Þegar saga Íslendinga í Norður Ameríku er lesin þá leynist ekki trúarágreiningur þeirra á meðal nánast allt Vesturfaratímabilið 1870-1914. Mörgum þykir þetta undarlegt því heima á Íslandi stóð íslensk þjóðkirkja föst á sínu svo nýjar kenningar og straumar vestra fengu lítinn hljómgrunn. Íslenskir mormónar komu til landsins til að boða fagnaðarerindið frá Utah en varð lítið ágengt. Vesturfarar fóru til Ameríku með sína trú og fyrst um sinn dugði hún þeim vel. En landnemar urðu að taka trúmálin í sínar hendur vegna þess að engin ríkiskirkja var í Kanada eða Bandaríkjunum. Ferlið var nánast alltaf það sama, fáeinar fjölskyldur settust að einhvers staðar á kanadísku sléttunni og í miðvestur ríkjum Bandaríkjanna. Það þurfti að koma upp húsaskjóli, hreinsa landið svo mætti brjóta það og rækta. Skólar voru nauðsynlegir og var reyndar gert ráð fyrir ákveðnum fjölda skóla í hverri sýslu. Stundum var landnámið utan skipulags þ.e.a.s. leyfi fékkst til að hefja landnám áður en landið var mælt og skipulagt. Stundum kom það fyrir að menn urðu að færa kot sinn og hreinsa land upp á nýtt því þeir höfðu valið sér stað sem annað hvort járnbraut átti að liggju um eða skóli átti þar að standa. Einhverjir landnemar fundu þörf fyrir guðshúsi, vildu koma mynd á lítið samfélag í mótun í sveitinni og kirkja hlaut að vera hluti hennar. Einhver landnemi gaf kost á byggingu kirkju á sínu landi, gaf land undir kirkju og kirkjugarð. Áður en þetta gerðist söfnuðust menn saman á sunnudögum hjá einhverri fjölskyldu og höfðu húslestur. Þegar bókaeign einstaklinga sem vestur fóru er skoðuð sést að mikið fór fyrir guðsorðabókum, ritum sem gefin höfðu verið út á Íslandi og fundust á hverju heimili. Húslesturinn var því ekkert vandamál. En það þurfti að skíra börn og ferma, gefa saman hjón og jarða látna. Prestlausir gátu menn ekki verið lengi þannig að það var mikið fagnaðarefni þegar ungur maður las guðfræði við einhvern háskóla og var vígður prestur. Guðfræðin í Norður Ameríku var mótuð af trúarhreyfingum, sérhvert kirkjufélag stofnaði skóla þar sem guðfræðinemar fengu tilsögn. Lærðir prestar af Íslandi fundu býsna fljótt ólíka túlkun norðuramerískra presta og áttu sumir afar erfitt með að samþykkja hana. Séra Jón Bjarnason, meir en nokkur annar íslenskur prestur er starfaði vestra átti í trúardeilum vegna þessa. Hann gat ómögulega sætt sig við túlkun séra Páls Þorlákssonar sem sína menntun fékk hjá norsku og þýsku kirkjufélagi (Norwegian Synod og The German Evangelical Lutheran Synod) og ekki gat hann fellt sig við kenningar Únítara seint á 19. öld. Þeir sem settust að í borgum og bæjum gafst kostur á hinum og þessum söfnuðum sem stofnaðir voru af ýmsum þjóðarbrotum. Á árunum 1875-1880, til dæmis störfuðu 9 trúfélög í Winnipeg, sum hver með fleiri en einn söfnuð en flestir Íslendingar þar í borg sóttu messur í svonefndri Congregationalistakirkju.