Alberta nýlendan

Vesturfarar

Paleo-Indjánar við veiðar. Mynd AHS

Paleo-Indjánar komu á sléttuna þar sem fylkið Alberta er í dag fyrir 10000 árum. Þeir komu frá Síberíu til Alaska sem þá tengdust með landi yfir Beringsund. Sumir fóru suður austan megin við Klettafjöllin aðrir strandleiðina til Bresku Kolumbíu og þaðan yfir Klettafjöllin út á sléttuna nærri Calgary. Með árunum urðu til frumbyggjaþjóðir á sléttunni svo sem Plains Indians, Blackfoot og Plains Cree sem fylgdu vísindahjörðum en norðar á sléttunni bjuggu Woodland Cree og Chipewyan sem veiddu fisk og ýmis spendýr í gildrur. Árið 1670 fékk breska stórfyrirtækið Hudson´s Bay Company einkaleyfi á skinnaverslun á kanadísku sléttunni og smám saman urðu til verslunarstaðir. Þar mynduðust lítil þorp og akuryrkja óx. Alberta varð til árið 1882 sem hérað í Norðvestur-héraði Kanada (North-West Territories) og smám saman fjölgaði íbúum. Um aldamótin kröfðust íbúar þess að nýtt fylki yrði til og loks árið 1905 varð Alberta þriðja fylkið á kanadísu sléttunni. Nafnið var í höfuðið á Louise Caroline Alberta prinsessu (1848-1939) . Í Vestur-Kanada, suðurhluta Alberta fylkis, þar sem sumur eru heit og þurr og vestur kaldir og snjóþungir, einkennist landslagið af graslendi. Kornrækt, mest hveiti og nautgriparækt eru helstu atvinnuvegir bænda. Vestar, við fylkjamörk Alberta og Bresku Kólumbíu gnæfa tíguleg Klettafjöllin, þar sem vel sótta ferðamannastaði, svo sem Banff og Jasper er að finna. Íslenskt landnám var aðallega í nágrenni Markerville, Innisfail og Calgary, u.þ.b. 100 km frá Klettafjöllunum.                                                                                                                                                                                                                                                        Íslenskt landnám

Jónas J. Húnfjörð (Hunford) skrifaði um landnámið í Alberta og birtist fyrsti þáttur greinar hans í Almanakinu árið 1909. Gefum Jónasi orðið: ,,Landnám Íslendinga í Alberta byrjaði árið 1888, úr Pembina héraði, Norður Dakota. Þó var Ólafur Guðmundarson – Goodman – áður fluttur með fjölskyldu sína til Calgary, líklega ári fyrr, 1887, og faðir hans og bræður, sem fluttu litlu síðar en hann og settust þeir að hjá Ólafi. Að öðru leyti verður þessara manna getið síðar, í landnámsþættinum. Ýmsar voru orsakir til þess, að menn fýstust, að flytja burt úr hinu frjóvsama, gagnauðuga Pembina hjeraði; ekki var það fyrir þá sök, að mönnum dyldist, að Dakota væri framtíðarinnar auðæfa og hagsældarland, sem líklegt væri til, að endurgjalda í ríkulegum mæli, erfiði og tilkostnað innbyggjanna; en það var líka sjeð, að það tók sinn tíma; tók bæði langan tíma og mikið fje, svo mjög var varasamt að sumir myndu standa gegnum það tímabil. Allflestir Íslendingar sem þangað fluttu, bæði frá Nýja Íslandi og heiman frá gamla landinu, höfðu komið þangað, sem næst því, fjelausir; margir urðu að hleypa sjer í stórskuldir, til að geta unnið löndin. Margir tóku það ráð, að veðsetja óðul sín og jafnvel allt sem þeir áttu, fyrir stórum peninga upphæðum, til að kaupa vinnudýr og verkfæri til akuryrkju. Lánið fjekkst, en með hinum mestu afarkostum, tilgjöfum og okur rentum; og eðlilega gat ekki kornyrkjan, sem þá var í byrjun og barndómi, gefið oss fljótan og ríkulegan arð, að lántakendurnir, gætu með nokkrum þolanlegum afkomuvegi sloppið gegnum kúgunar klærnar. Það sýndist vera á þeim tímum, lík afstaða fyrir sumum, og frændum þeirra, kringum 874, annað hvort að gjörast ánauðugir þrælar okurfjelaga og auðkýfinga, eða flýja í tíma óðul og eignir, og það varð sem fyrrum, að þeir tóku síðari kostinn. Enn var sú orsök til burtflutninganna, úr Dakota, að þangað voru komnir handan um haf, ekki svo fáir menn, bæði fjölskyldufeður og einhleypir menn, sem hugðu á landnám nær tímar liðu; en á þeim árum, var land mjög numið í Dakota, í grennd við bygðir Íslendinga, það sem nýtilegt þótti; þessum mönnum var því um tvennt að velja; annað hvort, að verða seint eða aldrei sjálfstæðir menn, eða leita sjer staðfestu í fjarliggjandi hjeruðum. Og Íslendingar voru enn of hugstórir og kjarkmiklir, til þess, að þeim fjellust hendur; þeir vildu heldur voga til hins óvissa, en lifa við áþján og ósjálfstæði; þeim hraus hugur við , að ná hvergi fótfestu á jörðunni og gjöra þannig sig og afkomendur sína að ættlerum; nei, þeir vildu ráða sér sjálfir. Svo voru nokkrir, sem fundu sjer nauðsyn, að breyta um, vegna heilsunnar; þeir fundu, að þeir þoldu illa loftslagið; fundu að hin löngu vetrarfrost og hið þurra, fasta meginlandsloft, myndi innan fárra ára, verða þeim að aldurtila. Af þessum og fleiri ástæðum, hugðu menn á brottflutning úr Dakota.“

