Norður Dakota

Vesturfarar

Jarðsaga:

Frumbyggjar:

Norður Dakota liggur að landamærum Kanada í norðri, vestan við ríkið er Montana og austan megin er Minnesota. Suður Dakota er svo sunnan við. Ríkið er tæpir 580 km á lengd og 340 km á breidd. Nafnið Dakota er fengið frá Dakotas frumbyggjaættbálknum sem öldum saman réði á þeim slóðum sem ríkið er nú. Svæðið frá Rauðá vestur til Montana og suður að Nebraska var einu nafni nefnt Dakota Territory allt til ársins 1888 en þá var því skipt í Norður og Suður Dakota og gengu þessi tvö nýju ríki í ríkjasambandið ári seinna. Ekki er vitað með nokkurri vissu hvenær frumbyggjar komu á svæðið, þeir voru þar þegar franskir skinnakaupmenn ferðuðust um þennan hluta Norður Ameríku seint á 17. öld. Þeir kepptu við enska kaupmenn sömu erinda sem nýlega höfðu þá stofnað hið volduga Hudson´s Bay Company sem varð gríðarlega öflugt um alla norðanverða álfuna langt fram á 19. öld. Lengi var friður með frumbyggjum og þessum skinnakaupmönnum, það var hagur beggja. Um miðja 19. öld sló hins vegar í brýnu þegar svokallað Dakota stríð braust út árið 1862.  Frumbyggjar réðust á bæ landnema nokkurs, drápu bóndann og flestalla fjölskyldumeðlimi.  Þetta leiddi til frekari árása á landnema og brugðust Bandaríkin þá við með því að ákæra rúmlega 300 frumbyggja fyrir morð, nauðganir og rán. Flestir voru fundnir sekir og hengdir og telst þetta mesta aftaka í sögu Bandaríkjanna.  Þessir atburðir urðu til þess að frumbyggjar hurfu mikið til af svæðinu, voru ýmist hraktir á sérsvæði eða flúðu norður á kanadísku sléttuna.

Landnemar:

Það voru kaupmenn Hudson´s Bay félagsins sem fyrst settu upp búðir í Dakota Territory og mun það hafa verið upp úr 1790. Frá upphafi var alveg ljóst að ekki var tilgangurinn með verunni þar sá að nema lönd og setjast að því þegar viðskiptin minnkuðu hurfu þessir aðilar smám saman. Það voru hins vegar skoskir landnemar sem komu austan úr ríkjum Bandaríkjanna og fóru norður eftir Rauðánni sem völdu stað á vesturbakka árinnar upp við landamæri Bandaríkjanna og Kanada þar sem bærinn Pembina stendur nú.  Þetta mun hafa verið árið 1812 og mun Lord Selkirk hafa farið fyrir þessum hópi. Þegar leið á öldina var Rauðáin nokkurs konar þjóðbraut norður suður því eftir henni ferðuðust kaupmenn, landnemar og stjórnarmenn. Nokkrir reyndu landnám vestur af þorpinu, nutu þess að fá þar frið og næði. Almennt landnám hefst samt ekki fyrr en eftir 1870 og með komu járnbrautar, svonefndrar Northern Pacific árið 1872 sem lögð var nokkuð sunnarlega í ríkinu þá fjölgaði landnemum hratt.

Íslendingar: 

