Únitarasöfnuður í Winnipeg

Vesturfarar

Þegar Íslendingar í Vesturheimi höfðu stofnað Hið evangeliska lútersta kirkjufélag leið ekki á löngu þar til ný trúarstefna gerði vart við sig í Winnipeg. Saga Íslendinga í Vesturheimi V.bindi segir svo frá: ,,Þetta var Únitarisminn, og átti hann víst rætur sínar meðal Vestur-Íslendinga í svokölluðum frjálstrúarskoðunum, er sumir fluttu með sér frá Íslandi. Þá voru þeir óánægðir með þröngsýni Missouri-synodunnar lútersku, og um svipað leyti kynntust þeir í Minnesota boðskap Únitara, en þar hafði skáldið Kristofer Janson byrjað að prédika þessa trú árið 1881. Aðaltalsmaður þessarar stefnu í Winnipeg var Björn Pétursson, og þar stofnaði hann hinn fyrsta Únitaríska söfnuð meðal Íslendinga í Vesturheimi….Hann fluttist til Ameríku 1876; var fyrst í Nýja Íslandi (og vildi láta stofna þar óháða kirkju), svo um skeið í Norður-Dakota og loks í Winnipeg til dauðadags. Að honum látnum (1893 ins. JÞ) fórust Lögbergi orð á þessa leið: ,,Birni Pjeturssyni var margt vel gefið. Hann var prýðilega skynsamur maður, las mikið og hafði fengið allgóða menntun. Hann var gleðimaður, síkátur og fjörugur og allra manna bezt lyntur. Hann var fríður sýnum og karlmannlegur, hraustmenni mikið og hinn fimasti á sínum yngri árum. Örlátur var hann og góðhjartaður; vildi gjarnan öllum mönnum gott gera og alla gleðja.“ Það mun hafa verið um 1887, að Björn Pétursson lagði niður búskap og fór að gefa sig allan að trúmálum. Á þessu ári fékk hann fyrir milligöngu Kristófers Janson styrk nokkurn til þess að verða trúboði Únitara meðal Íslendinga í Vesturheimi. Flutti hann mál sitt af eldheitri sannfæringu. Aðalstarfsvið hans var í Winnipeg, og þar prédikaði hann og gaf út nokkur trúmálarit, er hann þýddi sjálfur. Loks stofnaði hann þar söfnuð 1. febr. 1891, er nefndist Hinn fyrsti íslenzku Únitarasöfnuður í Winnipeg. Á stofnfundinum innrituðust 36 manns. Varð Björn fyrsti prestur þessa safnaðar, sem fljótt kom sér upp kirkju (um jól 1892).“

Lútherksir fordæma

,,Ekki tóku lúterskir þessari trúboðsstarfsemi Björns vel. Kemur álit þeirra vel í ljós í forsetaskýrslu þeirri, er séra Jón Bjarnason lagpu fyrir lúterska þingið árið 1890. Farast honum orð meðal annars á þessa leið: ,,……..á síðasta missiri (hefur) regluleg mission verið byrjuð meðal Íslendinga í Winnipeg af Únitörum Bandaríkjanna. Þeir hafa þar síðan í vetr íslenzkan mann (Björn Pétursson) tle þess ap reyna að prédika vantrúarskoðanir sínar inn í Íslendinga. Sá boðskapr fellr í frjósaman jarðveg hjá ýmsum löndum vorum, sem ekki er neitt undarlegt, því bæði er það, að náttúrulegt mannshjarta er yfir höfuð fúst til að neita kristindóminum, og í annan stað er það vitanlegt, að nútíðarkirkjan á Íslandi varðveitir talsvert af hinu andlega súrdegi Únitaravantrúarinnar í sínu eigin skauti. Ofan á þessa mótspyrnu hafa svo bæzt nálega stöðugar skammir frá blaðinu ,,Heimskringlu“ um fyrirtæki og starfsmenn kirkjufélagsins, kirkjuþingsmenn og presta, allt frá síðasta kirkjuþingi fram til síðustu tíðar. Það hefir reynt til að vekja óánægju meðal fólks safnaðanna með nálega allt, sem oss hefir verið reynt að gjöra í kirkjulega átt. Það hefir reynt að smeygja þeirri skoðun inn í almenning, að stefna hinna leiðandi kirkjumanna væri að kúga fólkið. Og það hefir gengið svo langt í óvild sinni til kristindómsboðskaparins, að það í síðustu tíð hefir tekið upp á því, að hafa útsendara við guðsþjónustur vorar í Winnipeg til þess eftirá að geta gefið almenningi einhverja háðgrein út af þeim prédikunum, sem þar hafa verið fluttar. Það er meira en ég veit til að nokkurt vantrúar-blað eða nihilista-málgagn hafi nokkurn tíma gjört nokkurs staðar í heiminum.“ Þessi orð séra Jóns voru birt í Sameiningunni, málgagni lútherskra í Vesturheimi og svo í ritinu Saga Íslendinga í Vesturheimi Vol V.

Til aldamóta- Upphaf 20.aldar

Áfram er vitnað í Sögu Íslendinga í Vesturheimi Vol.V: ,,Eftir andlát Björns Péturssonar hélt ekkja hans uppi messum um hríð á ensku, þar til hún hvarf frá Winnipeg 1894. Messaði þá Jón Ólafsson ritstjóri um skeið, þangað til séra Magnús J. Skaptason tók við söfnuðinum 1. ágúst 1894. Var hann prestur hans, unz hann fluttist til Minnesota árið 1894. Þá var söfnuðurinn prestlaus þangað til í júlí 1902 en naut úr því þjónustu séra Jóhanns P. Sólmundssonar fram til aprílloka 1903. Í ágústmánuði það ár fékk söfnuðurinn séra Rögnvald Pétursson sem prest, og hélt hann þeirri stöðu til septemberloka 1909. …Séra Rögnvaldur sagði upp þjónustu sinni í september 1909 og kvaddi söfnuðurinn þá séra Guðmund Árnason til sín. Innan Fyrsta Únitarasafnaðar í Winnipeg var árið 1906 stofnað fyrirlestrarfélag, er síðar tók nafnið ,,Menningarfélag“. Tilgangur þess var ,,að afla þekkingar og auka víðsýni“. Fundir skyldu haldnir hálfsmánaðarlega frá 1. október til 1. júní ár hvert. Félagið starfaði í níu ár, og voru 80 fyrirlestrar fluttir á þeim tíma. Hver sem vildi gat sótt þessar samkomur, og voru umræður frjálsar öllum að fyrirlestrinum loknum“.  Sjá frásögn í Samantekt – Fróðleiksmolar á öðrum stað.