Argylebyggð

Vesturfarar

Kortið sýnir íslenska bæinn Baldur sem var sunnarlega í byggðinni, miðsvæðis er Grund, sem lengi var eitt helsta höfuðból byggðarinnar. Nyrst eru svo bæirnir Glenboro og Cypress River. Tiger Hills (Tígrahæðir) eru suðvestan við Grund og náði vestasti hluti byggðarinnar þangað.

Suðvestur Manitoba: Þykk leirsteinslög liggja frá Brandon í Manitoba vestur til Calgary í Alberta. Þessi leirsteinslög gera það að verkum að suðvestur Manitoba liggur hærra en grýttu sandsteinslögin á millivatnasvæðinu (Interlake) og leirlögin í Rauðárdal. Af þessum orsökum einkennist landslagið af grasigrónum öldum þar sem jarðvegur er mátulega rakur og vel fallinn til kornræktar. Íslendingar settust að í Argylebyggð umhverfis þorpin Baldur og Glenboro og í sveitunum umhverfis Brú og Grund. Svonefndar Tígrahæðir (Tiger Hills) eru í byggðinni og fleiri öldóttar hæðir sem urðu til við jaðar hörfandi ísaldarjökuls.

Ný íslensk nýlenda í Manitoba: Um 1880 var flestum ljóst að framtíð Nýja Íslands væri engin við allar aðstæður þar. Allt frá stofnun nýlendunnar hafði hver hörmungin á fætur annarri dunið yfir landnámsmenn. Nokkurn þátt átti vanþekking og reynsluleysi landnámsmanna en lítið gátu þeir gert að bláfækt, sjúkdómum, flóðum, flugum, for, vegleysum og einangrun. Íbúar höfðu skipst í tvo flokka, annar fylgdi séra Páli Þorlákssyni suður til N. Dakota þar sem ný nýlenda var mynduð. Hinir vildu ekki brott frá Kanada, kusu að leita á önnur mið suðvestur af Winnipeg.  John Taylor, sem átti mikinn þátt í staðarvali Nýja Íslands árið 1875 var kominn á sömu skoðun og svo ótal margir aðrir að leita mætti betra svæðis annars staðar í Manitoba. Hann fékk enskan félaga sinn sem verið hafði í Nýja Íslandi, Everett Parsonage, til að fara í landskoðun suður og vestur af Winnipeg. Hann fann góð lönd víða, nam land sjálfur í nánd við Pilot Mound og lýsti allstóru svæði þar norður og vestur af í bréfum sínum til John Taylor.

