Milwaukee

Vesturfarar

 

Solomon Juneau, stytta í Milwaukee

Milwaukee  er stærsta borg Wisconsin ríkis.  Hún reis á vesturbakka Michiganvatns um miðbik 19. aldar en öldum saman höfðu þjóðir frumbyggja farið um vötnin og árnar í héraðinu. Nafn borgarinnar er úr máli Algonquian (samheiti yfir lang fjölmennustu þjóð frumbyggja í N. Ameríku. Þessi mikla þjóð kvíslaðist í smærri svo sem Menominee, Sauk, Potawatomi og Ojibwe) og merkir gott land eða fallegt og þægilegt land. Frumbyggja þjóðir bjuggu á svæði umhverfis Green Bay en leituðu suður eftir vesturbakka Michiganvatnsins snemma á 19. öld. Ófriður milli þeirra og innflytjenda voru tíðir og leiddu til styrjalda við Bandaríkjaher. Frumbyggjar óttuðust mjög útþenslu Bandaríkjanna og til að stöðva hana réðust þeir á Chicago 15. ágúst, 1812. Ekki bar það árangur því Bandaríkjamenn sannfærðust um að eina leiðin til að útþenslustefna þeirra í vestur bæri árangur væri að reka frumbyggjaþjóðir af löndum sínum.  Árið 1833 samþykktu frumbyggjaþjóðir samning í Chicago (Treaty of Chicago) og með honum féllust þeir á að láta eftir öll lönd sín og flytja vestur yfir Mississippi (Indian Treaty). Landkönnuðir og trúboðar leituðu vestur fyrir Michiganvatnið seint á 18. öld og snemma á þeirri 19. Árið 1785 mun það hafa verið Alexis nokkur Laframboise sem setti upp skinnaverslun á því svæði  sem borgin seinna reis en fyrstur til að setjast að þar var franskættaði Kanadamaðurinn Solomon Juneau árið 1818 og þorp það sem þar reis var gjarnan kennt við hann og kallað ,,Juneau’s town“. Árið 1846, 31. janúar, var það sameinað tveimur öðrum þorpum og borgin Milwaukee varð til.

Norrænn miðpunktur: Norskir innflytjendur voru fyrstir Norðurlandabúa til að setjast að í Wisconsin. Árið 1838 fluttu fáeinir þeirra vestur þangað en þeir höfðu flutt vestur til Ameríku nokkrum árum áður. Þeir settust að í Rocksýslu, syðst í ríkinu. Sumarið 1840 lagði 60 manna hópur af stað frá Stavangri í Noregi og kom til Rochester í New York nokkrum vikum seinna. Þaðan lá leiðin til Buffalo og svo eftir vötnunum miklu til Milwaukee. Hópurinn ætlaði suður til La Salle sýslu í Illinois en athafnamenn í bænum bentu á alvarlegan malaríufaraldur þar um slóðir og óblíða veðráttu en þar þótti stormasamt. Norðmennirnir settust að í Muskego í Milwaukee County nokkuð sunnan við Milwaukee. Fáeinir hurfu seinna þaðan til borgarinnar og urðu þar athafnamenn. (HNPiA bls. 160) Árið 1870 eru rúmlega 