Fundað í Dakota

,,Í marsmánuði 1888 var skotið á fundi, skyldi þá ræða um burtflutninga á næstu vordögum. Á þeim fundi voru nærri þrjátíu manns; fluttu þetta mál, sérstaklega þeir Ólafur Ólafsson, Espihóli, Einar Jónasson læknir, og Sigurður J. Björnsson. Sýndu þeir ljóslega fram á, hve horfurnar væru ískyggilegar fyrir ýmsum, að sitja kyrrir, og eigi uggvænt, að svo kæmi ráði sumra hinna fátæku, að þeir losnuðu nauðuglega, ef þeir ljetu undir höfuð leggjast, að hvata ferð sinni eins fljótt og hægt væri. Kom þá svo, að samþykt var, að undirbúa landnámsferð á næsta vori. Var þá rætt um, hvert flytja skyldi; fannst það mjög á, að hugir flestra stefndu vestur um fjöll, til hinnar veðursælu Kyrrahafs-strandar; í hugum manna brosti við, hið tignarlega fjölbreytta útsýni, hin vestlæga náttúrufegurð; hið vestlæga haf, fjöllin, dalirnir, firðirnir, víkurnar og vogarnir, allt þetta var sem segulafl, sem dró hugi margra að sjer, án þess, að menn, þá í svipinn, tækju nægilegt tillit til erfiðleikanna og kostnaðarins, sem óhjákvæmilega hlyti að verða því samfara, að flytja þangað. Eigi þótti samt hinum hyggnari mönnum ráð, að binda þetta fastmælum, án þess að senda mann vestur til landskoðunar og annars nauðsynlegs undirbúnings. Skyldi hann ferðast á kostnað þeirra, er hyggðu á vesturferð næsta vor. Fundurinn kaus til þeirrar ferðar Sigurð J. Björnsson, sem fúslega gaf kost á sér. Var Sigurði ríkt á lagt, að velja plázið, þar sem landkostir væru góðir, og gagnsemi af vötnum og ám, því mest var búist við í framtíðinni, kvikfjárrækt og veiðiskap, sem atvinnuveg. Einnig skyldi Sigurður, búa í haginn, ýms þægindi fyrir vesturfarana, svo sem með fargjald og fleira. Peninga til ferðarinnar vestur, skyldi Sigurður fá, af frjálsum framlögum, og ætlum vjer víst, að allir sem hlut áttu að þessu máli, að hafa lagt til sinn pening, þótt oss uggi, að veganesti hans hafi verið rýrara en æskilegt hefði verið. Flestir höfðu þröngan skó í peningasökum, og urðu því, að sníða stakkinn eftir vextinum.“ 

