Þuríður Hjálmsdóttir

Vesturfarar

Þuríður Hjálmsdóttir deildi brennandi bókmenntaáhuga með manni sínum, Birni Þorsteinssyni. Björn hafði hlotið góða tilsögn í heimahúsum í Borgarfirði og las bækur og blöð jafnt á ensku og íslensku. Heimili þeirra í Lundarbyggð bar þess merki að þar bjó fólk sem mikið las því alls kyns tímarit og bækur fylltu hvern krók og kima. Áreiðanlega hefur Þuríður lengi haft áhuga á jurtum og lækningamætti þeirra því snemma á frumbýlingsárunum í Manitoba kom þekking hennar að góðum notum. Á síðasta áratug 19. aldar var enga læknaþjónustu að hafa í Grunnavatns- og Álftavatnsbyggðum. Hvorki kom þar læknir né hjúkrunarfólk og því var tíðni ungbarnadauða há, bæði vegna skorts á hreinlæti en einnig tíðum magakveisum. Þótt Þuríður hefði enga menntun í faginu þá leituðu mæður til hennar með veik börn sín og fljótlega reyndi á Þuríði við barnsfæðingar.  Hún sagði sjálf mörgum árum seinna að sennilega hefði hún tekið á móti 80 börnum án aðstoðar læknis en sjálf ól hún fimm syni á umræddum áratug. Það var algengt að verðandi mæður áttu ekki heimangengt og þurfti þá Þuríður oft að taka saman tæki sín og tól, nótt sem dag og þjóta út í byggðina til konu í neyð. Einni jólanótt eyddi hún í bjálkakofa með konu sem á jóladagsmorgun fæddi heilbrigðan dreng. Fyrir kom að Þuríður var einhverja daga í burtu frá heimili sínu og tók þá yngsta barn sitt með sem enn var á brjósti. Hún gat stært sig af því að hafa aldrei misst móður í fæðingu.                                                                                                                                      Þuríður þreifaði sig áfram með jurtalækningar, leitaði jurta úti á sléttunni og inni í skógi. Þessi endalausi áhugi leiddi til þess að menn og konur leituðu til hennar með hvers kyns sár og kveisur. Ung kona brenndist illa eitt vorið og var Þuríður kölluð til. Hún nánast bjó á heimili konunnar meðan á lækningu stóð því daglega þurfti að hreinsa sárin og bera á þau smyrsl sem hún útbjó sjálf á staðnum úr jurtum sem hún fann í nágrenninu. Allt tókst vonum framar og náði konan fullum bata. Fæddi svo sitt fyrsta barn ári síðar og auðvitað tók Þuríður á móti. (Byggt á frásögn Emils Guðmundssonar en honum kynntist ég á námsárum mínum í Winnipeg: JÞ).