
Séra Jón Bjarnason og kona hans, Lára Guðjohnsen. Mynd tekin 1910 í Winnipeg. MR.
Jón Bjarnason fæddist að Þvottá í Álftafirði í S. Múlasýslu 15. nóvember, 1845. Dáinn í Winnipeg 3. júní, 1914.
Maki: Lára Guðjohnsen f. 1842 í Reykjavík, d. 1921.
Barnlaus.

Heimilið á 118 Emily St. í Winnipeg. Mynd MR.
Þau fóru vestur til Kanada í september, 1873 og komu til Quebec 27. sama mánaðar. Fóru þaðan strax suður til Milvaukee í Wisconsin í Bandaríkjunum og áfram til St. Louis í Missouri. Þar hittu þá fyrir Pál Þorláksson sem nam þar guðfræði. Hann kom Jóni í samband við stjórn norsks kirjufélags (Norwegian Synod), sem réði Jón til kennslu í latínuskóla félagsins í Decorah í Iowa. Þar starfaði Jón fram í júlí, 1875 og sama ár var hann ráðinn ritstjóri ,,Skandinaven“ sem kom út í Chicago. Þar hóf hann störf 1. janúar, 1876 en eftir fáeinar vikur varð honum ljóst að það starf hentaði honum illa og sótti hann þá um annað ritstjórastarf hjá ,,Budstikken“ norsku blaði sem gefið var út í Minneapolis. Hann var ráðinn og hóf störf í marsbyrjun, 1876. Þaðan lá leið þeirra hjóna til Nýja Íslands þar sem Jón þjónaði sem prestur til ársins 1880 en þá sneri hann aftur til Íslands. Hann þjónaði á Austfjörðum til vors árið 1884 en í júlí sama ár fór hann aftur vestur og nú til Winnipeg í Kanada. Þangað komu þau hjón 10. ágúst, 1884 og bjuggu þar til æviloka.
