Menningarfélag – Stofnendur
Eftirtaldir einstaklingar tóku þátt undirbúningi og stofnun félagsins árið 1906:
Séra Rögnvaldur Pétursson
Skafti B. Brynjólfsson
Dr. Þorbergur Þorvaldsson
Hannes Pétursson
Stefán Thorson
Kirkjuvígsla 15. október, 1905
Á fyrstu árum safnaðarins var húsnæði leigt fyrir messur og samkomur. Það var séra Rögnvaldur Pétursson sem leiddi söfnuðinn í varanlegt húsnæði. Hér að neðan er tilkynningin um vígslu kirkjunnar:
VÍGSLU ATHÖFNIN BYRJAR KL. 3 E. H.
I
Orgel spil —Meðan gengur fólk til sætis.
Kór—,,Hátíð öllum hærri stund“ o.s.frv.
Citazioner—Lesnar af presti safnaðarins.
Sálmur—Nr. 595 í sálmabókinni eftir Matth. Jochumsson.
Biblía—Lesin af presti safnaðarins.
Kór—,,Guð hæst í hæð“, eftir Stgr. Thorsteinsson.
Bæn—Séra Magnús J. Skaptason.
Kór—,,Heilagur! heilagur! heilagur!“ o.s.frv.
Sálmur— Nr. 562 í sálmabókinni.
VÍGSLURÆÐAN
Rev. F. C. Southworth, Pres. Meadville Theol. School, Penna.
VÍGSLUBOÐ
Séra Magnús J. Skaptason, forseti hins ísl. Unitariska kirkjufélags
VÍGSLUHEIT
Unnin af forstöðunefnd og presti safnaðarins.
Kór—,,Drottinn! þú ert vort athvarf“ o.s.frv.
ÁVARP TIL SAFNAÐARINS
Hon. S. B, Brynjólfsson, varaforseti hins ísl. Unitaríska kirkjufélags.
Sálmur—Nr. 596 í sálmabókinni, eftir Matth. Jochumsson
(Samskot í þarfir safnaðarins)
II
Vina kveðjur— Séra J. P. Sólmundsson, Gimli.
Rev. H. F. M. Ross, Winnipeg
B. L. Baldwinson M. P. O., Winnipeg.
Sálmur—Nr. 556 í sálmabókinni, eftir séra Valdimar Briem.
Bæn—Rev. F. C. Southworth.
Sálmur—Nr. 376 í sálmabókinni.
Blessan—Séra Rögnv. Pétursson.
Byggingin mun hafa kostað $15.000.00 og var að ummáli 36×56 fet. Hún stóð á horni gatnanna Sherbrooke og Sargent og var í notkun í 17 ár. Þegar íslenski söfnuður Únitara í Winnipeg sameinaðist enskum Únitara söfnuði réðst sameinaður söfnuður í byggingu nýrrar kirkju á Banningstræti, norðan við Sargent. Hornsteinn hennar var lagður 8. október, 1921.
Fundur í Menningarfélaginu o.fl.
18. febrúar, 1911 var haldinn fundur í Menningarfélaginu og var fyrirlesari Sigurður Júlíus Jóhannesson. Fjallaði hann um blaðamennsku. Ræðumaður ræddi m.a. starf ritstjóra og stefnur blaða í mikilvægum samfélagsmálum. Hann talaði um frjálslyndi ritstjóra og sagði Baldvin L. Baldvinsson sem stýrði Heimskringlu frá 13. október, 1898 til 24. apríl, 1913, vera frjálslyndasta allra ritstjóra blaða og tímarita íslenskra um þær mundir. Bætti hann við að helsti galli hans væri sá að hann vissi ekki hvort hann væri máli meðmæltur eða andsnúinn. Sjálfur talaði Baldvin næst og var ekki sammála fyrirlesara í öllum atriðum. Fundarmönnum gafst tækifæri til að tjá sig og tóku til máls þeir Sigfús B. Benediktsson, séra Guðmundur Árnason, Stefán Thorson, séra Rögnvaldur Pétursson og G. J. Goodmanson. Fyrirlesari lauk síðan umræðum með nokkrum orðum. Á þessum fundi kom séra Rögnvaldur Pétursson með athyglisverða hugmynd, hann lagði til að fundurinn samþykkti tillögu í háskólamáli Manitobaháskóla þess efnis að skólinn einn hefði heimild til að veita háskólagráður. Þetta var samhljóða samþykkt af fundarmönnum og með því var fundi slitið. Við grípum niður í umfjöllun í Sögu Íslendinga í Vesturheimi Vol.V þar sem segir ,,Séra Rögnvaldur gekkst fyrir stofnun ungmennafélags árið 1909, og gekkst það fyrir sýningu íslenzkra sjónleika. Kvenfélag er starfandi í söfnuðinum. Það var stofnað 1904. Þess má og geta að söfnuðurinn hefur ætíð staðið í nánu sambandi við American Unitarian Association og þegið styrk þaðan. Um 1920 breytti söfnuðurinn um nafn, þegar nokkur hluti Tjaldbúðarsafnaðar sameinaðist honum og heitir nú Fyrsti sameinaði söfnuður. Fyrir nokkrum árum sameinaðist honum enskur Únitarasöfnuður í Winnipeg, og eru því messur nú fluttar bæði á ensku og íslenzku. “
Önnur félög
Séra Rögnvaldur Pétursson stofnaði ungmennafélag árið 1909 og kvenfélag var stofnað 1904. Það stóð fyrir skemmtunum af ýmsum toga og safnaði með þeim fé sem var notað til ýmissa nytsamlegra hluta í félaginu. Árið 1905 tók félagið fyrst þátt í iðnaðarsýningu í Winnipeg með sölu á kaffi og meðlæti og gerði það árlega í 9 ár. Með hagnaði af sölunni átti félagið þátt í kaupum á lóð undir kirkjuna, svo og orgel- og píanókaupum. Fyrsti formaður var Margrét Benediktsson, mikil kvenréttindakona sem fékk samþykkt í félaginu að allar konurnar í félaginu undirrituðu viljayfirlýsingu um stuðning við jafnréttisbaráttu kvenna.