Sveinbjörn Sigurðsson

Vesturfarar

Sveinbjörn Sigurðsson fór vestur til Winnipeg í Manitoba árið 1884 með konu og barn. Þau bjuggu fáein ár í borginni, hugleiddu næstu skref og leituðu upplýsinga hjá löndum sínum  um íslenskar byggðir. Þá voru umboðsmenn fylkis og ríkis sömuleiðis að benda innflytjendum á svæði, einkum verðandi bændum. Ekki er vitað hvers vegna Sveinbirni datt í hug að skoða nánasta umhverfi stöðuvatnsins Burnt Lake rúmum 100 km. norður af borginni en þangað kaus hann að fara.

Hann lagði af stað eitt vorið einsamall eftir að hafa fengið ítarlegar upplýsingar og ráð um landnám þegar á hólminn væri komið. Hann tók með sér eina kú og vistir, batta bagga á kúna og bar annað sjálfur. Hann skráði hjá sér áður en lagt var í ferðina hvað hann ætlaði að hafa meðferðis, bæði mat og drykk á ferðalaginu og eins nauðsynjar til að hefja landnám. Nestið samanstóð af kaffi, hveiti, sykri og söltuðu svínakjöti og einn pott og ketil. Hús hætlaði hann að byggja svo hann hafði með sér rúðugler, nagla, hurðalamir og keðju. Þá þurfti exi, sög, ljá, skóflu, hamar og hníf. Hann tók með sér riffil og bút af fiskineti en hann ætlaði að skjóta fugl og veiða fisk sér til matar.  Hann var 11 daga á leiðinni, fann ákjósanlegan stað og byggði kofa. Staðurinn við vatnið er norðaustur af Lundar og yst í svonefndri Álftavatnsbyggð. Seinna var þetta litla svæði við vatnið kallað Síbería.

Fjölskylda Sveinbjörns kom norður ásamt öðru fólki síðla sumars. Árið 1889 ól Sigríður Erikka stúlkubarn, Guðnýju Margréti sem var fyrsta barn fætt í hinni nýju íslenskubyggð. Þarna unnu húsbændur hörðum höndum við að hreinsa landið, afla heyja og reyna veiðar í vötnunum. Árið 1891 var einstaklega vorviðrasamt svo slæmt að talsverð flóð urðu í vötnunum svo ræktað land og hagar fóru undir vatn. Sveinbjörn og fleiri heimilisfeður sáu enga aðra lausn en að flytja suður á bóginn og byrja upp á nýtt. Í þetta sinn völdu þeir lönd í svokölluðu Marklandi austur af Grunnavatn. Þarna gekk öllum allt í haginn á næstu árum, lítið samfélag varð til og  voru Sveinbjörn og fjölskylda hans ánægð með gang mála. Sveinbjörn lét sér annt um málefni samfélagsins og vann sér traust landnema. Hann gengdi því mikilvæga starfi að vera friðdómari eða Justice of the Peace. Þetta embætti  var til að leysa minniháttar deilur manna, leita sátta með deiluaðilum til að forðast æðri dómstig sem voru bæði tímafrek og kostnaðarsöm. Þau bjuggu þarna í mörg ár en þegar aldurinn færðist yfir fluttu þau til Lundar.