Manitobavatn austanvert

Vesturfarar

Íslenskt landnám:

Landið milli Winnipegvatns að austan og Manitoba – og Winnipegosisvatns að vestan er kallað Interlake District eða Millivatnahéraðið. Það er um 415 km að lengd frá norðri til suðurs og breiddin á bilinu 64 km til 160 km. Jarðvegurinn er víðast sendinn leir og einungis finnst frjómoldin svarta sem einkennir sléttuna í suðurhluta fylkisins á fáeinum stöðum í héraðinu.

Vötnin miklu í Manitoba eru fjögur helst. Manitobavatn er stærst en vestan við það eru þrjú minni vötn. Syðst er Manitobavatn, þá Winnipegosisvatn og nyrst Cedervatn

Á fyrstu árum landnáms upp úr 1870 var sagt að Millivatnasvæðið hafi að mestu verið skógi vaxið en á milli skógarbelta voru svæði með engjadrögum og smátjörnum. Þegar nær dró vötnunum bæði að austan og vestan tóku við engjaflæmi, flóar og mýraflákar. Héraðið allt verður að heita marflatt en á stöku stað vottar fyrir smáhryggjum og öldum. Um miðbik héraðsins er jarðvegurinn hins vegar afar grýttur. Nánast allt héraðið er því miklu verr fallið til akuryrkju en slétturnar. Skógurinn var að langmestu leiti ösp en greni er nokkuð áberandi í norðausturhlutanum. Innan um öspina er nokkuð um eik, birki, álm og hlyn.

Íslendingar voru fyrstir hvítra til að nema lönd í héraðinu en fáeinir þeirra settust að á vesturbakka Winnipegvatns árið 1875.  Eitthvað var um að kynblendingar höfðu sest þar að en þeirra hlutskipti var erfitt því frumbyggjar kærðu sig ekki um þá á sérsvæðum sínum og erfitt áttu þeir uppdráttar í þéttbýli eins og Winnipeg, Brandon eða Selkirk.

Íslendingar voru líka fyrstir til að nema lönd í vesturhluta svæðisins, austan við Manitobavatn. Fáeinir Frakkar, Skotar og kynblendingar höfðu reynar sest þar að hér og hvar en engin byggð hafði myndast. Það var árið 1886 að Íslendingar í Winnipeg tóku að gefa fregnum um fáanleg svæði til landnáms við suðaustur Manitobavatn. Fáeinir fóru landkönnunarleiðangur um sumarið og fór Frímann B. Anderson fyrir honum. Þeir fundu víða álitleg svæði þar sem gras óx vel á milli skógabeltanna og var það kjörið fyrir griparækt, einkum sauðfjárrækt. Annað sem ýtti við Íslendingum var sá orðrómur að leggja ætti járnbraut frá Winnipeg norður um vesturhluta millivatnahéraðsins til Hudsonsflóa. Það var því eðlilegt að Íslendingar afréðu um haustið 1886 að leita framtíðarinnar norður með austurströnd Manitobavatns.

Þann 24. maí árið 1887 ferðaðist lítill hópur Íslendinga að Grunnavatni (Shoal Lake) en þar hafði Frímann Anderson og félagar hans farið um og skoðað. Þeim leist vel á svo þarna við vatnið hófst nýtt landnám Íslendinga í vestur Kanada og var byggðin sem þar myndaðist kölluð Grunnavatnsbyggð.

Straumur innflytjenda frá Evrópu vestur á kanadísku sléttuna var mikill og smám saman var sléttan í suður Manitoba numin og leituðu margir þá upp með Manitobavatni, bæði austan og vestanvert. Einkum voru það landnemar sem áhuga höfðu á fiskveiðum auk griparæktar. Þess háttar svæði heilluðu marga Íslendinga á síðasta áratug 19. aldar.

Tvær byggðir mynduðust austan við vatnið, Grunnavatnsbyggð og Álftavatnsbyggð. Um miðbik 20. aldar fóru menn vestra að nefna þær einu nafni Lundarbyggð því bærinn Lundar var hjarta þessara byggða. Annar bær, talsvert minni myndaðist sunnar við vatnið og kallast hann Oak Point.