5 þúsund Danir sestir að í Wisconsin, flestir í ýmsum sýslum ríkisins þar sen þeir stunduðu búskap. Margir þeirra kusu viðskipti og settust að í Milwaukee. Þessi fjöldi Dana í ríkinu á árunum 1860-1870 leiddi til þess að skipaður var danskur ræðismaður og var sá kvæntur systur Wilhelm Wickmann, fyrrum verslunarþjóns hjá Guðmundi Thorgrímsen á Eyrarbakka. Þar vann líka danskur maður, Keyser að nafni og flutti sá til Milwaukee þar sem hann greiddi nokkuð leið Íslendinga sem þangað komu upp úr 1870. Í bréfi dagsettu 8. september, 1872 segir bréfritari, Jón Halldórsson frá Stóruvöllum í Bárðardal m.a. þetta um danska ræðismanninn og Keyser:,, Konsúllinn ráðlagði okkur að fara ekki til eyjunnar (Washingtoneyju), því við hefðum þar ekkert að gjöra, réði hann okkur að fara hér yfir vatnið, og vinna þar við sögunarmylnu, höfðu 9 landar okkar farið þangað fyrir þremur dögum….Við heimsóttum Keyser, sem hefir leigt sér hús hér í bænum; hefir hann ofan af fyrir sér með því að hreinsa vagna og fær fyrir það einn og hálfan doll. á dag. Hann lét ekki vel yfir búskap Wickmanns og sagði, að landar okkar hefðu haft baga af því að vera í félagsskap við hann..“ Félagar Jóns þarna í Milwaukee voru þeir Jónas Jónsson frá Stóruvöllum og Jóhannes Arngrímsson frá Nesi í Höfðahverfi. Bankahrun árið 1872 í Bandaríkjunum leiddi til gríðarlegs atvinnuleysis nánast um alla álfuna. Ástandið var hvergi gott orðið síðla árs 1873 en þá höfðu 135 Íslendingar flust til Milwaukee, flestir beint frá Íslandi en nokkrir frá Ontario í Kanada.  Veturinn, sem gekk í garð var þeim öllum erfiður sökum atvinnuleysisins en það ýtti mikið á umræðu um myndun íslenskrar nýlendu í Norður Ameríku.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                  Árið 1870 var íbúafjöldi borgarinnar rúmlega 70 þúsund og voru þýskir innflytjendur fjölmennastir. Norskum og dönskum innflytjendum fjölgaði í borginni síðustu áratugi 19. aldar en Íslendingum fækkaði. Borgin var þó miðstöð Íslendinga í upphafi Vesturfaratímabilsins, verður nokkurs konar höfuðból Íslendinga í Norður Ameríku á árunum 1870-1875. Tvennt olli tímamótum upp úr 1875, annars vegar landnám í Minnesota og stofnun nýrrar, íslenskrar nýlendu þar og hins vegar Nýja Ísland í Kanada. Árið 1874 var ekki aðeins merkilegt í sögu hinnar íslensku þjóðar heima á Fróni, viðburðir í Milwaukee þetta ár áttu eftur að hafa mikil áhrif á líf íslenskra innflytjenda í Norður Ameríku.

