Hans B. Thorgrimsen

ID: 1287
Fæðingarár : 1853
Fæðingarstaður : Árnessýsla
Dánarár : 1942

Hans Baagöe Thorgrimsen Mynd BÁ

Hans Baagöe Thorgrimsen fæddist  í Árnessýslu 21. ágúst, 1853. Dáinn í Grand Forks í N. Dakota 7. febrúar, 1942.

Maki: 1) 1884 Marthe Andrea Mathilde f. 5. febrúar, 1857 í Wisconsin, d.  1900.  2) Dora Margrethe Halverson f. 1876, d. 1962.

Börn: með Esther: 1. Sylvia f. 28. maí, 1885 2. Esther Marie f. 1887, d. 1969 3. Sigrid Asla f. 1. apríl, 1890, d. 1970 4. Astrid f. 1892, d. 1972 5. Gudmundur Geir Christian f. 1894, d. 1968 6. Margaret Ingeborg f. 1. janúar, 1897, d. 1967. Með Dora: 1. Hans f. 26. mars, 1903 2. Elín Marie f. 6. júlí, 1906, d. 1998 3. Agnes Julia f. 31. desember, 1917.

Mynd JÞ

Hans fór vestur til Milwaukee í Wisconsin árið 1872. Hans dvaldi eitthvað á Washingtoneyju en fór svo í guðfræðinám og lauk prófi frá sama skóla og séra Páll Þorláksson í St. Louis árið 1882.  Sama ár sendi Víkursöfnuður honum köllunarbréf en séra Páll hafði mælst til þess þegar hann lá banaleguna í Mountain. Séra Hans kom til N. Daokta í águst, 1883 og þjónaði í íslensku byggðinni til ársins 1886 en það ár svaraði hann kalli norsks safnaðar í S. Dakota og fór þangað. Sneri til baka árið 1901 og þjónaði nokkrum söfnuðum í íslensku byggðinni, Settist að í Grand Forks. Hans kom ýmsu til leiðar á þeim fáu árum sem hann þjónaði Víkursöfnuði, stofnaði m.a. nýjan söfnuð í Fjallabyggð árið 1884. Líkt og fyrirrennari hans, Séra Páll Þorláksson, þá kynntist hann starfsemi The Norwegian Synod, hvernig það öfluga norska kirkjufélag sameinaði fjölmarga, norska söfnuði víða í Norður Ameríku.  Hann vakti máls á því um veturinn 1884 að íslenskir söfnuðir í Norður Ameríku mynduðu íslenskt kirkjufélag og til að ræða það mál frekar boðaði hann fund og var sá settur á Mountain 2. desember, 1884. Hugmynd Hans varð að veruleika því kosinn var nefnd til að semja lagafrumvarp.  Snemma árs, 1885 var boðaður annar fundur á Mountain og nú var fulltrúum allra íslenskra safnaða í Norður Ameríku boðið að sækja fundinn. Hann var svo settur 23. janúar og stóð í þrjá daga. Þetta var sögulegur fundur því aldrei fyrr hafi verið haldinn slíkur alsherjarfundur Íslendinga í Vesturheimi. Annar fundur var svo haldinn 31. janúar og þá var lagafrumvarpið samþykkt.