Björn Ólafur Björnsson kom til Vesturheims árið 1900, dvaldi í Winnipeg með konu sinni og börnum til ársins 1904. Það ár flutti hann í Mikley og árið 1906 tók hann að sér póstflutninga til og frá eynni. Ekki aðeins annaðist hann póstflutninga til og frá Mikley heldur og frá þorpinu Bad Throat River austan við Winnipegvatn. Í einni ferðinni árið 1910 gerðist þetta. Þorleifur Jóakimsson skrifaði í ,,Frá Austri til Vesturs“:,, Hann druknaði 22. nóvember, 1910. Kom sunnan frá Hnausum með netjaefni, sem hann var að sækja fyrir nágranna sinn. Ók eftir landveginum þar til hann kom að Sandnesi, fór þá út á vatnið og ætlaði að fara eftir því það sem eftir var af leiðinni að Breiðabólsstað, þar sem hann bjó. Þegar hann var nærri kominn á móts við Bjarg, breytti hann stefnunni lítið eitt inn til lands; brast þá ísinn, djúpið greip hann sínum heltökum. Líkinu var náð upp næsta morgun“
Hér kemur svo önnur saga úr sömu bók:
,,Draumur: Kona nokkur í Ísafoldarbyggð, Katrínu að nafni, sem hafði kynst Birni, dreymdi hann skömmu eftir að hann druknaði. Henni sýndist hún sjá hann í hvítum klæðum: bað hún hann syngja eitthvað fyrir sig, og þótti henni hann syngja samstundis vers, sem hún lærði í svefninum:
Eg hef íklæðst þér á skírnar degi
sá skrúði skýlir mér, skaðar synd eigi,
í skærum skrúða þeim skal eg fram ganga
þá drottinn dæmir heim á degi stranga.