Gissur Elíasson fæddist í Winnipeg 13. október, 1912. Dáinn í Winnipeg árið 1980.
Maki: 12. júní, 1943 Elvira Steinunn Skúladóttir f. 10. október, 1915.
Börn: 1. Glen Skúli f. 16. júlí, 1944 2. Gary Elías f. 16. júlí, 1944 3. Melba Marina f. 16. ágúst, 1947 4. Hugh Gissur f. 4. september, 1953.
Gissur var sonur Elíasar Elíassonar og Guðbjargar Sæmundsdóttur í Arborg, Manitoba. Foreldrar Elviru voru Skúli Benjamínsson og fyrri kona hans, Laufey Ísleifsdóttir í Winnipeg. Gissur flutti með foreldrum sínum í Arborg þar sem hann gekk í grunnskóla. Að því námi loknu fór hann til Winnipeg því hugur hans hneigðist að myndlist. Hann gekk um tíma í Jóns Bjarnasonar skólann, helgaði sig svo myndlistinni og var svo lánsamur að fá leiðsögn í dráttlist hjá Charlie Thorson, sem seinna gerði garðinn frægan hjá Walt Disney. Gissur innritaðist í Winnipeg School of Arts og lauk þaðan prófi árið 1939. Hann gerðist kennari við skólann sem seinna (1949) var sameinaður University of Manitoba. Gissur fékkst eitthvað við auglýsingateikningu og skrautritun. Þekktasta listaverk hans í Manitoba er víkingastyttan á Gimli.