Séra Jón Bjarnason í Milwaukee árið 1874. Mynd Minningarit

Íslenskur félagsandi: Tveir menn fluttu vestur til Milwaukee í Wisconsin haustið 1873. Annar þeirra var Jón Ólafsson, alþingismaður, ritstjóri og skáld sem segja má að hafi flúið land vegna skoðana hans á dönsku stjórninni og fulltrúum hennar á Íslandi en hinn var séra Jón Bjarnason. Hann var afar óánægður með Latínuskólann á Íslandi og kennsluhætti þar svo og íslensku þjóðkirkjuna sem hann gagnrýndi óspart. Þessi gagnrýni hans áttu eflaust þátt í því að honum var tvisvar synjað þegar hann sótti um brauð á Íslandi. Prestur þekkti Pál Þorláksson frá námsárum hans í Reykjavík en sá var náfrændi Láru Guðjohnsen, eiginkonu séra Jóns. Páll hafði skrifast á við séra Jón, lýst fyrir honum norskum söfnuðum og æðri skóla þeirra. Taldi hann ekki ólíklegt að séra Jóni byðist prestsembætti hjá norska kirkjufélaginu. Jónarnir tveir áttu það sameiginlegt að hafa nauðugir flust vestur, hvorugur ætlaði að nema land en framtíð beggja í Vesturheimi byggðist mikið á löndum þeirra sem vestur voru komnir og ekki síður þeirra sem seinna kæmu. Séra Jón fór rakleitt til fundar við Pál í St. Louis í Missouri þar sem stundaði guðfræðinám. Norska kirkjufélagið (Norwegian Synod) sendi prestsefni sín á skóla Missouri kirkjufélagsins þýska í St. Louis en það var öflugasta lúterska kirkjufélagið í N. Ameríku um þær mundir en jafnframt það þröngsýnasta. Páll hafði gefið í skyn bréflega til séra Jóns að sennilega þyrfti hann að sækja einhverja tíma í þessum prestaskóla áður en hann fengi stöðu við norska kirkjufélagði. Ekkert varð úr þeirri skólagöngu heldur bauð norska kirkjufélagið séra Jóni kennarastöðu við latínuskóla félagsins í Decorah í Iowa og þáði séra Jón það. Þangað kominn lagði séra Jón kapp á að kynnast starfsemi norska kirkjufélagsins svo og safnaðastarfinu. Um þetta segir í riti ÞÞÞ, Saga Íslendinga í Vesturheimi ll bls. 154-155:,, Nú fór smátt og smátt að opnast nýr heimur fyrir séra Jóni. Hvarvetna blasti við honum fjörugt, starfsamt kirkjulíf, með sterkum áhuga, mikilli skoðana festu og víðtæku, félagslegu starfi. Þetta var hin hin frjálsa kirkja, óháð böndum ríkisins. Þessi nýi heimur vakti undrun hans og aðdáun.“  Þessi áhugi hans á norska kirkjufélaginu og hrifning á öflugu safnaðarstarfi breyttist þó smám saman eftir því sem hann las meir um boðskap félagsins og kenningar þess og ekki síður í viðræðum við norska presta. Honum þótti íhaldsemi þeirra í mikilvægum málum ganga fram úr hófi t.d. vörðu þeir þrælahaldið í Bandaríkjunum, fullyrtu að óskírð börn og heiðingjar lentu í eilífðri glötun þó að þeir hefðu aldrei fengið tækifæri til að heyra guðs orð. Veturinn leið og bæði honum og leiðtogum norska kirkjufélagsins var ljóst að skoðanamunurinn var of mikill til að hann gæti starfað í röðum þess sem sóknarprestur. Hins vegar þótti hann framúrskarandi kennari svo staðan í skólanum bauðst honum áfram.  Hann lýsir þessu svo í bréfi til Helga Hálfdánarsonar dagsettu 5. maí, 1874 í Decorah:,, Þessu boði hefi eg ásett mér að taka, en þó ætla eg aðeins að binda mig hér fyrir næsta ár, því öll hin andlega stefna klerkalýðs þessa líkar mér enn sem fyrr herfilega sökum ófrelsis þeirra og fanatisku skoðana nálega á öllum hlutum. Verði landar hér vestra komnir svo langt, að prestr geti lifað af því að þjóna þeim, þá tekst eg líklega það á hendr; en verði það ekki, þá hverf eg þó líklega héðan burt, því prestr í sýnódu þessari hefi eg fyrir löngu ásett mér aldrei að verða og það jafnvel þótt þeir kunna að slaka til, og það er mín fasta sannfæring, að Íslendingar, sem hingað vestr flytjast, eigi að varast að gefa sig í þetta kirkjufélag. Páll Þorláksson hefir alt aðra skoðun á þessu en eg, því hann unir svo einstaklega vel hinum fornlúterska bókstafsrembingi klerkanna norsku.“  Hér verður að staldra aðeins við og huleiða orð klerksins. Hann afskrifar norska kirkjufélagið sem framtíðar starfsvettvang, varar meira að segja landa sína við að tengjast því á nokkurn hátt. Með þessum orðum má segja að hann segi vini sínum Páli Þorlákssyni stríð á hendur, en um þær mundir er áðurnefnt bréf er ritað var Páll að ljúka guðfræðinámi hjá þessu sama norska kirkjufélagi með þeim áformum að verða einn presta þess. Þá er eftirtektarvert að í orðum hans felst ef til vill sú von að íslensk nýlenda í Norður Ameríku verði að veruleika og þá yrði hann prestur þar.  Það kom líka á daginn að hann var dyggur stuðningsmaður þeirrar hugsjónar að Íslendingar ættu að setjast að einhvers staðar afskekkt, helst utan við norðuramerísk samfélög þar sem varðveita mætti íslenska arfleifð og viðhalda íslenskri tungu um ókomna tíð. Í niðurlagi bréfsins til Helga Hálfdánarsonar segir séra Jón:,, Jón Ólafsson er í góðu gengi hér, og hefir hann dálítið ritað hér í eitt norskt blað um Ísland.“ Hvað ætli hafi vakað fyrir Jóni Ólafssyni um vorið 1874?

