Þuríður Sveinsdóttir

Vesturfarar

Í Almanaki Ólafs S. Þorgeirssonar 1916 var eftirfarandi grein um Þuríði Sveinsdóttur úr Aðaldal í S. Þingeyjarsýslu. Höfundur lætur ekki nafns síns getið heldur lýkur hann máli sínu einfaldlega svo;,,Vinur hinnar látnu“

Æskuheimilið Garður. Mynd Skapti Benediktsson

,,Þann 17. mars, 1914, andaðist á heimili sona sinna að Amelia P. O. Sask., ekkjan Þuríður Sveinsdóttir Sigurðsson.  Þuríður heitin var fædd 15. október, 1852 á Syðrafjalli í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu, og ólst upp hjá foreldrum sínum, fyrst á Fjalli, en seinna að Garði í Aðaldal. Foreldrar Þuríðar voru þau Sveinn Jónsson Oddssonar af svokallaðri Hofdalaætt í Skagafirði og Soffía Skúladóttir prests að Múla Tómassonar prests að GrenjaðarstaðMóðir Sveins var Þuríður dóttir séra Jóns frá Reynistað og alsystir séra Jóns, sem lengi var að Grenjaðarstað. Móðir Soggíu Skúladóttur var Þórvör Sigurðardóttir prests frá Höfða í Höfðahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu. Það mun hafa verið veturinn 1877 sem hún giftist Jóni Þórarinssyni frá Halldórsstöðum í Laxárdal. Faðir Jóns var Þórarinn Magnússon Ásmundssonar frá Halldórsstöðum. Móðir Jóns var Guðrún Jónsdóttir frá Bessastöðum í Skagafirði. Vorið 1878 fluttu þau að Langavatni í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu, þar sem þau bjuggu í 15 ár. Þeim hjónum búnaðist vel, þrátt fyrir þó að þau hefðu stóra fjölskyldu er tímar liðu. Jón Þórarinsson var maður duglegur með afbrigðum og búhöldur hinn bezti; hann var talinn karlmenni hið mesta þar í Þingeyjarsýslu, og eru margar sögur þar um. Einnig var hann smiður góður og bókbindari. Þau Jón og Þuríður eignuðust 8 börn. Af þeim lifa sex, öll hér vestan hafs: Mrs. G. Guðmundsson,(Guðrún) gift Guðmundi Guðmundssyni, bónda nálægt Mountain, N. Dakota,; Þóra (Þórvör) skólakennari að Climax P. O. Sask.; Þórarinn bóndi að Amelia P.O., Sask. Hann er giftur Þorbjörgu Gísladóttur Johnson. Sveinn og Magnús að Amelia, báðir ógiftir, og Metúsalem, smiður í Winnipeg, giftur Sigríði Katrínu Sigurrós, dóttur Andrésar Davíðssonar. Árið 1888 tók Jón Þórarinsson veiki þá sem leiddi hann til bana. Leitaði hann sér lækningar heima á ættjörðinni, en er það dugði ekki, fór hann til Skotlands og var þar um tíma. En alt árangurslaust; hann dó í Apríl 1891.“

