Nýr lútherskur söfnuður var myndaður í vesturbæ Winnipeg 17. apríl, 1913. Ein helsta ástæðan var fjarlægðin úr vesturbænum (West End) að Fyrstu lútersku kirkju Íslendinga en löng þótti gönguleiðin og líka þótt hún væri farin með strætisvagni. Annað sem ýtti undir þessa stofnun var örlæti Þorsteins Oddssonar, trésmiðs og fasteignasala en um þær mundir sagði hann skilið við Tjaldbúðarsöfnuðinn. Þorsteinn byggði kirkju á horni Ellice Ave. og Burnell St. og var séra Runólfur Marteinsson ráðinn prestur. Hann þjónaði til ársins 1919 og tók þá við séra Runólfur Runólfsson frá Vestmannaeyjum. Safnaðarmeðlimir voru mest fjölskyldur með börn og alla tíð þótti barna- og unglingastarf safnaðarins til fyrirmyndar. Í árslok 1914 voru 110 fullorðnir skráðir og 65 börn. Séra Runólfur Marteinsson þjónaði söfnuðinum frá stofnun hans til ársins 1919, þá tók séra Runólfur Runólfsson við og þjónaði til ársins 1921. Árið 1923 leystist söfnuðurinn upp og hurfu þá meðlimir hans aftur til Fyrstu lútersku kirkju Íslendinga.