Landkönnun  Sigurðar Jósúa

Sigurður J Björnsson Mynd Dm

,,Sigurður tók sjer skömmu síðar far, með Norður Kyrrahafs-brautinni vestur til Vancouver; þaðan hélt hann norður um eyjuna, allt til Nanaimo, sem mun vera um þrjú hundruð mílur norður frá Victoria. (innskot JÞ. Í frásögn Jónasar að ofan hefur eflaust átt að standa …vestur til Vancouvereyju því Nanaimo er þar 110 km. norður af Victoria). Ekki mun Sigurðar hafa átt kost á, á þeirri leið, að skoða land vítt yfir; en svo sagðist honum frá, að hvergi hefði sjer litizt hagkvæmar stöðvar fyrir nýbyggja; og víst var um það, að svo sneri Sigurður aptur austur um, að hann hafði enga ákvörðun tekið um það, að leiða flokk sinn vestur að Kyrrahafi. Sumum mun nú hafa fundizt Sigurður reka slælega, sitt erindi þar vestra; en að öllu yfirveguðu sýnist það hafa haft við lítið að styðjast. Sigurð skorti hvorttveggja, fje og tíma til, að svipta sjer frá einu plázi til annars þar vestra; og það er víst, í því efni gat hann naumast breytt gagnvart flokk sínum öðruvísi, en hann gjörði, hvað Kyrrahafsferðina snerti. Þegar Sigurður kom að vestan til Calgary, fann hann Ólaf Goodman, sem fyrr er nefndur; tóku þeir tal með sjer, um vesturflutning Dakota manna. Ólafur hafði þá, eigi löngu áður, ferðast norður, til að líta eptir landkostum kringum Red Deer ána; leizt honum land þar mjög vel og þar myndi gott nýlendusvæði; kvað hann sjer svo hug um segja, að þar myndi vel fallið, að Íslendingar stofnuðu nýlendu. Búinn mun Ólafur hafa verið þá, að taka þar land fyrir sig og  föður sinn, þó vjer ekki kunnum að segja það víst, og hefði svo verið, var mjög eðlilegt, að hann hlynnti að því, að Íslendingar flyttu þar norður um; en slíkt þurfti samt ekki vera ástæðan, því Ólafur varð kunnur að því, að vilja löndum sínum hið bezta, sem opt gaf raun á. Hvatti hann nú Sigurð til, að fara norður og kanna landið norðan Red Deer árinnar. En hvort sem þeim ráðum var ráðið stutt eða lengi, þá rjeðist það, að Sigurður færi norður; fjekk Ólafur honum til fylgdar, bróður sinn, Sigfús Goodman, sem áður hafði farið norður, og var því kunnugur leiðinni. Í þeirri ferð skoðaði Sigurður landið norður frá Red Deer ánni, þrjú ,,township“ (sýslur). Leizt honum land þar, hið byggilegasta, og ákvað, að fá sett til síðu Townsh. 36, Range 1. og Township 36, R 2, fyrir íslenzka innflytjendur. Að því framkvæmdu, hjelt hann aptur til Dakota, og kom þangað fyrst dagana af maímánuði.“

Fyrsti hópurinn fer til Alberta

,,Sigurður hafði frá Calgary, ritað ýmsum syðra, og sagt hið ljósasta af ferðum sínum. Segir hann þá svo í brjefi til mín;,,Mjer leizt vel á landið norður frá Red Deer ánni; jarðvegur er þar góður og grösugur; skiptist þar á meginlega, plógland og engi, með skógabeltum hjer og þar. Veiði er sögð þar hvívetna í ám og vötnum, og vetrar eru sagðir að vera styttri og vægari í Alberta, en austur í Manitoba“. Þegar Sigurður kom suður úr ferð sinni, höfðu menn selt talsvert af eignum sínum; og þótt mönnum þætti all-illt, að verða að breyta ætlun sinni, að flytja vestur að Kyrrahafi, breyttist þó ekk áform manna að flytja burtu. Sigurður eggjaði menn, að flytja til Alberta; kvað sjer þar sýnast landkosti góða. Kvaðst hann hugsa, að það pláz, væri mjög eptir kröfum Íslendinga, og við þeirra skap, að loptslagi, veðráttu og landkostum. Var þá fastmælum bundið, að flytja til Alberta, og byrja landnám, á því landsplázi, sem Sigurður hafði skoðað og ákveðið, og í grend við það. Það var hvorttvegga, að flestir þeir, sem höfðu ráðizt til þessarar farar, voru fátækir menn, og hitt; að eignir þeirra seldust varla fyrir hálfvirði; peninga upphæðir þeirra urðu því harla smáar, til að flytja mörg hundruð mílur, og byrja svo búnað í afskekktu, ónumdu héraði. Sumir voru svo efnalausir, að þeir höfðu lítið meir en farareyri. Tuttugasta og fjórða maímánaðar 1888, var ferðin byrjuð; fólk og farangur, var flutt á hestvögnum norður að landamærum ríkjanna. Í Gretna voru keypt farbréf til Winnipeg, sem kostuðu þrjá dali. Engar lifandi skepnur mátti þá flytja norðuryfir landamærin, utan með þeim skildaga að hafa þær í haldi við merkjalínuna 90 daga á eigandanna kostnað, og sáu menn hann lítt kleyftan. S. J. Björnsson, gaf þær upplýsingar, að nautgripir í Alberta, væru í afarverði, eins og síðar gaf raun á. Var því til ráðs tekið að kaupa nokkrar kýr í Gretna og þar í grennd og flytja þær vestur. Voru þá keyptar 12 kýr og 1 árungur; verðið á þeim var 20-25 dali hver kýr. Flestar voru kýr þessar magrar og ljótar útlits, og óbættar að kynferði. Svo var leigður járnbrautarvagn fyrir 85 dali, til að flytja þessa nautgripi og farangur manna vestur til Calgary; einn maður hafði frítt far í vagninum til að hirða gripina á ferðinni. Svo var ferðinni haldið áfram til Winnipeg. Í Winnipeg urðu menn að dvelja nærfelt tvo sólarhringa, af þeirri ástæðu, að S. J. Björnsson áleit ráðlegast, að kaupa þar ýms búsgögn, svo sem matreiðslustór og ýms smærri áhöld; kvaðst hann vita, að allt þesskonar væri dýrara vestur í Calgary, sem þó ekki var í raun og veru þegar flutningskostnaður var lagður við söluverðið, svo það varð aðeins til fyrirhafnar, en engra hagsbóta; og það ætlum vjer óhætt að segja, að slíkt var vanhyggju Sigurðar að kenna.“ Nú skal fara hratt yfir sögu, í hópnum sem fór þessa fyrstu landnámsferð til Alberta voru, Sigurður J. Björnsson, Ólafur Ólafsson frá Espihóli, Benidikt Ólafsson, Einar Jónsson, læknir, Sigurður Árnason, Bjarni Jónsson, Jónas J. Hunford, Benidikt Jónsson Bardal, Gísli Jónsson Dalmann. Í hópnum voru líka einhleypir menn, Guðmundur Þorláksson, Jón Guðmundarson og Jósef Jónsson. Og í Winnipeg bættust Jóhann Björnsson, Eyjólfur Helgason og einn einhleypur, Jón Einarsson. Lagt var af stað frá Winnipeg 29. maí og komið vestur til Calgary að morgni 1. júní.

