Yfir hafið í fjórgang

Vesturfarar

Jón Hjaltason setti saman þessa fróðlegu frásögn um ótrúlega lífsreynslu Guðlaugar Árnadóttur.

Sumarið 1904 eru skráðar til brottfarar frá Bessastaðagerði í Fljótsdal vinnukonan Guðlaug Árnadóttir, 28 ára gömul, með rúmlega hálfs árs gamla dóttur sína, Oddnýju. Úr sömu sýslu fer þá 24 ára vinnumaður frá Birnufelli, Hallgrímur Eyjólfsson, og tveggja ára drengur frá Krossi í sömu sveit, Ingólfur að nafni. Bæði börnin eru Guðlaugar og Hallgríms en foreldrarnir eru „ógiptar persónur“ eins og presturinn orðar það í prestsþjónustubókinni.

Öll fjögur ætla þau vestur um haf þar sem foreldrana dreymir um að koma undir sig fótunum. Það á þó eftir að fara á annan veg. Í Winnipeg er litla vinnu að hafa og rótleysið og allsleysið sem þau höfðu vonast til að skilja eftir á Íslandi lagði þau í einelti, líka í Kanada. Hallgrímur veikist af berklum, þau láta bæði börnin frá sér og loks eru þau sett nauðug í hrossaflutningaskip og send aftur til Íslands þar sem þau eiga framfærslurétt í Fellahreppi fyrir austan.

Þegar til Reykjavíkur kemur bregðast yfirvöld ókvæða við. Barnshafandi kona og berklaveikur maður. Ekki aldeilis fín sending það. Og engir peningar til að senda þau á sveitina fyrir austan. Þeim er því meinuð landganga og fara á endanum aftur yfir hafið til Kanada. Guðlaug reynir að búa sem best um mann sinn innan um hrossin og skipstjórinn, sem er danskur, Albert að nafni, gerir það sem í hans valdi stendur til að gera þeim vistina sem bærilegasta. Enn er þeim meinuð landvist og neyðast því til að sigla þriðja sinni yfir hafið. Í þessum hrakningum verður Guðlaug léttari og fæðir tvíbura sem skipstjórinn tekur á móti. Annar deyr en hinn er skírður Albert.

Á meðan þessu gengur hafa fátækrayfirvöld í Reykjavík fengið loforð frá Fellahreppi um að ferðakostnaður parsins austur verði greiddur af hreppnum. Litla fjölskyldan er því ferjuð í land jafnskjótt og Albert hefur lagt skipi sínu við stjóra í Reykjavíkurhöfn. Fyrir austan eiga þau ekki eftir að búa aftur undir sama þaki. Bæði fara í vinnumennsku, Guðlaug hefur Albert hjá sér en degi Hallgríms er tekið að halla. Hann andast í ágúst 1910.

Fjórum árum síðar ber Guðlaug enn á ný barn undir belti. Faðirinn er Kristinn Björnsson en bæði voru vinnuhjú á Ormarsstöðum í Fellum. Í október 1914 fæðist þeim sonur en það eru lítil þrot á þjáningum Guðlaugar. Fáeinum mánuðum síðar andast Kristinn úr lungnabólgu.

Næstum mannsaldri síðar, þegar sonurinn er orðinn aldraður maður, sest Vilhjálmur Einarsson niður með honum og skráir ævisögu sonarins og nefnir: Dömur, draugar og dáindimenn. Og undirtitillinn er: Sigfús Kristinsson á Austfjarðarútunni segir frá einstæðu lífshlaupi sínu.

Þar rifjar Sigfús upp að lengi hafi móður hans dreymt um að draga saman svo mikið fé að hún gæti flust vestur um haf með drengina sína tvo og „þannig sameinað barnahópinn og notið návista niðja sinna.“

„Fátæktin sá til þess að að þessar vonir rættust ekki“, segir Sigfús „svo eg varð Íslendingur en ekki Kanadabúi.“