Violet Bristow Einarson

Vesturfarar

Ung að aldri fékk Violet Bristow Einarson brennandi áhuga á íslenskum uppruna sínum í því kanadíska samfélagi sem hún var hluti af. Í VÍÆ V er ágæt samantekt um lífshlaup hennar, sem er svona: ,,Hún lauk 11. bekkjar prófi við skólann á Gimli og hefir ekki í fleiri skóla gengið. Hún hefir komið mjög mikið við sögu Gimlibæjar og haft mikil áhrif á þróun hans á liðnum árum. Hún sat í stjórn elliheimilisins BETEL í mörg ár. Er formaður Framfarastofnunar sveitarstjórnar og Gimlibæjar. Skipuð af Fylkisstjórn Manitoba í ráðgefandi nefnd Iðngarðanna á Gimli (Industrial Parks). Hún var fyrst kvenna kosin í bæjarstjórn Gimli 1958-1961 og kosin bæjarstjóri á Gimli 1962-1967, en það ár var hátíðlegt haldið 100 ára afmæli canadíska ríkisins og kom í hennar hlut skipulagning þeirra hátíðahalda á Gimli. Hún var aftur kjörin bæjarstjóri 1972-1974 og í þriðja sinn 1974-1977, en gaf ekki kost á sér lengur. Hlaut hún í öll þessi skipti mikinn meirihluta atkvæða. Hún var bæjarstjóri 1975, þegar minnst var 100 ára byggðar Íslendinga á Gimli og í Nýja Íslandi og kom því í hennar hlut forusta bæjarins í þeim hátíðahöldum. Hinn 3. ágúst 1975 undirrituðu hún og Bjarni Einarsson, bæjarstjóri á Akureyri, vinabæjasamning milli Gimli og Akureyrar við hátíðlega athöfn í boði bæjarstjórnar Gimli, þar sem m.a. forseti Íslands, Kristján Eldjárn, var viðstaddur…Áhugamál Mrs. Einarsson eru mörg önnur en bæjarpólitík. Hún iðkar þá vetraríþrótt er Curling nefnist, stundar málaralist og orgelslátt og yrkir ljóð. Hún kom til Íslands í fyrsta sinn 1976 í boði bæjarstjórnar Akureyrar og fékk þá tækifæri til að kynnast ættingjum sínum á Akureyri og í Eyjafirði og sat með þeim fjölmennt ættarmót.“