
Séra Halldór E. Johnson Mynd FSÁAB
Halldór Einar Jónsson fæddist í Skagafjarðarsýslu 12. september, 1887. Drukknaði við Ísland 8. janúar, 1950. Séra Halldór E Johnson vestra.
Maki: 1. Þóra Jónsdóttir d. í Blaine, 1924 2. Matthildur Þórðardóttir f. 30. nóvember, 1873 í Ísafjarðarsýslu, d. í Blaine 15. desember, 1940 3. Jenny Johnsen.
Barnlaus en ásamt konum sínum ól upp fósturbörn.
Halldór flutti tvítugur vestur um haf til N. Dakota. Þar bjó þá móðurbróðir hans, Þorlákur Björnsson í Hensel og sá hann til þess að Halldór gat sundað nám í Valparaiso háskólanum í Indiana. Þaðan lá svo leið hans til Illinois þar sem hann gekk í prestaskóla í Chicago. Að lokinni prestvígslu varð hann prestur hjá Íslenska Lúterska Kirkjufélaginu en fann sig ekki almennilega og hætti prestskap. Hann gekk nokkru síðar í frjálstrúar félagsskapinn í og ferðaðist víða og söng messur. Árin 1945-1948 var hann fastráðinn sóknarprestur í Sambandskirkjunni í Lundar. Hann flutti heim til Íslands 1949 og settist að í Vestmannaeyjum hjá frændfólki.
Séra Halldór Johnson orti þetta kvæði til Vestmannaeyja skömmu áður en hann fórst og var það flutt af honum af plötu í útvarp að honum látnum.
Fagurgræna yndiseyja,
um þig geislaflaumur skín.
lát mig hjá þér lifa og deyja
við litafögru björgin þín.
Við barm þinn blómið sæla sefur,
söngvar þagna, allt er hljótt.
Ægir blítt þig örmum vefur
unaðsbjarta sumarnótt.
Við brjóstin þín er bezt að dreyma,
blessað móðurskautið þitt.
Ég finn Íslands orku streyma
inn í þjáða hjartað mitt.
Einn í langri útlegðinni,
hve oft mig hefur dreymt til þín,
og hvíla rótt hjá móður minni
við mánabjörtu sundin þín.