Út í óbyggðir

Við gefum Jónasi Húnfjörð aftur orðið:,,Í Calgary dvaldist mönnum, bæði vegna ýmissa undirbúnings umsvifa, og svo rigninga, sem þá voru óvanalega miklar. Nálægt miðjum júnímánuði, mun flokkurinn hafa tekið sig upp úr bænum og stefnt á norðurleið. Ferð þessi var bæði torsótt og erfið, og bar til þess einkum tvennt: það, að akdýrin voru illa í standi til þeirrar ferðar og hitt: að vegir voru lítt færir, vegna rigninganna, sem þá gengu. Það var ekki ósjaldan, að öllu yrði að afhlessa, fólki og flutningi; karlmenn urðu að ganga nær því alla leiðina, nema að eins keyrslumenn. Margsinnis urðu karlmenn að bera kvennfólk og börn yfir verstu foræðin, því annars myndi það hafa gjörsamlega sokkið. Það var næstum óskiljanlegt, hvað konur og börn entust og hjeldu lífi og heilsu, því aðbúnaður og meðferð, var hið versta, sem hugsazt gat. Mann hryllir enn við því, að hugsa til þess, að sjá konurnar ofan á ýmsum flutningi á vögnunum, með barnahópinn utan um sig, opt votar og kaldar; koma svo til náttstaðar, og leggjast til hvíldar ofan á blauta og kalda jörðina. Dagleiðir voru stuttar, stundum aðeins 10 mílur (16 km). Á sjötta degi, náði flokkurinn norður að Red Deer ánni, þar sem síðar var kallaður Myllnubakki. Urðu menn því harla fegnir, að vera komnir það áleiðis með heilu og höldnu, þótt margt misjafnt hefði á dagana drifið, og menn og skepnur væri þreytt og þjakað. Slógu menn þá upp tjöldum og tóku á sig náðir.“ Nú tók við vandasamt verk við að koma mönnum, skepnum og farangri yfir ána. Vegna linnlausra rigninga síðustu daga hafið vaxið í ánni og var hún nánast orðin að stórfljóti. Svo vel vildi til að nokkrir í hópnum höfðu keypt sagaðan við í Calgary og var því ákveðið að smíða bát. Jónas Húnfjörð skrifaði og lýsti flutningnum yfir ána:,, Það var þriðjudaginn 27. júnímánaðar, að flytja skyldi yfir um ána. Báturinn var þá fullgjör; á honum skyldi flytja fólkið, farangurinn og vagnana, og hafa hestana á eptir bátnum, en nautgripina skyldi láta synda yfir. Þetta var gjört og tókst óhappalaust, en svaðilför var það mikil á mönnum og skepnum. Þegar öllum flutningum var lokið, var dagur að kveldi kominn, og sváfu menn í tjöldum þá nótt…Þarna voru þá komnir norður fyrir Red Deer, 11 fjölskyldufeður og fjórir menn einhleypir. Alls mun fólkið hafa verið samtals 50, eða sem því næst.“