Fyrstu landnemar: Annar maður sem lagði blessun sína yfir staðarvalið fyrir Nýja Ísland árið 1875, Sigurður Kristófersson, reið á vaðið í ágúst, 1880 og ásamt Kristjáni Jónssyni sigldi upp Rauðá til Winnipeg og áfram til Emerson við landamæri Bandaríkjanna. Þaðan fóru þeir gangandi vestur á bóginn og þegar þeir nálguðust Pilot Mound mættu þeir Skafta Arasyni sem farið hafði í könnunarleiðangur fyrr um sumarið og var nú á bakaleið til Nýja Íslands. Hann fúslega samþykkti að fylgja þeim á það svæði sem honum þótti fýsilegur kostur. Hér er vert að gera hlé á frásögninni, hverfa aftur til 5. ágúst, árið 1875, þegar þessir þrír vesturfarar staðfestu skýrslu Sigtryggs Jónassonar og Einars Jónassonar um landkönnunarleiðangurinn sem farinn var í júlí sama ár til að finna svæði undir Nýja Ísland. Þeir kvittuðu undir skýrsluna með þessum orðum: ,,Vér, sem ritum nöfn vor hér undir, höfum kannað land það, er sendimenn Íslendinga hafa numið handa þeim. Vér vorum með þeim allan þann tíma, er þeir voru hér vestur frá, og vér lýsum yfir því, að vér erum þeim í öllu samdóma um landið og því, sem þeir hafa um það sagt í skýrslu sinni hér að framan.“ Undir þetta skrifa Skafti Arason, Sigurður Kristófersson og Kristján Jónsson og John Taylor staðfestir með sinni undirskrift að hann hafi verið vitni að þeirra undirritun. Eflaust höfðu þessir menn lært mikið af dvöl sinni í Nýja Íslandi og nú betur í stakk búnir til að velja lönd. Sama verður líka sagt um alla þá er hrökluðust úr eymdinni í Nýja Íslandi út á frjósama sléttuna í Argylebyggð. Áðurnefndur Skafti Arason skrifaði bréf 25. janúar, 1884 til ritstjóra Leifs (íslenskt fréttablað gefið út í Winnipeg) og birti sá eftirfarandi brot úr bréfi Skafta í blaðinu 15. febrúar, 1884:,, Hér eru nú orðnir alls um 60 íslenzkir landnámsmenn. Nokkrir þeirra hafa nýlega tekið land, og allmargir lítið farnir að vinna á löndum sínum, og yfir það heila hafa flestir heldur lítið plægt, nokkrir hafa um 20-30 ekrur plægðar, og einn hefur rúmar 50. Það er almennt álitið að kvikfjárrækt sé arðmeiri en jarðyrkjan, einkum á meðan svo langt er til markaðar og allar vörutegundir í svo lágu verði.“ Skafti bendir réttilega á að langt sé úr byggðinni á markaði til að sækja nauðsynjar og eins til að koma afurðum í verð. Helst var farið á staði eins og Brandon, Manitou og Carberry, 60 – 130 km leið og voru uxar notaðir í slíkar langferðir sem yfirleitt voru farnar á veturna. En sléttan vestur af Winnipeg var á þessum árum smám saman að fyllast af landnemum og réði járnbrautarlagningin miklu. Margir tóku sér far með lestinni og fóru eins langt og hún bauð. Það var því mikil búbót þegar brautarteinarnir náðu til Glenboro árið 1886. Jón Ólafsson nam land í byggðinni árið 1882 og nefndi Brú. Brot úr bréfi hans, nokkurs konar skýrsla, birtist í Lögbergi 30. maí, 1888 og segir þar að íbúar í byggðinni séu 422, þar af eru 103 fjölskyldur og 96 landnámsmenn. Frá 1885 – 1888 fæddust 53 börn, 13 börn dóu og 6 fullorðnir á umræddu tímabili.

Verslun: Á fyrstu árum Argylebyggðar, eða þar til járnbrautin frá Winnipeg náði til Glenboro, þurftu íslenskir landnemar langt að fara á markaði. Land Sigurðar Kristóferssonar, Grund (Sjá kort) var nokkuð miðsvæðis svo hann byrjaði á fyrstu árum landnáms með svolitla verslun í heimahúsi. Hann þurfti langt að fara eftir vörum og því gat verslun hans aldrei leyst vanda allra þegar járnbrautir voru bæði norðan og sunnan við byggðina þá hætti hann verslun. Mun þó hafa selt akuryrkjuverkfæri einhver ár.  Friðjón Friðriksson hafði rekið verslun á Gimli í Nýja Íslandi og var undirbúinn þegar hann tók lestina frá Winnipeg til Glenboro haustið 1886. Hann opnaði fljótlega verslun þar í bæ sem hann svo rak með ágætum í 20 ár. Aðrir sem þar stunduðu verslunarstörf af ýmsum toga voru m.a. synir Sigmars Sigurjónssonar frá Einarsstöðum í Reykjadal, þeir Kristján f. 1878 og Sigurjón f. 1880. Guðmundur Símonarson f. 1866 (sonur Símonar Símonarsonar og Valdísar Guðmundsdóttur er vestur fóru árið 1874) verslaði með landbúnaðarverkfæri undir nafninu W. G. Simmons um árabil. Friðbjörn Sigurður Friðriksson frá Melrakkasléttu var bæjarráðsmaður í Glenboro rak þar verslun og stundaði nautgripaverslun með búskapnum. Cypress River þjónaði austurbyggðnni nokkuð án þess þó að Íslendingar hafi miki sest þar að. Jónas Halldórsson (sonur Halldórs Árnasonar) skrifaði sig gjarnan Anderson og rak verslun í þorpinu um árabil.  Kristján Jónsson, einn fyrsti landneminn í Argylebyggð, fékkst við landbúnað þar fyrstu árin en seinna snerist hugur hans að verslun og þegar járnbraut var lögð um sunnanverða byggðina um íslenska þorpið Baldur árið 1889 þá flutti hann þangað og opnaði verslun. Þar rak líka faðir hans, Jón Björnsson frá Héðinshöfða, bókaverslun meðan kraftar hans leyfðu.

