Sveinn Árnason

Vesturfarar

Sveinn Árnason sendi Davíð Björnssyni ritara Íslendingadagsnefndar eftirfarandi upplýsingar um sjálfan sig. 

 

Íslendingadagsnefndin ákvað árið 1932 að heiðra alla Íslendinga í Vesturheimi sem búið höfðu þar vestra í 50 ár eða meir. Heiðursfélagar fengu bæði viðurkenningarskjal og gullpening sem ýmist var afhent viðkomanda á hátíðinni á Gimli eða sent til njótenda í pósti ættu þeir ekki heimangengt. Árlega birtist auglýsing frá nefndinni í Lögbergi og Heimskringlu þar sem menn voru hvattir til að senda nefndinni upplýsingar um sig og sína til ritara nefndarinnar í Winnipeg.

Sveinn Árnason sendi ritara  umbeðnar upplýsingar árið 1943 sem Davíð Björnsson færði samviskusamlega í sérstaka bók. Í skjalinu kemur fram hvar Sveinn var fæddur, hvaða ár og hvenær hann fór vestur um haf. Stutt yfirlit um lífshlaup hans í Vesturheimi kemur fram; Hann fer fyrst til Winnipeg og þaðan í Akrabyggð í N. Dakota. Hann flytur norður í Brownbyggð í Manitoba og seinna vestur til Seattle í Washingtonríki. Hann átti fyrst íslenska konu og með henni fjórar dætur en kvænist seinna norskri konu. Ennfremur sést að mest hafi hann unnið skrifstofustörf. (JÞ)