Ákvörðunarstaður – Landnám

,,Næsta dag eptir, 28 júní, fóru menn að litast um; allir voru þá búnir að fá meir en nóg af ferðalaginu, og urðu því fegnir að setjast um kyrrt; dreifðust menn þá, og leituðust fyrir hvar bezt myndi til bólstaðar; höfðu sumir meira umstang fyrir því en þurft hefði, og kom ekki heppilega niður, eins og sýndi sig síðar; en dreifingin á þessum fámenna fátæka flokk, var til þess, að draga úr þeim litlu kröftum, sem hann hafði yfir að ráða, og gjöra líf hinna fátæku nýbýlinga enn erfiðara. Nú eftir 20 ár, er sem hrollur fari um mann, að líta til baka og virða fyrir sjer ástæðurnar, eins og þær voru þá; að vera komnir með konur og börn, allir eignalitlir, sumir eignalausir, út í þessa auðn, næstum 100 mílur (160 km) burt frá öllum lífsþægindum, var í mesta máta voðalegt, enda máttu margir lengi, gjalda þeirrar fífl-fyrfsku. Og ekki síður er það aðdáunarvert, hve vel rættist fram úr örðugleikunum fyrir flestum, af þessum fyrstu landnemum. Það hefir flestum komið saman um, að rjett væri, að telja aldur landnámsins frá 27. júnímánaðar 1888.“  Með þessum orðum lauk Jónas Húnfjörð 1. þætti sínum en árið 1911 birtir Almanakið svo 2. þátt og áfram skrifar Jónas:,, Þar skal sögu þessa hefja, sem áður var frá horfið, í fyrsta kafla hennar, að hinir fyrstu landnemar, voru staddir á norðurbakka Red Deer árinnar og hugðu á bólstaðar gjörð, hver þar,, sem honum leizt myndi giptu drjúgast fyrir framtíðina. Þess hefir áður verið getið, að tvö township, höfðu verið valin fyrir landnám Íslendinga. En sá var galli á öðru þeirra að í því vöntuðu sections mælingar. Það liggur að mestu vestan Medicine árinnar. (Innskot: Á þessi rennur vestan megin framhjá Markerville í Red Deer ána nærri Innisfail. Landnemar nefndu hana Huld) Það er frjótt land víða, sumsstaðar nokkuð lágt. Enginn af þessum landnema hóp, tók þá land vestan árinnar; bar til þess einkum tvennt: áin var þá í stórflóði lengi sumars og torsótt yfirferðar, og svo var landið þau missiri ákaflega blautt; voru þar sumsstaðar stórvötn, sem síðar urðu frjó heylönd, en sem þá, sýndust ekki auðveld til afnota. Nóg var þá landrými austan árinnar og þurrara. Allir vildu ná hallkvæmu framtíðarlandi. Dreifðust svo þessir fáu menn um township, 36 Range 1 og t0wnship 36, Range 2, sem þá var ómælt, liggur það báðum megin árinnar, samt meira austanvert. Á ómældu löndin settust menn eftir ágizkan einni um landamerki, og reyndist slíkt víða ekki rjett, sem von var, þegar landið var mælt mörgum árum síðar; urðu þá sumir miður ánægðir með sitt landnám, sem leiddi til þess, að nokkrir færðu þá bú sín á geðfeldari stöðvar. Þeim sem sezt höfðu vitneskjulausir á járnbrautar- eða Hudson Bay lönd, útvegaði stjórnin landaskipti, svo þeir mættu hafa bú sín kyrr, ef þeim hugnaði það betur. Þess er getið að framan í 1. kafla, að ellefu fjölskyldufeður hefðu flutt norður, af þeim sem tóku far frá Winnipeg; en gleymzt hefir, að geta eins af þeim, Sigurðar Björnssonar, sem kom frá Dakota. Einnig var í fjölskyldu Sigurðar Árnasonar, giftur maður Guðmundur Illugason, sem fylgdist með til Calgary, og sem síðar nam land nyrðra. Litlu síðar fluttu þeir einnig norður Guðmundur Jónsson og Sigfús Goodman sonur hans, og settust á lönd sín.“

