Þorsteinn Einarsson

Vesturfarar

Þorsteinn Einarsson settist að í Winnipeg árið 1878 og átti fljótt samleið með löndum sínum í borginni. Hann fór strax að kenna söng og árið 1881 hafði hann stofnað kór en það átti ekki fyrir honum að liggja að lifa lengi í Vesturheimi. Friðrik J. Bergmann minntist hans í Almanakinu 1905 og skrifaði:,, Þýðingarlaust væri að ætla að tína saman alla þá af löndum vorum, er hér létust um þessar mundir. En eins manns viljum vér hér geta, sem mjög var framarlega í hópi Winnipeg-Íslendinga fyrstu árin.  Það er Þorsteinn Einarsson, organleikari…Hann lézt úr taugaveiki 15. janúar, 1884 og var harmdauði öllum þeim, er hann þektu. Hann var fæddur í Tunguseli í Norður-Þingeyjarsýslu í ágústmánuði 1857 og var því enn maður kornungur, að eins 27 ára að aldri. Hann var bróðir þeirra Sigfúsar og Sigurðar Einarssona (Anderson), sem málaraiðn reka hér í borginni, og öllum Winnipeg-Íslendingum eru að góðu kunnir. Hann hafði alizt upp hjá foreldrum sínum á Íslandi, þangað til hann var 16 ára gamall. Þá lézt faðir hans. Var hann þá um nokkur ár við og við hjá Gunnari prófasti Gunnarssyni, er þá var á Svalbarði í Þistilfirði. og naut hjá honum tilsagnar í ýmsum almennum fræðum. Þótti honum vart verða hjá Þorsteini góðra hæfileika og annarra mannkosta; vildi þessi góðfrægi klerkur koma Þorsteini til manns og láta hann læra til prests. En þá létust þeir, síra Gunnar og faðir Þorsteins um sömu mundir, og fórst þá skólagangan fyrir. Tókst Þorsteinn  þá á hendur að sjá um móður sína og systkini og fórst það einkar vel til dauðadags. Hann var snemma hneigður fyrir söng og hljóðfæraslátt; leitaðist hann við að nema hvorttveggja eftir föngum og hafði lokið við nám í að leika á organ, eftir því sem þá tíðkaðist á Íslandi. Auk þess hafði hann lagt fyrir sig málaraiðn áður en hann fór frá Íslandi; en þá var hann aðeins 22 ára gamall. Móður sína styrkti hann til ferðar vestur tveim árum áður en hann dó og var hún hjá honum hér. Hann hafði verið þrjú ár kvæntur Elínu Kjærnested og átt með henni tvö börn; var að eins annað þeirra á lífi, er Þorsteinn lézt.“             Þorsteinn og félagsmál: ,,Vér höfum hér drepið á æfiferil manns þessa sökum þess, að hann var einkennileg persóna og ógleymanlegur í nýlendulífi Winnipeg-Íslendinga þessi fyrstu ár. Þorsteinn Einarsson var maður fjörugur og skemtinn, ötull og félagslyndur, hlyntur öllu því, er betur mátti fara, og drengur góður. Hann var því framarlega í öllum helztu félagsmálum og mun einkum hafa verið góður frömuður allra siðlegra skemtana. Hann var betur að sér í söng og hljóðfæraslætti (organspili) en nokkur annar í hópi Íslendinga um þær mundir. Gekst hann fyrir því, að sönghæft fólk ísl. kæmi saman til söngæfinga og varð töluvert í því ágengt, að menn lærðu ofur-lítið að syngja saman. Var það góðra gjalda vert, þv´hugur unga fólksins hneigðist of mjög að dansi og hugsunarlausu gjálífi, sem fremur gjörði menn að minni mönnum en meiri.  Við fráfall hans svo snemma á æfinni þótti flestum skarð fyrir skildi með Íslendingum í Winnipeg. Bæði var hann maður á bezta aldri, einstaklega vel látinn, og til þess manna líklegastur, að koma ár sinni vel fyrir borð í lífinu og verða einn af forkólfum íslenzks félagsskapar í borginni.“