Séra Páll Þorláksson Mynd SÍND

Vesturfaratímabilið íslenska er almennt talið hefjast árið 1870 og því lauk í upphafi fyrri heimstyrjaldar árið 1919. Á hverju ári í nærri hálfa öld fóru einhverjir Íslendingar vestur um haf, sum árin allstórir hópar önnur aðeins fáeinir einstaklingar.  Í upphafi tímabilsins fóru flestir til Bandaríkjanna og settust að í Wisconsin. Þeirra á meðal var Páll Þorláksson frá Stóru Tjörnum í Ljósavatnsskarði og átti hann eftir að koma mikið við sögu Íslendinga í Vesturheimi meðan hans naut við.  Hann verður að teljast ,,faðir“ íslensku nýlendunnar í Norður Dakota og skal nú gripið til ritgerðar sem faðir hans, Þorlákur Jónsson,  skrifaði í mars, 1882, fyrir Pál sem þá lá banaleguna í Mountain. Páll greindi svo frá og sagði: ,, Það var haustið 1876, að ég fyrst fékk lítil kynni af þessum svonefnda dal, Rauðárdalnum.“ Páll var þá vígður prestur og þjónaði litlum íslenskum söfnuði í Shawano sýslu í Wisconsin og öðrum norskum á sömu slóðum. Hann frétti líka að þetta haust væri von á talsverðum fjölda vesturfara frá Íslandi sem allir ætluðu vestur á sléttuna norður af Manitoba. Hann var hvattur af norska kirkjufélaginu, Norwegian Synod, sem hann vann hjá til að taka sér ferð á hendur og skoða landshætti þar sem Íslendingarnir ætluðu að setjast að. Um haustið lagði hann af stað og segir svo frá í ritgerðinni:,, Járnbrautir voru þá skamt á veg komnar hér norðureftir dalnum og hlaut eg því að taka mér far með gufuskipi á Rauðárfljótinu norður til bæjarins Winnipeg í Manitoba. Skipstjóri sagði mér þá frá því, að hann hefði nýfluttan fjölda Íslendinga til Winnipeg, og kvað það leiðinlegt að svo margt efnilegt fólk, væri leitt fram hjá hinum frjósömu óbygðum beggja vegna við Rauðá, norður á það land, sem hann áliti óbyggilegt.“  Páll tók virkan þátt í landnáminu í Nýja Íslandi og myndaði þar þrjá söfnuði. Allir sem þar voru frá árinu 1875 til ársbyrjunar 1878 upplifðu meiri hörmungar en nokkrar aðrir íslenskir vesturfarar allt tímabilið. Það var því ekkert undarlegt við það að menn í söfnuðum Páls komu að máli við hann snemma árs árið 1878 og greindu honum frá því að þeir vildu brott úr Nýja Íslandi. Páll greindi frá:,, …um vorið ´78 hafði eg dvalið misseristíma í Nýja Íslandi, og farið um bygðina fram og aftur, jafnvel út um óbygðir þess. Þóttist eg þá vera farinn að sjá þess merki, að Íslendingar myndu seint eða aldrei geta þrifist á þessu landi.“  Hann fékk í lið með sér nokkra landnema um vorið til að ferðast suður yfir til Bandaríkjanna og leita þar betri landa. Tilviljun réði því að þeir stigu af gufuskipinu í Pembina, einn þeirra hafði veður af því í Winnipeg að býsna gott svæði væri rétt sunnan landamæranna vestur af Pembina. Þeir ákváðu að kanna það.

John Betchel Mynd SÍND

Með Páli í þessum landkönnunarleiðangri voru Jóhann Hallsson og sonur hans Gunnar, Magnús Stefánsson, Sigurður Jósúa Björnsson of Árni Þorláksson. Þeir urðu að ferðast fótgangandi og ákváðu að skoða landið sunnan við Tounge River eða Tunguá eins og Íslendingarnir kölluðu hana en hún rennur í austur úr Pembinahæðum. Hvergi sáu þeir hús eða nokkurn vott um mannaferðir úti á sléttunni en í skógarjaðrinum meðfram ánni sáu þeir hús á stangli, stöldruðu við sums staðar til að fá frekari upplýsingar um landið í vestri. Það kom nokkuð á óvart að íbúar virtust ekkert hafa skoðað sig um vestar á sléttunni, voru ánægðir með sitt en einhver vissi af hæðum nokkuð vestar. Ferðalangar komu loks til Cavalier en þá höfðu þeir að baki tæpa 40 km. Síðasta spölinn sáu þeir hvergi hús en í Cavalier bjó þýskur landnemi sem sá um póstafgreiðslu fyrir sveitina. Sá hét John Betchel og hafði búið þar í tvö ár. Þeir gistu hjá honum eina nótt en daginn eftir héldu þeir göngunni áfram: Um þetta segir í ritgerð Páls:,, Við gengum ýmist norðan til eða sunnanvert við ána, sem þar myndar djúpan dal, þar til við komum í fjallasýn. Þá lækkaði landið alt í einu. Við sáum fyrir okkur grænar flatneskjur víðsvegar með skógarbeltum svo langt sem augað eygði suður og vestur. Hæðirnar blöstu við að vestan. Þótti okkur nú útlit landsins fara að verða það, sem við á Íslandi köllum sveitarlegt. Fundum við hina sömu feitu jörð, sem áður á grassléttunum. Vér áðum þarna nokkra stund, og kom oss saman um að snúa hér aftur, því liðið var á daginn og vér orðnir lúnir.“  Nýtt nýlendusvæði var fundið og sáu þeir marga kosti. Í fyrsta lagi var jarðvegur góður sem samanstóð svo til eingöngu af ,,hinni feitu jörð“  og því kjörið til akuryrkju en víða annars staðar voru smá holt og þar bithagar góðir. Ennfremur voru miklir skógar víða, nægilegt byggingarefni allsstaðar og eldiviður. Þeim var þó ljóst að langt var í markaði en voru vissir um að þeir kæmu þegar land tæki að byggjast. Þeir ákváðu að félagar Páls yrðu eftir til að skoða svæðið betur en sjálfur ætlaði hann alla leið suður í íslensku byggðina í Minnesota til að kanna möguleika þar. Eftir skoðunarferðina suður og studda dvöl í íslensku byggðinni í Wisconsin sneri Páll aftur til Nýja Íslands um haustið. Hann kom við á fyrirhuguðu landnámssvæði í N. Dakota og hitti þar félaga sína og greindi frá að svæðið í Minnesota sem hann skoðaði var ekkert annað en sléttlendi, enginn skógur og svo var vegalengdin þangað suður miklu lengri fyrir fólkið í Nýja Íslandi.