Steingrímur Kristján Jónasson betur þekktur sem Steingrímur Hall ólst upp á miklu menningarheimili í Garðarbyggð í N. Dakota. Faðir hans, Jónas Hallgrímsson var ómenntaður, sagt var að hann hafi aldrei gengið í skóla. Það kom ekki í veg fyrir lestur bóka og fræðirita hans, hann safnaði bókum og eignaðist gott bókasafn. Ljóst að hann var góðum gáfum gæddur, hann náði á skömmum tíma góðum tökum á ensku, talaði málið betur en flestir í sveitinni hans í N. Dakota. Meðal bestu vina hans voru Stephan G. Stephansson og Káinn, báðir tíðir gestir á heimili Jónasar. Hvort þeir og merkilegt bókasafn Jónasar hafi haft mikil áhrif á Steingrím í æsku skal ósagt látið en það verður að teljast líklegt að allt tal um menningu, ljóðagerð og sönglög leitt Steingrím inn á menntaveginn. Langflestir jafnaldrar hans fetuðu í fótspor feðra sinna og gerðust bændur, hugur hans var annars staðar. Hann gekk í barna- og unglingaskólann í Garðar tók svo 19 ára gamall þá ákvörðun að halda námi áfram. Um hann og tónlistarferil hans er ljómandi samantekt í fjórða bindi Vestur-Íslenskra Æviskráa. Kíkjum á brot: ,,Hann fluttist þriggja ára gamall með foreldrum sínum frá Gimli til Garðar, N. Dakota, og átti þar heima, unz hann fór í skóla 19 ára gamall. Lauk 1999 B.M. prófi frá Gustavus Adolphus Conservatory of Music í St. Peter, Minn., og var næstu þrjú ár í framhaldsnámi í Minneapolis og Chicago Musical College, Chicago, Ill. Lauk þar prófi með hæsta heiðri í píanóleik, organleik, tónlistarsögu, hljómfræði o. fl. Kennari í píanó- og organleik við Gustavus Adolphus Conservatory 1902-05. Píanókennari við St. John´s College, Winnipeg, 1905-07. Organleikari við Fyrstu lúthersku kirkju í Winnipeg 1905-35. Félagi í Manitoba Music Teacher Association frá stofnun og félagi í nokkur ár í The Imperial Academi of Music. Tók próf 1928 í Meissner-aðferð við píanókennslu. Fjöldamargir nemendur hans hafa tekið próf við Toronto Conservatory of Music og þótt standa sig mjög vel.Frá 1936-54 undirbjó hann nemendur til prófs við háskólann í Saskatoon. Hefur leikið opinberlega einleik á píanó við góðan orðstír og hlotið lof tónlistargagnrýnenda fyrir tónlist sína. Heiðursfélagi í The Icelandic Canadian Club. Tónverk: Icelandic Song Miniatures with English translations, Toronto 1924; Songs of Iceland with English Texts 1953; My God, why hast Thou forsaken me, Wpg, 1924. Auk þess mikið af tónverkum í handritum. Gaf Manitobaháskóla 1954 40 bindi af ísl. sönglögum, þ.á.m. óprentuð tónlaga handrit sín, til minningar um konu sína“