Prófessor Rasmus Bjorn Anderson og fjölskylda á heimili hans í Madison í Wisconsin

Íslandsvinurinn Willard Fiske

Landaleit: Allir sem vestur voru komnir veturinn 1873-1874 upplifðu atvinnuleysið sem náði nánast um alla álfuna. Margir komu peningalitlir að heiman haustið 1873 og sumir nánast allslausir. Páll Þorláksson heyrði frá mörgum bágstöddum, bæði í Milwaukee og eins norður í Ontario í Kanada. Hann notaði tengsl sín við Norðmenn í Wisconsin og stóðu þeir fyrir fjársöfnun handa atvinnulausum í Milwaukee og eins handa þeim í íslensku byggðinni í Rosseau í Ontario. Vigfús Sigurðsson var kominn til Ontario í Kanada og sagði um fjársöfnun Páls í bréfi til Íslands:,, ….og svo kom óvænt hjálp frá herra stúdent Páli Þorlákssyni, sem var svo drenglyndur að senda þeim (landnemum í Rosseau) óbeðinn talsverðan fjárstyrk af gjafa samskotum sem fyrir aðgerðir hans var safnað meðal Norðmanna handa Íslendingum; þar að auki hefir hann látið aðra hjálpsemi og velvild í té, sem honum verður aldrei fullþakkað.“ Þennan vetur nýttu nokkrir leiðtogar manna í Milwaukee tímann til að afla upplýsinga um svæði í Bandaríkjunum sem gætu hentað fyrir íslenskt landnám. Þetta voru menn eins og Jón Ólafsson og Ólafur Ólafsson frá Espihóli og var Jón sérstaklega áhugasamur um lönd vestar í Bandaríkjunum. Lánið lék við hann því áhugi margra fræðimanna í Bandaríkjunum á Íslandi þennan vetur var all mikill því þeir þekktu þúsund ára sögu þjóðarinnar og vissu að mikið stæði til á Íslandi árið 1874. Menn á borð við Willard Fiske við Cornell háskólann í Íþöku og Rasmus B. Anderson í Madison í Wisconsin voru einkar áhugasamir og stóð Fiske fyrir myndarlegri bókasendingu til Íslands. Wisconsin State Journal birtir brot úr bréfi Fiske til Anderson 24. maí, 1874 og þar segir Fiske að búið sé að senda bókakassa til Íslands. Lögfræðingur í New York, Marston Niles að nafni, sendi Bandaríkjaþingi frumvarp varðandi bókagjöf til íslensku þjóðarinnar og var það samþykkt. Jón Ólafsson var í sambandi við Rasmus B Anderson og mun hann hafa komið Jóni í samband við Niles. Jón ræddi framtíð Íslendinga við lögfræðinginn og benti sá Jóni á að lesa rit um Alaska, Alaska and its Resources, sem gefið var út í Boston árið 1870 og lýsir staðháttum þar ítarlega. Munu Jón og Ólafur Ólafsson báðir hafa hrifist af verkinu.  Í samræðum manna var landaleit rædd reglulega og hvers skyldi leita. Nokkrir höfðu öðlast reynslu í bandarískum búskaparháttum og gátu lagt til málanna. Loks var til svohljóðandi álitsgerð:

1.       Að landið hafi frjálsa stjórn og sem rýmst borgaralegt frelsi að verða má
2.       Að það sé frjórra og bjargræðissamara en á Íslandi
3.       Að þar sé gnægð lands, er nýkomendur geti numið ókeypis
4.       Að þar sé atvinna svo næg eða þá land svo arðsamt, að nýkomnir þurfi eigi að líða nauð í byrjuninni.
5.       Að skógur sé nægur til húsagjörða, smíða og eldneytis; en þó eigi eintómt skóglendi, er torvelt sé að yrkja.
6.       Að loftslag sé eigi of ólíkt því sem á sér stað á Íslandi; vor og haust blíðari, sumur lengri, en eigi miklum mun heitari en þar er
7.       Að landið liggi við sjó
8.       Að það sé lagað til kvikfjárræktar, og að atvinnuvegir séu yfir höfuð eigi gjörsamlega allir aðrir og ólíkir því er á sér stað á Íslandi
9.       Að svo hagi til, að Íslendingar geti setið einir að landinu, án þess framandi þjóðir dreifi sér innan um þá.