,,Bjargráð nýlendubúa fyrstu árin“

,,Af því, sem áður er ritað, er auðvelt að geta sjer til, að ekki hafi verið um framfarir að ræða, fyrstu tvö árin meðal nýlendumanna. Flestum þeirra var um það eitt að gjöra, að ráða fram úr bráðustu þörfum. En góð ráð voru dýr; eigi var um atvinnu að ræða, nær en suður í Calgary-bæ. Þangað urðu menn að hverfa, sama sumarið, sem þeir fluttu norður, en láta eptir konur og börn, með eptirliti þeirra sem kyrrir voru. Flestir þeirra, sem suður fóru, unnu hjá Ólafi Goodman, sem hafði þar missiri samningsvinnu í Calgary; unnu sumir þeirra fyrir hann næsta vetur, þótt þeim yrði það sumum að litlu liði. Til viðauka við þann litla nautgripastofn, sem fluttur hafði verið austan úr Manitoba og áður verið skýrt frá, keyptu nýlendubúar 12 kvígur þriggja ára, þá um haustið, þær voru vænar útlits og kyngóðar en afar dýrar, 39 til 45 dali borguðu flestir með þeim peningum, sem þeim höfðu græðzt um haustið fyrir vinnu sína í Calgary, gengu kaup þessi svo nærri sumum, sem höfðu margt skyldulið fram að færa, að þeir settu sig í voða og hyski sitt, með vetrarforða; samt komust menn af veturinn næsta með hörkubrögðum. Ein sölubúð var suður frá Red Deer ánni, og var þar allt með okurverði, en yfir háveturinn urðu ný-byggjar að hlýta þeim ókjörum, og varð þeim það fjeskýlft mjög. Sem dæmi þess, hve allt var dýrt, má geta þess, að hveiti-sekkur af ljelegustu tegund – XXXX – var 4 dali. Steinólía eitt gallon 80 cts. Pund af grænu kaffi 33cts. Molasykur 12, 1/2 cts og annað allt líkt þessu. Hafði þá nær því enginn maður cent í afgangi þegar voraði. Vetur sá var nær því sem enginn og voraði mjög snemma; leysti þá ísa snemma af ám og vötnum; veiði var í Medicine-ánni sem þá var sótt fast af flestum; bjargaði það ástæðum margra, því gnægð fiskjar var þá í ánni yfir vorið og sumarið fyrstu árin, var það mest sugfiskur, pikkfiskur og gedda, sem veiddist. Sumir veiddu svo mörg hundruðum skipti og lifðu af því að mestu leyti tímum saman. Svo leituðu menn til fanga, að vatni því er norður liggur frá byggðinni og Snáka-vatn heitir; var þar gedduveið mikil fyrstu árin; fluttu menn þangað báta og höfðu net að veiðarfærum. Voru menn þar í fiskveri í apríl og maímánuðum. Höfðu menn þá opt veður hörð og kalda útivist. Rok voru á vatninu einatt svo dægrum skipti, að illt var til fiskjar; veiddu Íslendingar í vatninu ógrynni fyrstu árin og var það þeim hagsbót mikil. Að útvinnan og fiskveiðin, hafi verið bjargráð nýlendumanna, fyrstu árin, ætla jeg satt sagt; ekki var búpeningi til að dreifa; hann var sem áður er tekið fram, ekki margur; allt var á vetur dregið til fjölgunar, sem lifað gat, og aukið við stofninn sem mest var unnt.

Félagsskapur – Póstþjónusta

,,Hin fyrsta gleðisamkoma, sem haldin var í byggðinni, var 27. júnímánaðar, 1889, hjá S. J. Björnsson. Þeir fáu, sem þá voru heima í byggðinni, sóttu mót þetta; enginn sat heima; var þá rætt um framtíðarhorfur byggðarinnar og skemt með söng og ræðuhöldum, með fleiru. Þá var það að Guðmundur Jónsson, bar upp til umræðu, hvað nýlenda þessi skyldi nefnd, kom mönnum þá ásamt, að kalla hana ,,Medecine Valley“. Samt festist þetta nafn aldrei við byggð þessa, heldur hefir hún verið nefnd ýmist Alberta-nýlenda eða Red Deer-nýlenda, og er þó hvorugt vel valið. Samgöngufæri voru þá engin. Fyrst fengu menn póst sinn frá Calgary seint og síðar meir. Svo var hann fluttur norður á sölubúð þá, sem fyrr er nefnd; var hún síðar nefnd ,,Poplar Grove“ – nú ,,Innisfail“; þangað var pósturinn sóttur fyrsta veturinn með hættu og erfiðleikum, þar sem eigi varð yfir Red Deer-ána komizt, utan á bátum, opt um langan tíma. Þá var það síðla um veturinn 1889, að L.M.Zage (Innskot: hann var eini landneminn norðan við Red Deer ána þegar Íslendingar komu þar fyrst) fjekk þá flugu í höfuðið, að fá sett pósthús hjá sjer; veittu Íslendingar og fleiri, honum að þessu; bænaskrá var samin og undirrituð og send stjórninni. Stjórnin brást vel við og veitti þessu áheyrn. Fjekk Zage pósthúsið sumarið 1889; var það nefnt „Cash City“. Hafði Zage pósthúsið aðeins rúmt ár, en sleppti því svo með litlum drengskap; sagði eigi hægt, að halda því áfram; kvað hann Íslendinga skrælingja eina, sem eigi væru þess um komnir, að eiga viðskipti nje samgöngufæri við umheiminn. Fjell þá niður póst afgreiðsla að Cash City. Urðu þá nýlendumenn sem fyrr, að sækja póst sinn til Poplar Grove um hin næstu missiri, þangað til pósthúsið var sett að Tindastól, sem síðar mun sagt verða“. 

