Pétur Árnason

Vesturfarar

Pétur Árnason ólst upp hjá foreldrum sínum á Ketilstöðum í Hjaltastaðaþinghá til ársins 1845. Þá missti hann þá báða með stuttu millibili. Móðir hans druknaði seint um haustið í Selfljóti, tveim vikum eftir að faðir hans lést. Í bréfi til Þorleifs Jóakimssonar, dagsettu við Íslendingafljót 4. júlí, 1914 segir Pétur:

,,Það var seint um haustið, að við fimm, móðir mín, Vilborg systir mín 18 ára og ég 8 ára, Snjófríður systir mín 6 ára og Pétur föðurbróðir minn, vorum á heimleið til Ketilstaða frá Hjaltastað, úr brúðkaupsveizlu sóknarprestins, séra Stefáns Jónssonar. Móðir mín var ríðandi, en við hin gangandi. Þegar við komum að Grófnavaði svokölluðu, þá var fljótið nýrent með veikum ís. Pétur braut fyrir hesti móður minnar yfir fljótið, fór svo til baka að sækja okkur börnin, og ætlaði með okkur á ís á hyl í króknum skamt fyrir ofan vaðið. Fyrst fór hann með mig og gekk sú ferð slysalaust. Síðan fór hann aftur yfir um og sótti Snjófríði, en þegar þau voru komin meira en miðja leið, bilaði ísinn. Þá var móðir mín komin til mín á bakkanum. Kallaði þá Pétur til hennar og sagði henni að reyna að bjarga barninu; hljóp hún þá út á ísinn, sem brast, þegar hún ætlaði að grípa barnið, og druknuðu þau þrjú í sömu vök. Þeir, sem fyrst komu að fljótinu eftir slysið voru: Þorsteinn Gunnarsson á Hreimsstöðum, austan fljóts, og Jón Jónsson á Ketilstöðum, að vestan. Lík Péturs náðist strax, en þeirra mæðgnanna skömmu seinna.“ 

Í riti sínu ,,Broti af landnámssögu Nýja Íslands’‘ sem út var gefið í Winnipeg árið 1919 segir Þorleifur:,, Eftir þetta var Pétur fyrst í Hjaltastað hjá móðurfólki sínu til fermingaraldurs, svo í Vopnafirði og Seyðisfirði og Eskifirði til þess hann fór til Ameríku 1876“ (Bls. 38)

Selfljót Mynd: Veiðifélag Selfljóts