Tjaldbúðarsöfnuður í Winnipeg

Vesturfarar

Winnipeg fékk kaupstaðarréttindi árið 1873 og voru íbúar tæplega 2 þúsund. Árið 1881 bjuggu þar 7.900 og fjölgaði íbúum hratt út öldina því gríðarlegur straumur innflytjenda út á kanadísku sléttuna var þungur og 1921 voru íbúar 179.000. Fyrstu Íslendingarnir komu til Manitoba árið 1875 og settust sumir að í Winnipeg. Settust þeir að norðan megin við Notre Dame og smám saman varð þar til lítið, íslenskt hverfi. Um 1885 fara innflytjendur að setjast að á sléttunni sunnan og vestan Notre Dame, þeirra á meðal voru Íslendingar og fjölgaði þeim þar til aldamóta. Um það leyti heyrðist talað um norður- og suðurbyggð þeirra á meðal. Framan af bar eðlilega meir á hvers kyns félagslífi í norðurbyggðinni vegna þess að hún var eldri en nærri aldamótum hafði suðurbyggðin vaxið mjög en nokkuð hafði þá fækkað í norðurbyggð. Íslendingarnir í Winnipeg voru prestlausir og urðu að láta sér nægja húslestra en það var svo Séra Jón Bjarnason, sem söng fyrstu íslensku messuna 21. október, 1877 en hann og Séra Páll Þorláksson messuðu af og til í borginni til ársins 1880.  Séra Jóni fylgdu fleiri og leiddi það til þess að myndaður var söfnuður í borginni 11. ágúst, 1878 og var hann kallaður Þrenningarsöfnuður.

Tjaldbúðarsöfnuður  

Séra Jón Bjarnason flutti til Íslands árið 1880 og tók þá Séra Halldór Briem við söfnuðum í Nýja Íslandi en messaði jafnframt í Winnipeg.  Hann flutti svo einnig til Íslands tveimur árum seinna en séra Jón sneri aftur til Winnipeg 1884. Félagslífið í suðurbyggðinni dafnaði og messaði séra Jón þar og eins í norðurbyggð. Árið 1892 veiktist hann alvarlega og var þá samið við séra Hafstein Pétursson sem þá þjónaði í Argyle um að hann veitti söfnuði séra Jóns í Winnipeg hálfa þjónustu sem hann gerði til ársloka 1892. Söfnuðurinn í Winnipeg var nú prestlaus því enn var séra Jón veikur og var þá leitað til séra Hafsteins og hann beðinn um að verða aðstoðarprestur séra Jóns. Séra Hafsteinn sagði þá upp í Argyle og flutti til borgarinnar. Ári síðar var séra Jón farinn að messa aftur og gafst þá séra Hafsteini næði til að huga að öðru. Hann fór þá að messa reglulega í suðurbyggðinni og það varð til þess að nýr söfnuður var þar myndaður. Var hann kallaður Tjaldbúðarsöfnuður og var séra Hafsteinn prestur hans. Hann sagði starfi sínu lausu í norðurbyggðinni og nú voru söfnuðirnir tveir í Winnipeg. Hófst nú önnur trúardeila Íslendinga í Vesturheimi, sú fyrrir var milli Séra Jóns Bjarnasonar og séra Páls Þorlákssonar. Enn kemur sér Jón við sögu. Á ársþingi Hins evangelíska kirkjufélags Íslendinga í Vesturheimi árið 1895 sagði séra Jón að hinn nýi söfnuður tilheyrði kirkjufélaginu þar sem þjónustan við hann hefði verið frá kirkjufélaginu. Á þinginu kom fram að flestir sem stóðu að myndun safnaðarins lýstu því yfir að Tjaldbúðarsöfnuðurinn stæði utan við kirkjufélagið. Á þinginu var borinn upp tillaga þess efnis að hann skyldi nú ganga í félagið. Tillagan var felld með nánast öllum atkvæðum. Séra Hafsteinn  greiddi atkvæði með tillögunni um inngöngu en ári seinna, 15. júní, 1896 sagði séra Hafsteinn sig úr kirkjufélaginu og var Tjaldbúðarsöfnuðurinn og prestur hans utan félagsins næstu árin.

Kirkjur og prestar

Söfnuðurinn í suðurbyggðinni ákvað snemma að reisa kirkju og hafist var handa við byggingu í október, 1894 og 9. desember sama ár var þar sungin fyrsta messa. Kirkjan, sem stóð á horni Sargent og Furby, var vígð 16. desember. Á síðustu árum aldarinnar óx söfnuðurinn og dafnaði vel undir forystu séra Hafsteins. Árið 1899 tók hann kalli frá Danmörku og flutti til Kaupmannahafnar. Ár síðar var séra Bjarni Þorarinsson ráðinn í hans stað og þjónaði hann söfnuðinum til 1. ágústs, 1903. Nokkru seinna var séra Friðrik J. Bergmann ráðinn og þjónaði hann til dauðasags 11. apríl, 1918. Þess ber að geta að hann kom því til leiðar árið 1905 að Tjaldbúðarsöfnuðurinn gekk í kirkjufélagið. Söfnuðurinn blómstraði um hans daga og var efnahagur hans afar góður. Var þá farið að ræða byggingu nýrrar kirkju og árið 1912 var ákveðið að selja kirkju safnaðarins og byggja aðra. Var lóð keypt á Victor stræti, sunnan við Sargent. Hornsteinn var lagður 20. október,1912 og var kirkjan tekin í notkun í nóvember, 1913 og svo vígð 2. ágúst, 1914. Tjaldbúðarkirkjan, sem nú heitir Fyrsta lúterska kirkjan er mikil bygging, föst sæti eru fyrir 700 manns og er mögulegt að bæta við 300. Litgler er í gluggum, stór samkomusalur í kjallara.