Á seinni hluta 19. aldar var Únitaratrú útbreiddust í Nýja Englandi en nokkuð bar á henni bæði í Philadelphia og í Charleston í Suður Karólína. Þótt trúin hafi fylgt landnemum í vestur síðustu áratugi aldarinna til Ohio, Illinois, Missouri og Kaliforníu nægði fjöldinn ekk til að mynda söfnuði í þessum ríkjum. Þeir spruttu hins vegar upp víða meðal íbúa Nýja Englands og voru meðlimir úr öllum stéttum, menntamenn, heimspekingar og úr stjórnsýslunni. Á umræddu tímabili (1865-1900) bar mjög á hvers kyns rannsóknum og skoðunum um lífið og tilveruna. Þá voru öll helstu trúarbrögð krufin til mergjar sem leiddi til ólíkra skoðana en um leið skapandi þróunar í andlegum efnum. Fólkið, sem flutti til Vesturheims leit gagnrýnum augum á gamlar skoðanir og úreltar venjur og siði í heimalandinu. Úr þessum vangaveltum varð til ákjósanlegur jarðvegur fyrir allskyns hreyfingar og félagsskap t.d. Free Religious Association (Frelsistrúar félagið). Eitt félag sem myndaðist í miðvestur ríkjunum árið 1852 var Western Unitarian Conference. Nánast allir söfnuðir milli Alleghany í austri og Klettafjalla í vestri tengdust félagi þessu á einn eða annan hátt. Á síðustu áratgugum aldarinnar lagði félag þetta ríka áherslu á að sýna fram á sjálfstæði sitt, að engin tengsl væri milli þess og Boston Únitarafélagsins í Nýja Englandi. Hins vegar er varla hægt að telja Únitarahreyfinguna í miðvesturríkjunum eitthvert afl sem sameinaði alla frjálshyggjandi einstaklinga þar um slóðir. Dæmi um þetta voru fjölmargir þýskir innflytjendur, sem voru fríþenkjandi en áttu enga samleið með Únitörum. Innflytjendur frá Noregi fluttu þúsundum saman til Vesturheims og leituðu þar vestur á bóginn. Einn þeirra var Kristofer Janson, sem á árunum 1880-81 myndaði söfnuð í Minneapolis og Brown-sýslu í Minnesota. Hér er rétt að taka fram að hann náði aðeins til lítils hluta norskra innflytjenda en fyrir Únitarahreyfinguna var þetta vottur þess að vel gæti hún þjónað öðrum þjóðarbrotum en enskumælandi. Þetta kom berlega í ljós tuttugu árum seinna í Department of New Americans í American Unitarian Association í Boston. Alveg er ljóst að árangur Kristofers Janson í Minnesota hafði áhrif á Íslendinga þar svo og í vesturfylkjum Kanada.
Heimild: The Icelandic Unitarian Connection