Tímamót: Lesarinn getur ímyndað sér ástæður ekkjunnar. Efnin voru nær því til þurrðar gengin í þessum langvarandi sjúkdómi mannsins hennar. Hún sá engan möguleika að koma börnum á framfæri án þess að þiggja styrk, án þess að verða hjálparþurfi. En það var henni um megn að hugsa um. Hún afréð því að leita vestur um haf, þar sem hún átti bróður og systur á lífi. 22. júní sama ár fór Þuríður frá Húsavík með 5 börnin, hið elzta á 13. ári en hið yngsta a 2. ári, ásamt með allmörgum vesturförum. Magnús næstur því yngsta, varð eftir hjá óðalsbónda Sigurjóni Jóhannessyni á Laxamýri, sem sýndi það drenglyndi að taka hann til fósturs. (innskot: Manntal 1901 sýnir Magnús enn á Laxamýri, óvíst hvenær hann fór vestur). Sannorður maður hefir sagt, að á leiðinni vestur yfir hafið, hafi vesturfararnir verið afar óánægðir. Alla vantaði eitthvað og allir fóru þeir til vesturfarastjórans, Sveins Brynjólfssonar, sem þeim fanst að bæta ætti úr öllum þeirra þörfum, sem hann gerði eftir megni. Varð honum þá eitt sinn reikað inn í svefnklefa nokkurn. Tvær ferðakistur voru á gólfinu og tvö rúm. Í öðru var ekkja með börn sín fimm. Fjögur þeirra hjúfruðu sig að móðirinni en í fanginu hafði hún drenginn yngsta á öðru ári. Honum varð þá að orði: Þuríður Sveinsdóttir, hvernig stendur á því, að þig eina vantar aldrei neitt? Konan leit upp og úr augunum skein viðkvæmni. Hún horfði yfir barnahópinn sinn og síðan aftur á vesturfarastjórann, en augun voru þá full af tárum. Nei, mig vantar ekkert, var svarið. Hún ein hafði ekki ástæðu til að kvarta. Ferðin gekk vel og var viðstöðulaust haldið til Long Pine í Nebraska ríkinu.“ 

Long Pine er lítið þorp í Brown sýslu, norðar-lega í Nebraska. Mynd JÞ.

Þessi mynd er tekin af kirkjugarðshæðinni ofan við Long Pine þorpið. Þarna í sveitinni var land systur Þuríðar og manns hennar. Mynd JÞ.

