Hallgrímur Björnsson

ID: 14242
Fæðingarár : 1871
Fæðingarstaður : N. Múlasýsla
Dánarár : 1956

Hallgrímur Björnsson fæddist í N. Múlasýslu 18. ágúst, 1871. Dáinn í Riverton 7. apríl, 1956.

Maki: 14. júlí, 1894 Margrét Jónsdóttir f. A. Skaftafellssýslu 30. nóvember, 1866, d. í Gimli 7. ágúst, 1949.

Börn: 1. Aðalbjörg f. 1894 2. Björn f. 27. nóvember, 1895 3. Guðjón f. 16. desember, 1896 4. Guðný Steinunn f. 10. apríl, 1901 5. Sölvi f. 1903 (?) 6. Garðar f. 15. september, 1904 7. Þórir Aðalmundur f. 1906 (?) 8. Aðalbjörg Sigríður Lovísa f. 5. ágúst, 1910. Tvö börn, Solveig og Jón dóu á Íslandi.

Þau fluttu vestur til Winnipeg í Manitoba árið 1903 og fékk Hallgrímur vinnu við húsasmíði og eftir stuttan tíma rak hann sitt eigið fyrirtæki. Honum vegnað vel eins og eftirfarandi klausa í Heimskringlu 18. október, 1906 ber með sér:
,,Herra Hallgrímur Björnsson timburmeistari  í Winnipeg, sem fyrir þremur árum flutti til Vesturheims úr Fljótsdalshéraði, fór alfluttur héðan úr bænum í byrjun þessa mánaðar á búgarð,  sem hann hefir keypt hjá Reaburn hér í fylkinu. Eftir þriggja ára starf sitt hér í bænum gat hann borgað meiri hlutann, sem var 8 þús. dollarar, eða sem næst 30 þús. kr. Allvel gert á þriggja ára tilverutímanum hér vestra. Þetta eina dæmi sýnir, hvað duglegir og verkhyggnir menn geta gert hér í landi, þótt ekki kunni þeir hérlent mál við landgönguna í Canada“.

Miklar framkvæmdir í Arborg um 1910 urðu til þess að Hallgrímur flutti þangað og keupti hann Arnheiðastaði í Geysirbyggð af Jóhanni Magnúsi Bjarnasyni í Geysirbyggð. Um svipað leyti sótti hann um land í Riverton og þangað flutti fjölskyldan árið 1915 því nú var mikill uppgangur þar í bæ.