Samgöngur

Járnbrautarstöðin í Innisfail Mynd forthjunction.ca

Enn hefur Jónas Húnfjörð orðið, 3. þáttur hans um Alberta nýlenduna kom í Almanakinu 1912. ,,Sumarið 1890 var unnið að járnbrautarlagningu milli Calgary og Edmonton; var það C. P. R. fjelagið, sem byggði þá braut. Við það minnkuðu vandræðin, hvað fjarlægð frá markaði áhrærði, þótt allt væri enn dýrt og löngu eptir það. Um það leyti, sem brautin var lögð norður um, myndaðist smábær í Poplar Grove, sem þá fékk nafnið Innisfail, sem varð þá og er enn næsta járnbrautarstöð fyrir mestan hluta nýlendunnar. En þótt nú væri brugðið til betra, svo stóru munaði frá því áður var voru þó aðflutningar frá Innisfail takmarkaðir og ærnum erfiðleikum háðir. Enn var Red Deer áin óhindruð, að ögra mönnum og bjóða þeim byrginn, ýmist að tálma ferð þeirra eða setja líf þeirra og eignir í voða. Engin brú eða gagnleg ferja fjekkzt þá um fleiri ár yfir ána; það var fyrst árið 1902 eða 3 að keyrslubrú var byggð á Red Deer ána, að tilhlutun stjórnarinnar, á póstveginum milli Innisfail og Tindastoll, varð það fyrir ötula framgöngu herra J. A. Simpson, fylkis-þingmannsins í Innisfail-kjördæmi, að þessi vogestur nýlendubúa var sigraður. Eptir þann tíma að keyrslubrúin var byggð yfir Red Deer ána tóku viðskiptatækifæri nýlendubúa mikilsverðum breytingum til hins hallkvæmara, hvað markað og verzlun  áhræðri. Í 14 ár höfðu þeir orðið að leggja á tvær hættur þegar óhjákvæmilegt var að reka ýms nauðsynjaerindi yfir við járnbraut, sem kom fyrir vikulega allt árið. Þótt nú þessi farartálmi væri, sem sagt hefir verið, hættulegasti ókosturinn, sem býbyggjarnir höfðu við að stríða, þá voru þeir fleiri andmarkarnir á þeim árum, sem þreyttu menn og hjeldu þeim til baka; því verður sannarlega ekki neitað, að framtíðarhorfurnar voru ískyggilegar.“

