Þorsteinn Þ Þorsteinsson

Vesturfarar

Þorsteinn settist að í Winnipeg þar sem hann bjó flest sín ár í Vesturheimi. Hann var í senn listamaður og skáld t.a.m. skreytti hann sjálfur sín rit en einnig önnur svo sem kápu Tímarits Þjóðræknisfélagsins. Hann útskrifaðist frá Hólaskóla aldamótaárið 1900 og eftir vangaveltur varðandi framtíðina afréð hann árið 1901 að flytja vestur. Eitt merkasta verk hans var Saga Íslendinga í Vesturheimi en Þorsteinn er höfundur fyrstu þriggja binda þessa ágæta ritverks. Tryggvi J. Oleson tók við og sá um síðustu tvö bindin. Hann skrifaði um Þorstein í 5. bindi, þar segir (bls. 46):,, Enn er að minnast tímarits, sem kom út í Winnipeg á árunum 1925-1930. Var það missirisrit, sem nefndist Saga, og var útgefandi þess skáldið Þorsteinn Þ. Þorsteinsson. Sögu er lýst sem misserisriti’til hugléttis íslenzkri alþýðu. Þjóðlíf vort eystra og vestra sýnt í sönnum sögum, skáldsögum, munnmælum, rissi og rími. – Margt fleira til fróðleiks, íhugunar og skemtunar“. Meginið af því, sem í ritinu birtist, bæði í bundnu og óbundnu máli, mun Þorsteinn hafa skrifað sjálfur. “  Hér að neðan fylgir stutt yfirlit yfir eitt og annað sem eftir hann lá um miðja 20. öld:

Fíflar  voru safn frumsamdra og þýddra smásagna. Þeir komu út á árunum 1914-1919 og voru þetta tvö bindi. Þorsteinn Oddsson í Winnipeg kostaði útgáfu fyrra bindis en Hjálmar Gíslason aðstoðaði Þorstein með seinna bindið.

Þættir voru kvæðasafn eftir Þorstein og kom það út í Winnipeg árið 1918.

Heimhugi safn kvæða gefið út í Reykjavík árið 1921 en hann dvaldi á Íslandi árin 1920-21.

Kossar voru sögusyrpa sem kom út í Reykjavík árið 1934 en Þorsteinn dvaldi heima á Íslandi 1933-1937.

Vestmenn er sagnaverk sem kom út í Reykjavík árið 1935 og var það hið fyrsta af slíkum verkum sem sennilega teljast hans mestu afrek.

Ævintýrið frá Íslandi til Brasilíu er næst í röð sagnaritunar Þorsteins og kom það út á Íslandi árið 1937.

Saga Íslendinga í Vesturheimi kom út í þremur bindum 1940 – 1945 í Winnipeg.