Á síðustu áratugum 19.aldar stækkaði norður amerískt samfélag hratt, innflytjendur hvaðanæva úr heiminum flykktust til Bandaríkjanna og Kanada. Þeir komust fljótlega að því að engin ríkiskirkja var í þessum þjóðríkjum, trúmál urðu innflytjendur sjálfir að taka í sínar hendur. Úr þessu urðu til margskonar trúhreyfingar og kirkjur sem var reyndar ekki alveg framandi fyrir marga evrópska innflytjendur því í Evrópu störfuðu fríkirkjur. Slíkir straumar bárust til Íslands og vakti þar ýmsa til umhugsunar um trúmál. Strax í upphafi Vesturfaratímabilsins 1870 kynntust íslenskir innflytjendur þessu við komuna til Bandaríkjanna og er séra Páll Þorláksson þeirra kunnugastur. Hann kynntist norskri kirkju í Wisconsin og kirkjufélagi þeirra Norwegian Synod (norska sýnódan) og gerðst prestur í því. Deilum hans og séra Jóns Bjarnasonar er getið annars staðar á þessum vef en þeirra deilur opnuðu augu margra sem fluttu vestur hollir íslensku þjóðkirkjunni. Þannig var t.d. um Magnús J. Skaptason prest af Íslandi þar sem hann tók vígslu, þjónaði þar söfnuðum en flutti svo til Kanada árið 1887 og settist að í Nýja Íslandi þar sem hann þjónaði lútherskum söfnuðum til ársins 1891. Þá er hann orðinn andsnúinn ýmsum kenningum lúthersku kirkjunnar, og leiddi það til þess að fjórir söfnuðir hans gengu úr kirkjufélaginu lútherska og mynduðu nýtt kirkjufélag, sem kallað var Fríkirkjufélag Íslendinga í Ameríku. Fyrir vikið varð Magnús nokkuð umdeildur en einmitt um þær mundir er Björn Pétursson hættur búskap og byrjaður á trúboði fyrir Únitara í Winnipeg.
Únitarar og önnur trúfélög
Árið 1891 var fyrsti íslenski Únitarasöfnuðurinn stofnaður í Winnipeg. Áratug síðar hafði Únitarahreyfingin breiðst það hratt út í íslenskum byggðum og söfnuðum fjölgað það mikið að tilefni var komit til að mynda eitt trúfélag íslenskra Únitara í Vesturheimi. Jóhann Pétur Sólmundsson kemur til Vesturheims árið 1888 og verður prestur Únitara í Winnipeg árið 1902 en flytur svo til Gimli ári síðar og þjónar þar frjálslyndum söfnuði auk söfnuðum eða broti safnaðanna sem fylgdu séra Magnúsi J. Skaptasyni þegar hann sagði sig frá lúthersku kirjunni. Séra Magnús, sem var um þær mundir prestur íslenska safnaðarins í Roseau í Minnesota, fréttir af séra Jóhanni, hefur eflaust verið í sambandi við hann, því um vorið 1901 tilkynnir séra Magnús að fundur verði haldinn á Gimli. Tilefnið var að sameina Íslendinga í Nýja Íslandi, sem höfðu áhuga á Únitara trúarskoðunum í eitt félag. Það var svo 16. – 18. júní að á þriðja tug manna kom saman á Gimli sem stofnuðu Hið únitaríska fríkirkjufélag Vestur-Íslendinga. Þetta telst hafa verið fyrsta þing íslenskra Únitara í N. Ameríku og voru aðalmenn þess þeir séra Rögnvaldur Pétursson, séra Jóhann Sólmundsson og Einar Ólafsson úr Mjóafirði. Þetta kirkjufélag starfaði fram að Fyrri heimstyrjöldinni. Á þingi félagsins 1910 taka þátt meðlimir í söfnuðum í Winnipeg, frá Gimli, Mary Hill (Lundarbyggð) Grunnavatnsbyggð og Hnausum. Samtals sóttu það 23, prestar og þingmenn.