Helgi Stefánsson

Vesturfarar

Í Vestur-Íslenskar Æviskrár II segir á einum stað um Helga: Helgi var einn vetur (1884-85) í alþýðuskóla Guðmundar Hjaltasonar á Akureyri og annan vetur að námi í Reykjavík og las undir inntökupróf í Latínuskólann, en varð að hætta við skólanám vegna fjárskorts. Tók á næstu árum mikinn þátt í félagsmálum í Mývatnssveit og var stofnandi og útgefandi tveggja sveitablaða: Viljinn og Undiraldan (1888-90). Fluttist vestur um haf árið 1890 og fyrst til Winnipeg, en fór nokkru síðar til Norður-Dakota og vann þar á ýmsum stöðum. einkum landbúnaðarvinnu um fimm ára bil. Eftir að hann giftist átti hann heima að Mountain, N. Dakota, um 10 ár. Var þar starfandi í Menningarfélaginu. Árið 1905 fluttist hann til Wynyard, Sask., og tók þar heimilisréttarland og átti þar heima til dauðadags. Hann slasaðist á fæti fyrsta árið, sem hann dvaldi þar, steig aldrei heilum fæti á jörð eftir það, en vann þó eins 0g hamhleypa að ýmsum félagsmálum. Einn af aðalstofnendum alþýðuskólans Norðra, þar sem íslenzka var í heiðri höfð, sem aðalnámsgrein. Var fyrstu árin í skólanefnd. Vann einnig að stofnun kappræðufélags, lestrarfélags og bindindisfélags í byggðinni. Gekkst fyrir stofnun fríkirkjusafnaðar í Vatnabyggðum, sem fékk presta frá Íslandi til þjónustu. Meðal þeirra presta voru: séra Jakob Jónsson, séra Ásmundur Guðmundsson, síðar biskup, séra Jakob Kristinsson og seinna séra Friðrik A. Friðriksson og séra Jakob  Jónsson. Hann gekkst líka fyrir Íslendingadagshaldi í byggðinni og var ávallt í Íslendingadagsnefnd og oft forseti dagsins, meðan hans naut við. Var vel máli farinn og ritfær. Nokkrar greinar eru eftir hann í blöðum vestan hafs undir dulnefninu: Helgi magri. Sýnishorn af ræðum hans og ritgerðum er í minningarriti um hann, sem Good-Templarafélagið í wynyard gaf út um hann 1920. Um hann orti Stephan G Stephansson: Helga-erfi.“