Hugmyndir manna um alíslenska nýlendu hafa mótast sem sést í álitsgerðinni. Eflaust hafa menn hugsað þetta sem leiðarljós því svæði í Norður Ameríku sem fullnægði öllum þessum skilyrðum var vandfundið og fannst reyndar aldrei. Ólafur Ólafsson var ekki við eina fjölina felldur því hann sat fund vorið 1874 með Páli Þorlákssyni, Sigfúsi Magnússyni, Jóni Halldórssyni, Sigurði Kristóferssyni og Árna Sigvaldasyni til að skipulegga landaleit og var stofnað félag sem átti að annast hana. Þeir staðir sem Íslendingar höfðu kynnst í Bandaríkjunum og Kanada um þær mundir uppfylltu ekki mikilvæg skilyrði eins og t.d. sett er fram í 9. lið að ofan. Það var eitt lykilatriðið. Sá staður sem menn eitthvað höfðu kynnt sér var Alaska og var boðaður fundur í Milwaukee í júní og þar ákveðið að senda skoðunarnefnd vestur þangað til að ,,yfirlíta landið og fá sem glöggvust kynni af því. Aðal hvatamaður þessarar farar var Jón ritstj. Ólafsson. Í riti sínu ,,Alaska“ segir Jón frá fundarhaldinu:,, Um þetta leyti vakti vinur minn einn og vinur Íslands hérlendur (Mr. Niles) athygli mína á Alaska; og bar málið undir aðra og leizt öllum vel á. Eg las bók Dall’s  og leitaði allra upplýsinga er eg gat um landið; kvaddi síðan landa í Milwaukee á fund og skýrði fyrir þeim málið; stakk upp á að velja menn þrjá til að fara og skoða landið og skyldu þeir gjöra það á sjálfra sín kostnað. Bauð eg lið mitt þeim, er kosnir yrðu til að reyna fyrir aðstoð vinar míns Niles í New York að útvega þeim að minsta kosti létti í förinni eða fría ferð að nokkru leyti. Var eg kosinn með öllum atkvæðum til fararinnar og Ólafur Ólafsson og Árni Sigvaldason. Árni gat síðar ekki farið; en við Ólafur tókum Pál Björnsson í hans stað. Íslendingar í Wisconsin sendu þá bænaskrá til forseta Bandaríkjanna og báðu hann um að styrkja og aðstoða skoðunarför vora. Svaraði hann því máli vel og léði oss herskip albúið í San Francisco til að sigla til Alaska; var það seglskip og hafði alls 18 fallbyssur og yfir 200 mans.“ (Sjá meira í Byggðir/Alaska). Jón tók þátt í fleiri málum því hann sat í nefnd sem falið var að undirbúa íslenska Þjóðminningarhátið 2. ágúst þetta sumar, sama dag og viðlík hátíð var haldin á Þingvöllum.

