Rósa Vernon

Vesturfarar

Rósa Hermannsdóttir, betur þekkt vestra sem Rosa Vernon, ólst upp á miklu menningarheimili, foreldrar hennar Hermann Guðmundsson og Guðrún Snjólaug Jónsdóttir voru kunn á Winnipeg Beach fyrir sönglist. Heimili þeirra var miðstöð tónlistarlífs þar um slóðir. Þá naut Rósa þess að margt frændfólk hennar vestra var þekkt fyrir menningarstarfsemi, þeirra á meðal var skáldið Jóhann Magnús Bjarnason í Winnipeg. Í æsku bjó hún um skeið á heimili hans í borginni. Eflaust hefur hann komið henni í  samband við tónlistarkennara þar því barnung hóf hún söngnám. Meðfram náminu vann hún fyrir sér hjá Eaton´s verslunarkeðjunni.  Hún vakti snemma athygli fyrir söng, var einsöngvari í kirkjum, söng í útvarpi og á samkomum í Manitoba. Árið 1929 flutti Rósa til Toronto, vann þar áfram hjá Eaton’s og stundaði tónlistarnám ein sex ár við Royal Conservatory of Music. Að námi loknu hélt hún tónleika í Toronto svo og í Winnipeg, söng oft í útvarpi, bæði í Ontario og Manitoba. Meðfram söngnum hóf hún kennslu og lærðu fjölmörg ungmenni söng á heimili hennar í Toronto.