Dagskrá ll

Vesturfarar

Stefán Þórðarson var faðir Karls Gústafs, Cartoon Charlie, sem gerði garðinn frægan hjá W. Disney.

Friðrik Sveinsson var á fyrstu íslensku þjóðminningarhátíðinni í Milwaukee 2. ágúst, 1874, þá 8 ára.

Sigurður Júlíus Jóhannesson hóf útgáfu Dagskrár II í Winnipeg árið 1901, sem er býsna áhugavert því hann hafði aðeins búið þar í borg síðan 1899. Tvö fréttablöð komu út um þær mundir, Heimskringla og Lögberg svo var einhver þörf á þriðja íslenska fréttablaðinu? Sigurður hefur eflaust ráðfært sig við heimamenn og fengið þaðan stuðning því fremur er ólíklegt að hann hafi haft fjármagn sjálfur til að kosta útgáfuna. Ekki er það tilgangur þessarar greinar að grafast fyrir um það heldur skal reynt að lýsa efni blaðsins og tilgangi útgáfunnar. Fyrsta tölublaðið sá dagsins ljós 20. júlí, 1901. Blaðið kom út tvisvar í mánuði fyrsta árið en svo þrisvar í mánuði þar til yfir lauk 24. mars, 1903. Sigurður hafði ritstýrt Dagskrá og Æskunni heima á Íslandi og tók því að sér ritstjórnina fyrsta árið en fékk svo í lið með sér þá Stefán Þórðarson (Stephan Thorson) frá Ásakoti í Biskupstungum og Friðrik Sveinsson (Fred Swanson) úr Kelduhverfi til aðstoðar við ritstjórn seinna árið.                                                                                                                                                                                                    Stefna blaðsins: Þegar Sigurður ýtti Dagskrá II úr vör árið 1901 sagði hann um stefnu blaðsins:,, Dagskrá II verður algjörlega óháð öllum flokkum; berst á móti öllu ranglæti, hvaðan sem það kemur, en fylgir því sem rétt er, hver sem það flytur. Hún segir pólitískar fréttir með stuttum, óhlutdrægnum athugasemdum; og ræðir einkum alls konar félagsmál; talar um búnað og heldur taum bænda; verður eindregið jafnaðarblað; ræðir trúmál og kirkjulíf; flytur ritgerðir um mentun og siðmenning; segir fréttir alstaðar að úr heiminum, en einkum frá Íslandi; tekur málstða Íslands og Íslendinga þegar á þá er hallað; fræðir og gleður og fjörgar; hoppar og dansar og leikur sér þegar það á við, en segir alvarlega til syndanna þegar því er að skifta hver sem í hlut á; fylgir fram algjörðu jafnrétti kvenna við karla í öllum efnum; fordæmir stríð og líflátsdóma sem óguðlegt athæfi; berst fyrir dýraverndun ofl.ofl. Dagskrá flytur skrítlur og gamanyrði, kvæði og skáldsögur, samtöl og eintöl; hefur ýmislegt handa kvennfólki, að lesa og eins handa börnum; flytur ef til vill öðru hvoru myndir; skiftir sér af öllu milli himins og jarðar. Dagskrá vill vinna á móti hræsni og yfirdrengsskap í öllum myndum; hugsar ekki um vinsældir sprottnar af smjaðri; framfylgir réttlæti og sannleik óhikað, hver sem í hlut á; viðurkennir ekki þá reglu, að aldur og auður, staða og ættgöfgi sé einkaleyfi til þess að mega ræða, rita eða hugsa; skríður og aldrei fyrir fótum stórmenna og selur aldrei sannfæring sína fyrir nokkurt verð“.