Páll Þorláksson um 1875

Þjóðminningarhátíð: Andinn í Milwaukee var sérstakur strax í upphafi árs 1874. Þangað voru komnir á annað hundrað manns víðs vegar að frá Íslandi, sumir komu þangað um haustið 1873 en aðrir talsvert áður. Atvinnuleysi var mikið í N. Ameríku og ýtti það rækilega við mönnum að hefja búskap einhvers staðar saman í íslenskri byggð. Þá var árið merkilegt í sögu íslensku þjóðarinnar sem vakti nokkra athygli blaða og tímarita vestra. Fregnir af komu Danakonungs til Íslands, nýrrar stjórnarskrár og hátíðahalda á Þingvöllum 2. ágúst bárust vestur og voru mikið ræddar manna á meðal í Milwaukee. Vesturfararnir fylltust einhvers konar þjóðarstolti og þótt þeir væru horfnir af braut þá logaði enn innra með þeim ættjarðarást, metnaður að varðveita íslenska arfleifð og íslenska tungu í Vesturheimi. Það var því ekki erfitt að kalla saman einstaklinga á fund í borginni um veturinn til að ræða hugsanlega þjóðminningarhátíð 2. ágúst í Milwaukee. Sennilega hafa þeir Jón Ólafsson og Ólafur Ólafsson frá Espihóli leitt umræður um þetta fram eftir vetri, því menn eins og séra Jón Bjarnason og Páll Þorláksson áttu annríkt annars staðar, Páll í guðfræðinámi í St. Louis og séra Jón að kenna í Decorah í Iowa. Báðir tveir komu til borgarinnar um vorið og tóku eftir það þátt í undirbúningi hátíðarinnar. Skorað var á séra Jón að syngja messu um morguninn 2. ágúst og prédika út af 90. Davíðs sálmi en hann átti að nota um gervallt Ísland 2. ágúst.* Páli Þorlákssyni var falið að semja við norskan söfnuð í Milwaukee um afnot af kirkju hans í miðborginni og var það auðfengið. Í lok júlímánaðar var sett saman nefnd karla og kvenna til að ganga frá dagskrá og munu eftirfarandi hafa setið í henni; Páll Þorláksson, faðir hans Þorlákur Gunnar Jónsson, Jón Ólafsson, Friðjón Friðriksson, Ólafur Ólafsson, Jón Þórðarson og konurnar Lára Guðjohnsen, systurnar Ólöf og Jakobína Jónsdætur frá Espihóli og loks Sigurjóna Grímsdóttir Laxdal.  Séra Jón Bjarnason skrifaði um þessa fyrstu þjóðminningarhátíð Íslendinga í N. Ameríku og var eftirfarandi birt í Minningarriti Sr. J. B. Winnipeg 1917 og segir þar á einum stað:,,Þjóðhátíðarhald vort byrjaði með íslenzkri guðþjónustugjörð, er hófst stundu eftir hádegi í kirkju einni í Milwaukee, heyrandi til lúterskum söfnuði nokkrum norskum þar í bænum. Messaði höfundur bréfs þessa við þetta tækifæri og leitaðist í prédikun sinni við, að snúa hugum manna til lofgerðar við skaparann, fyrir þúsund ára baráttu hinnar íslenzku þjóðar, og til bænar fyrir sérhverri íslenzkri lífshreyfing á ókomnum öldum. Það er hin fyrsta íslenzka messugerð í Vesturheimi, og hlýddi henni auk Íslendinga allmikill fólksfjöldi, einkum af Norðmönnum, svo kirkjan var troðfull og betur til.“ (sjá meira Íslensk arfleifð/Þjóðminningarhátíð í Milwaukee). Eftir messu var skrúðganga úr kirkjunni, eftir nokkrum strætum borgarinnar í rjóður nokkurt í einu úthverfi hennar. Þar voru minni flutt, veitingar fram boðnar, söngur og gleði. Að lokinni hátíð var stofnað félag Íslendinga í Vesturheimi og var tilgangur þess að ,,varðveita og efla íslenzkt þjóðerni meðal Íslendinga í heimsálfu þessari“ og það yrði ,,sambandsliður milli Íslendinga hér vestra og landa vorra heima á Íslandi eða í öðrum löndum.“ (Sjá meir Íslensk arfleifð/Íslendingafélag í Ameríku). Það er óhætt að segja að atburðir þessa dags, 2. ágústs, 1874 hafi lagt grunninn að íslenskum hátíðum í Vesturheimi svo og starfsemi Íslendingafélaga um gervalla Norður Ameríku áratugum saman, jafn vel enn þann dag í dag. Þegar fyrsta Íslendingadagshátíðin var haldin í Winnipeg í lok 19. aldar var 2. ágúst valinn dagurinn og dagskráin byggðist á messu, skrúðgöngu og hátíðarhöldum þar sem minni voru flutt. Enn þann dag í dag er dagskrá hátíðar Íslendinga í Mountain í N. Dakota og Íslendingadagsins á Gimli í Manitoba í grundvallaratriðum sú sama og í Milwaukee 1874. Orðalag stofnskrár Þjóðræknisfélags Íslendinga í Norður Ameríku árið 1919 byggir þónokkuð á sömu boðorðum og lög Íslendingafélagsins í Ameríku frá 1874. Árið 1874 og viðburðir í Milwaukee mörkuðu þannig  tímamót í ungri vesturfarasögu Íslendinga í N. Ameríku. Íslendingar í Vesturheimi skyldu leita svæðis fyrir nýja íslenska byggð þar sem íslensk arfleifð og tunga skyldu varðveitt um ókomna tíð.

*,,Drottinn þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns…“ Séra Matthías Jochumsson orti þetta ár (1874) sálm, ,,Ó, Guð vors lands,“ út frá þessum sem seinna varð þjóðsöngur Íslendinga undir lagi Sveinbjörns Sveinbjörnssonar.