Kristinn Stefánsson

Vesturfarar

Í bókinni ,,Íslandslag“ er ágæt samantekt um Kristinn Stefánsson eftir ritstjóra verksins, Garðar Baldvinsson.  Hann skrifar: ,,Kristinn var róttækur jafnaðarmaður og frjálslyndur trúmaður og kemur sú afstaða vel fram í ádeiluljóðum hans. Hann beitir gjarnan persónugerfingu náttúrunnar, t.d. í ,,Vorsins dís“ þar sem vorið verður kona, en myndauðugar náttúrulýsingar er einnig að finna t.d. í ljóðunum ,,Sumarkvöld við vatnið“ og ,,Raddir“. Lýsingar bera iðulega í sér ádeilu, eins og í ,,Gamla húsinu“ þar sem vanhirða og niðurlæging hússins vekur upp ádeilu á efnishyggju og græðgi. Kristinn beinir föðurlandsást sinni jöfnum höndum að Íslandi og Kanada eins og sést í ,,Canada“ og bera ljóð hans óræk merki þess að landnemareynslan dýpkar og víkkar sýn hans“.

  1. Sumarkvöld  við vatnið     
  2. Sem draumasmíðs heimur, sem hulduleg borg
  3. nú hvílist þú, stórvatn, með götur og torg
    frá skýjum og himni, sjálft stálgrátt og stilt,
    í stafandi lokninu rólegt og milt,
    með kvöldroða-brydding í blámóðu fjær,
    en bakkann og sandinn og smáþorpið nær.
    Í hillingum eyjarnar tyllast á tá,
    og tangar og víkurnar lognskygndar gljá.
  4. Eg sit hér og horfi’ í þitt holspegla-gler,
    sem hjáliðins atburðar myndina ber
    úr hreyfingarleysinu’ í huga minn inn
    með hjaðnandi geislum um ársalinn þinn.
    Sem brú ert þú spent milli helju og heims
    til hljóðlausu strandanna ómælis-geims,
    sem tengingar-þráður þeim táldregna hug,
    við tómið, er grípur hann vegleysu-flug.
  5. Þú, kyrðsvæfða afl, með þann ástvinar-hátt,
    að alt er við hendina það sem þú átt:
    Þitt dýpi, þinn sandbotn, þín svalbaðsins þró
    og svefninn á eftir og hvíldin og ró!
    Þú slöktir þann eld, sem við iljarnar brann,
    frá ókleyfa bálinu, er daglengis rann.
    Og einangraðs sálarlífs síðustu þrá
    þú svæfðir við djúp það, er horfi’ eg nú á.
  6. Þú sendir þeim aftur í sólbirtu dags
    – þú sýndir þar miðlun til jafnaðar-hags –
    með sannvissa Grunsemd og Ágiskan eins
    hið orðlausa skilmæli’ og þökk ei til neins!
    En bak við það hjátrúin, heimskan og slys
    að hálfráðnum gátum sér leika á mis. –
    Þú mæðunni’ og sorginni marg-býður inn
    og mjúkur sem barnsvagga’ er faðmurinn þinn.
  7. Þú klæðist í blæleysis blettóttan hjúp,
    er brennandi kvöldskýin sveipa þitt djúp,
    sem berir þú yfir þér blóðstokkið lín,
    og breiðir það út yfir lygnuna þín’
    til minnis um sigraða sjálfsvörn og dug
    og samræmi truflað og vænglama hug,
    og skjálfhendra kraftanna skammæu not
    og skildaga-kveðjur og samveru-þrot!
  8. Úr skuggunum umgerð er unnin um þig.
    – frá umliðnum dögum er hin fyrir mig.
    Við bakkana húmkögur breiddur er þinn
    á blundandi víkur með skóginum inn.
    Og stormur er lagður í langferð á burt,
    og lognið og kvöldið fá ei neitt til hans spurt.
    Og lágt flýgur nágagl og náttuglan hrín,
    því nóttin er komin í heimsókn til þín.
  9. Nú hverfur allt skrautið, sem himinninn gaf
    og hásumars kvöldið, þér, innanlands-haf.
    Og undarleg þreytandi, þunglyndisleg.
    hjá þér finst mér nóttin og óyndisleg.
    Að óljúfar minningar sé í því sök,
    í sortanum nætur eg leiði mín rök,
    og harmþáttur lífsins sé ofinn hér inn
    í eyðilegleikann og náttfriðinn þinn.