Frelsiskirkjan á Grund

Söfnuðir og kirkjur: Trúmálin þurftu frumbyggjar í Argylebyggð að taka í sínar hendur. Á nýjársdag, 1884, var fyrsti söfnuður byggðarinnar stofnaður og gefið nafnið Fríkirkjusöfnuður. Í fyrstu sóknarnefnd voru Sigurður Kristófersson, Skafti Arason og Skúli Árnason. Líkt og víða í íslenskum byggðum í Vesturheimi reis upp ágreiningur manna á milli í nýstofnuðum Fríkirkjusöfnuði og 26. júlí, 1885 var myndaður nýr söfnuður,  Frelsissöfnuður og átti Sigurður Kristófersson hugmyndina. Í fyrstu sóknarnefnd voru kosnir Sigurður Kristófersson, Þorsteinn Antoníusson og Árni Sveinsson en Kristján Jónsson varð safnaðarforesti. Leifur í Winnipeg birti brot úr bréfi frá Argyle, 15. júlí, 1885. ,,Safnaðarfundur í Fríkirkjusöfnuðinum hér íbyggðinni, haldinn 13. þ.m. (júlí 1885). Meiningar manna í safnaðarmálum virtust vera mjög deildar, þar af leiðandi gengu margir bændur úr söfnuðinum, og eru þeir nú þegar teknir að mynda annan söfnuð, sem þeir nefna Frelsissöfnuð.“  Sigurður Kristófersson hefur bersýnilega verið ósáttur við Skafta Arason og Skúla Árnason, sem áfram sátu í sóknarnefnd Fríkirkjusafnaðar. Ágreiningi þessum verður gerð skil á öðrum stað. Séra Jón Bjarnason var snúinn aftur til Vesturheims en hann fór heim til Íslands árið 1880. Nýstofnuð sóknarnefnd Frelsissafnaðar ákvað að leita til séra Jóns Bjarnasonar með prestlega þjónustu í sameiningu með Fríkirkjusöfnuði. Sóknarnefndir safnaðanna funduðu um málið án þess að niðurstaða fengist en séra Jón var reiðubúinn til að koma á safnaðarfund Fríkirkjusafnaðar í byggðinni og 3. mars, 1886, setti prestur fundinn og var sjálfur fundarstjóri. Hann var fús til að veita báðum söfnuðum byggðarinnar þjónustu og gerði það næstu árin. Söfnuðirnir tóku höndum saman um að reisa kirkju og var hún vígð árið 1889 og sama ár kom vestur guðfræðikandidat, Hafsteinn Pétursson, nýráðinn til prestsþjónustu í byggðinni. Þetta er elsta kirkja Íslendinga í Kanada. Í Baldur var stofnaður söfnuður en á almennum fundi í þorpinu 7. nóvember, 1906 var hugmyndin kynnt. Á öðrum fundi 7. febrúar, 1907, var skotið saman fé til kirkjubyggingar og staður valinn.  Byggingin kirkjunnar hófst og gekk vel. Var kirkjan fullsmíðuð um haustið sama ár og á almennum fundi, 30. október, árið 1907 var söfnuður stofnaður og hann nefndur Immanuelsöfnuður. Glenbororsöfnuður var stofnaður 19. október, 1919 og var yngsti söfnuður prestakallsins.

