjörg Benediktsdóttir