Þorsteinn Jónsson

Vesturfarar

Þórstína Þorleifsdóttir safnaði heimildum um Íslendinga í N. Dakota til þess að ljúka verki föður síns, Þorleifs Jóakimssonar að skrifa sögu Íslendinga í N. Dakota. Hann féll frá 21. júní, 1923 en bók Þórstínu, Saga Íslendinga í N. Dakota kom út árið 1926. Hún vann mikið verk og leitaði víða fanga. Margir landnemar voru horfnir, dánir eða fluttir brott. Einn slíkur var Þorsteinn Jónsson sem hún fann í Englewood, nokkurs konar útbæ Los Angeles í Kaliforníu. Hann brást vel við beiðni hennar um upplýsingar og sendi henni sína sögu. Hún byggir frásögnina um Þorstein í bók sinni nokkuð á sögu Þorsteins, grípum niður í frásögn hennar.(JÞ)

Járnbrautarbrú í Kinmount. Að gerð hennar unnu íslenskar hendur veturinn 1874-1875. Mynd Jónas Þór

Þorsteinn dvelur nú í Englewood og á þar gott heimili. Vegna þess að  “Þorsteinn“ hljómar talsvert líkt og “Foster“ ef ekki er skýrlega framborið, leyfði Þorsteinn vanfróðum innfæddum í Kanada að uppnefna sig “Foster“. Það nafn hefir staðfezt, og er utanáskrift hans nú: Foster Johnson, Box 126, R.F.D. No. 4, Englewood, Cal. Þorsteinn var eflaust atorkumaður og iðjusamur. Ekki skortir hann heldur fyrirtakssemi og snarpan úrskurð, þegar á reynir. Lund hans er “praktísk“, ferill hans allur ber vitnisburð um það. Þar af leiðandi koma hæfileikar Þorsteins helzt fram í því verklega, það er að segja í hversdagslegu starfi, en ekki í því andlega og bókmentalega. Til dæmis ritar hann:“ Frá Quebec fluttumst við á járnbraut til Toronto og vorum þar tvær vikur. Svo var margt fólk flutt norðvestur til Kinmount. Það var um miðjan oktober 1874. Þar voru margir við járnbrautarvinnu þann vetur, og var eg einn í þeirra tölu. Næsta vor flutti eg með konu minni til Millbrook, Ontario. Við vorum þar í tvö ár, og eignuðumst þar bæði börn okkar. ( allmörg börn dóu veturinn 1874-1875 í Kinmount og sennilega hefur Rósa, tveggja ára dóttir þeirra dáið þar úr því hann nefnir hana ekki í sögu sinni. Það gerir Þórstína ekki heldur í sinni bók; innskot Jónas Þór) Eg vann á sögunarmylnu. Sumarið 1877 fluttumst við til Winnipeg og vorum þar það sumar. Að haustinu flutti eg með konu minni og tveim ungbörnum til Nýja Íslands, tók mér heimilisrétt á 160 ekrum af landi og bygði á því tvílyft hús, 24×16, alt úr vel hoggnum “loggum“, 5 þumlunga þykkum, með kjallara undir.“  Þorsteinn getur þess að hann hafi unnið að múrhleðslu í Winnipeg, og fékk $2 á dag í kaup – nokkur stakkaskifti eru orðin á kjörum múrara frá þeim tíma – og bæti Þorsteinn því við að hans kaup hafi verið 50c meira en aðrir fengu, en varð að vera á undan öðrum altaf, svo “margir gáfust upp“. Nefndum við þetta heimili okkar, sem þá var orðið, Steinkirkju. Þar ruddi eg tvær ekrur úr skógi. En þaðan fluttum við alfarin í júní

Hlaðinn steinveggur undir járnbraut í Kinmount. Kannski átti Þorsteinn einhvern þátt í gerð hans. Mynd Jónas Þór

 1879, til Winnipeg“ (Friðbjörg Guðlaugsdóttir, eiginkona Þorsteins var frá Steinkirkju í Fnjóskadal: innskot Jónas Þór) Ekki dvaldi Þorsteinn lengi í Winnipeg. Hann skrifar: ‘ Um haustið 1879 fluttum við hjón  til Pembina, N. D. og vorum þar til vorsins; þá tók eg land á leigu. En um haustið fluttum við á heimilisréttarland á hinum svonefndu “Dakotasléttum“. Eg setti upp “shanty“, 10×12, á landi mínu. Það haust kom móðir mín heiman af Íslandi með dótturdóttur sína, tólf ára. Vorum við sex í þessu litla húsi og fór vel um okkur. Fannfergi var mikið þennan vetur, og vondar hríðar. Eg þurfti að fara 12 mílur eftir eldivið og komst oft í hart að ná heim.“ (þessi vetur er minnisstaæður fyrir alt fólkið þar um slóðir, og er annálaður eins og nokkurskonar fimbulvetur í Norðvesturríkjunum.) “Það hjálpaði, að eg átti gott hesta-“team“, sem rataði vel.“   

Þaðan af léttist baráttan fyrir Þorsteini. Bú hans blómgaðist stöðugt og blessaðist; bætti hann við sig 320 ekrum af landi, sem kostaði hann $3000, og keypti sér þreskivél fyrir $3500, sem hann notaði til að þreskja í nágrenninu. Árið 1903 seldi hann bú sitt og flutti til þorpsins Cavalier, N. D. , en dvaldi þar ekki lengi, vegna þess að gigt þjáði hann, og fór því til Colorado, og settist þar að um þrjú ár. Hepnaðist honum vel, bæði um fjárhag og heilsubót. Hann ritar að endingu: “Um vorið 1917 seldi eg út í Colorado og flutti þá til Los Angeles, Cal., því dóttir mín og maður hennar voru komin þangað á undan, og líkaði svo vel, að þau eggjuðu okkur að koma þangað til þeirra, og það gerðum við. Í janúar 1918 keypti eg mér tvílyfta byggingu, og keypti vörur í hana til að byrja matvöruverzlun, þó ekki væri álitlegt fyrir mig, sem ekkert þekti til um þá verzlun. Eg og kona mín unnum að því í tvö ár, og gekk furðuvel, þar til í júní, 1920, að hún tók sótt þá er leiddi hana til bana. – Eg er nú hættur vinnu og hirði bara um sjálfan mig; er 76 ára að aldri, ern og frískur og kann mjög vel við mig hér.“