Ameríka: Árið 1891 voru siglingar frá Evrópu til Ameríku annað hvort til Quebec í Kanada eða New York í Bandaríkjunum. Þeir sem vildu vestur til Nebraska fóru frá landtökustaðnum til Chicago, þaðan þvert yfir Iowa til Omaha og áfram til Lincoln. Þaðan fór Þuríður til Long Pine með börnin sín, skoðum nú framhald sögunnar: ,,Land var þá sem óðast að byggjast í Nebraska, og mátti ná í heimilisréttarland nálægt þorpinu Long Pine, en ekki sá Þuríður sér fært að gera það þó að Þórvör systir hennar og Jón Halldórsson, sem bjuggu þar skammt frá, mundu hafa hjálpað henni eftir föngum. Tóku þau hjón á móti þeim með opnum örmum og voru þau þar öll um tíma. Svo settist Þuríður að í þorpinu og vann fyrir sér og börnunum með því að draga á þvott fyrir hótelið þar. Tóku nú elztu börnin að hjálpa henni er þau eltust og lærðu málið. Í Long Pine dvaldi Þuríður 5 ár eða þangað til 1896 að hún flutti til Mountain, N.-Dak., þar bjó Sigurjón Sveinsson, bróðir hennar. Þau systkin höfðu ekki sézt frá því þau voru unglingar heima á ættjörðinni og þektu ekki hvort annað. (Innskot: Sigurjón fór vestur til Ameríku árið 1873) Að Mountain var hún 2 ár. Árið 1898 tóku þau systkin, Sigurjón og Þuríður heimilisréttarlönd þar nálægt, sem nú er þorpið Munivh, N.-Dak. Það var um 30 mílur frá járnbraut, og fluttu þangað vestur á löndin um vorið. 1. júlí 1889 giftist Þuríður í annað sinn, Indriða Sigurðssyni. Þau bjuggu nálægt Munich, N.-Dak., í 5 ár eða til 1903, er þau keyptu gott hús í bænum Edinburg, N.D. Þar voru þau í 7 ár. Þeim Indriða og Þuríði varð ekki barna auðið. (Innskot: Indrið Sigurðsson var ekkill, fór vestur með konu og börn árið 1876) Árið 1910 tók Indriði Sigurðsson ásamt með stjúpsonum sínum upp heimilisréttarland nálægt þar sem nú er Amelia P.O. Sask. Hann flutti svo þangað út hið sama ár, en Þuríður kom þangað í Maí 1911. Indriði og Þuríður reistu bú þar vesturfrá og lánaðist vel, enda var Indriði heitinn framúrskarandi hirðumaður með alt, sem að búskap laut; en á því varð skjótur endir. Þann 23. Október 1912 varð Indriði Sigurðsson bráðkvaddur að heimili sínu; hann sýndist vera alfrískur áður, en þennan dag kvartaði hann um lasleik er hann kom til miðdegisverðar. Hallaði hann sér út af í stól og var örendur; banamein hans var hjartabilun. Líkið var flutt til Mountain N.-Dak., og jarðað þar hinn 31. Okt. 1912. Alt frá þeim tíma, að Indriði heitinn dó, fann Þuríður til sjúkdóms þess, er leiddi hana til bana. Hún lá 8 mánuði rúmföst og tók mikið út með köflum, en veikindi sín bar hún með einstakri stillingu og fylgdist vel með því er gerðist í kringum hana, alt til hennar síðustu srundar. Ekki vissi hún hvaða sjúkdómur það var, sem gekk að henni, en hana hafði dreymt, að hún ætti bráðlega að skilja við – og hún bjó sig undir skilnaðinn. Aftur og aftur kvaddi hún börnin sín, sem hún hafði hjá sér, en hin kvaddi hún í huganum;- hún unni þeim öllum svo heitt, og fyrir þau hafði hún lifað, og á sinni löngu æfileið hafð hún jafnan verið reiðubúin að lát alt í sölurnar, líf, heilsu og eignir, til þess að þeim gæti liðið vel. Hún dó eins og áður er sagt, 17 Marz. Líkið var flutt til Mountain, N.-Dak., og jarðað þar 25. sama mánaðar. Húskveðja var haldin að heimili dóttur hinnar látnu Mrs. G. Guðmundsson, og töluðu þeir prestarnir Friðrik J. Bergmann og Kristinn K. Ólafsson. Sömuleiðis héldu þeir báðir ræður í kirkjunni, en séra K. Ólafsson kastaði á rekunum, en séra F. J. Bergmann talaði orðin síðustu yfir gröfinni. Þuríður heitin var góð eiginkona og elskuleg móðir. Hún var ræðin og skemtileg hversdagslega, og ættfróð með afbrigðum. Vinum sínum var hún holl – sagði þeim sannleikann, þó beiskur væri hann stundum. Örlát var hún um hóf fram, að mörgum þótti, og mörgum virtist hún vera betur fallin til að hjúkra og liðsinna en að stjórna, og er það þess vegna undravert, að hún komst svo áfram með börnin sín mörg og smá, er fyrra manns hennar misri við og sýnir það, að mönnum hefir þar skjátlast. Vinföst var hún mjög. Margir eru nýbyggjarnir íslenzku. Margir, sem að aldrei sjá árangur verka sinna, og margar eru konurnar þær, sem að aldrei mun getið af þcí að þær væru konur, en þó héldu þær við þeim arineldi, sem alla vermdi og án þeirra hefði verkið verið naumast hálfunnið. Ein af þessum konum var Þuríður Sveinsdóttir. Hún vissi hvað nýlendulífið var, því hún reyndi það tvisvar. Marga gladdi hún á þeim tíma. Margir voru það, sem bar að garði hennar í öll þau ár, og úr þörfum þeirra allra reyndi hún að bæta eftir föngum. En árangur verka sinna fékk hún ekki að sjá til fullnustu. Þó að börnin hennar, sem eru bæði væn og myndarleg, væru henni til sannrar ánægju, og hjá þeim undi hún sér bezt. En nú, er þau gátu endurgoldið henni, þá var hún frá þeim tekin.                                                                                                                                                 Vinur hinnar látnu.