Skólar: Skólahéruð í Argylebyggð voru fljótlega mynduð þegar ljóst var að ný byggð var í mótun og landnemum fjölgaði hratt. Nokkuð var komið til móts við óskir landnema um íslensk nöfn (norræn goðafræði) á skólahéruðum en stafsetningin ekki alltaf rétt. Kennsla í byggðinni mun hafa byrjað sumarið 1884 en elsta skólahéraðið, Hecla var stofnað í nóvember, 1884 og byggður lítill skóli. Kennsla hófst þar vorið 1885 og var aðeins kennt yfir sumarmánuðina vegna erfiðra samgangna yfir veturinn en vegir engir og allar samgöngur erfiðar. Þetta gekk þannig til ársins 1889 en þá voru samgöngur komnar í bærilegt horf. Um það leyti voru 120 nemendur í skólanum.  Árið 1885 var skóli tekinn í notkun í Cypress River skólahéraði og sama ár í skólanum á Brú. Skólahéraðið syðst í byggðinni hét upphaflega Simpson School District og var skóli þar byggður árið 1892. Nafni hans var breytt í Baldurskóla árið 1915. Bæði Mímir og Hóla skólahéruð voru mynduð árið 1896, skólar byggðir og kennsla hafin árið 1897. Freyskóli hóf starfsemi 1896. Öldin leið án mikilla breytinga svo og fyrsti áratugur 20. aldar utan hvað Thorskóli var byggður í samnefndu skólahéraði árið 1908.

 Félagsstarfsemi: Í nýrri byggð þar sem samgöngur allar voru afskaplega erfiðar hlaut hvers kyns félagsskapur að sitja á hakanum. Margir frumbyggja höfðu tekið virkan þátt í félagsstarfsemi í Nýja Íslandi og Winnipeg og leituðu leiða. Kirkjulegur félagsskapur varð þónokkur í sérhverjum söfnuði en utan hans störfuðu nokkur félög. Svonefnt Siðabótafélag verður að teljast eitt merkilegasta félag Íslendinga vestanhafs þessara ára. Það var stofnað 23. mars, 1884 á heimili Kristjáns Jónssonar frá Héðinshöfða og verður að telast eitt merkilegasta félag Íslendinga vestanhafs þessara ára. Skafti Arason var aðalhvatamaður þessa félagsstofnunar. Hann ferðaðist svolítið um byggðina, bað fólk að lesa reglur félagsins sem hann sjálfur hafði samið og lutu að almennum umbótum í ungu samfélagi mótun. Honum varð nokkuð ágengt í yfirreið sinni, bæði menn og konur lásu reglurnar og skráðu sig í félagið. Reglur þessar voru þrjár helstar: 1) að blóta ekki né sverja við nafn drottins að þarfleysu, 2) að neyta engra áfngra drykkja 3) að byrja ekki tóbaksbrúkun eftir að hlutaðeigandi er orðinn félagslimur. (Sjá frekar Íslensk arfleifð/Siðabótafélagið). Stúkur sáu dagsins ljós snemma og létu margt gott af sér leiða. Iðunn var stofnuð 18. júní, 1889 og Dagskrá eftir aldamótin en hún gaf orgelið í Fríkirkjuna á Brú árið 1910. Tvö kvenfélög voru stofnuð og unnu mikið og gott starf í þágu ungs samfélags. Lestrarfélög fylgdu íslenskum landnemum í Vesturheimi frá Íslandi og nánast undantekningarlaust var eitt slíkt stofnað í hverri, íslenskri byggð í N. Ameríku. Þegar mest var störfuðu fjögur slík í og við Argylebyggð. Eitt það elsta var í vesturbyggðinni og átti það mikinn þátt í byggingu samkomuhússins Skjaldbreið sem reis í Grund árið 1896. Annað lestrarfélag starfaði í austurbyggðinni, það þriðja, var stofnað 28. janúar, 1893 í Baldur og fjórða var stofnað i Glenboro um aldamótin. Þá starfaði eitt í Hólabyggð, norður af Argylebyggð.