Vonleysi – uppgjöf

,,Það liðu heldur ekki mörg ár, áður sumir tóku að þreytast á örðugleikunum; var þeim og vorkunn mikil. Það þurfti sterka von og trú á framtíðina til þess að viljaþrekið og stefnufestan færi ekki á hæli. Árferði var þá illt; vorin köld og þur og frostnætur tíðar yfir sumarið, stundum nálega í hverjum mánuði; jarðrækt sýndist þá gefa smáar vonir um góðann árangur. Þó ryki hafði verið kastað í augu manna, að járnbraut yrði lögð norður um nýlenduna eða sem næst því, innan skamms tíma, en sem urðu tálvonir einar; hagsmunabótin við hina nýbyggðu sögunarmylnu sunnan við Red Deer ána varð að engu. Innflutningur var lítill fyrstu árin, því afspurn og ágizkun sagði umheiminum þá litlar framtíðarvonir í Alberta. Þegar þetta allt saman lagðist við farfýsi sumra, þá kom svo, að ýmsir hugðu á burtflutning úr nýlendunni og fýstu aðra til hins sama; þeir sem voru sýktir af farfýsinni sýndu fram á, að nýlenda þessi þrifist ekki, hún gæti ekki átt von á góðri framtíð; ekkert þrifist í jörðu sökum kulda og frosta; allt þornaði upp, jafnvel árnar og vötnin, svo búpeningur dræpist niður af þurk og vatnsskorti, engin járnbraut yrði byggð nær, enginn þolanlegur markaður fengizt fyrir afurðir bænda, ef nokkrar yrðu, enginn skóli fengist, svo yngri kynslóðin yxi upp sem dýr merkurinnar. Þessar voru spár ýmsra þeirra, sem álitu það eitt ráð, að flytja burtu og það voru sumir hinna leiðandi manna er hjeldu þessu fram. Það var sumarið 1892 að þeir fluttu héðan, heill hópur. Voru það: Einar læknir, Ólafur frá Espihóli, Sigurður J. Björnsson, Gísli Dalman og fleiri; leit þá helzt út fyrir að bygðin myndi eiðast; þessir menn hvöttu líka til brottferðar; en það voru þá nokkrir sem ekki vildu hlýða á þær eggjanir, svo sem Stephán skáld, Jón Pjetursson, Jóhann Björnsson og ýmsir fleiri. Þá var það að Stephán kvað kvæðið: ,,Að skilnaði“. ,,Þið farið burt; en eg verð eptir“ – Andvök. I bls. 275 -; Geðjaðist sumum þeirra lítt að því og er þó kvæði það þrungið af spakmælum og sannleika.“

Að skilnaði

Þið farið burt, en eg verð eftir
Álít heiminn sviplíkan:
Svartir skuggar, sólskins blettir
Sáust hvert sem augað rann.
– Bara víðast vantar Grettir
Vætti illa er sigra kann.

Heill sé þeim, sem hefir þreyju
Höggva í örðugleikann stig!
Sem að dofa dára-treyju
Doða og víls ei spennir sig!
Herðum, lífs sem bónda-beygju
Brjóta, en leggjast ekki á slig.

Þið farið burt, en eg verð eftir –
Auðn í sveit fær manns-hönd breytt
Náman, gullið rauða réttir
Rekulausum höndum neitt –
Edens-leit er lúa-sprettir,
Labb og skæða-slitið eitt.

Mig ei þangað fýsir flytja
Fyrir-bygð sem jörð er öll,
Gerast annars garðs-horns rytja,
Græða ei út neinn heimavöll –
Rúm fyrir þrótt minn, þar sem strita
Þessir fáu að tímans höll.

Þið farið burt, en eg verð ettir
Áset mér að reyna og sjá
Áður göngu lífsins léttir;
Loks hvor stærra dagsverk á,
Sytra, er út við skúr sér skvettir
Skjótt, eða farvegs-gróin á.

Þið farið burt, en eg verð ettir –
Ósk sú mér við hug er feld:
Ykkar vegir verði sléttir!
-Viljug fram á æfikveld,
Brigði-vona haugaeld!

Draumar rætast

,,Burtflutningur þessi var nýlendunni hnekkir. Framkvæmdakrapturinn minnkaði og spillti áliti á nýlendunni á fjarlægum stöðum. En hrakspár þeirra sem burtu eru nú flestar orðnar að engu fyrir staðreyndinni. Akuryrkja er nú orðin hjer í talsvert stórum stýl og þó hún sje stundum háð óhöppum af áhrifum náttúrunnar, þá mun enginn hjer andæfa því, að hún sje til stórra hagsmuna fyrir bændur. Að öllu hafi verið hætta búin sökum vatnsskorts og ofþurka, er dæmalaust um þau tuttugu ár, sem Íslendingar hafa búið í Alberta nýlendunni. Eftir afspurn og reynslu, mun þessi byggð betur sett en sumar aðrar íslenzkar nýlendur, hvað vötnun búpenings áhrærir. Hitt er satt að ofþurkar hnekkja stundum jarðargróðri svo skaði er að. Markaður og verzlun hefir oft verið óhallkvæm, en hefir tekið og tekur enn miklum breytingum til betra. Alþýðuskólar eru löngu síðan komnir, eins og sjest síðar í landnámssögunni. Járnbraut er nú verið að byggja skammt norður frá íslenzku byggðinni og sterkar líkur til, að byggð verði járnbraut gegnum íslenzku bygðina innan skamms.“

Útgefandi Almanaksins, Ólafur S. Thorgeirsson sá ástæðu til að árétta að ,,Rithætti hins heiðraða höfundar hefir hér verið fylgt eftir hans tilmælum“.

Meistaraverk Viðars Hreinssonar, Landneminn mikli og Andvökuskáld geymir sérlega góðar lýsingar á mannlífinu í Alberta nýlendunni sem allir áhugasamir eiga að lesa.