Ósland

Vesturfarar

Ósland er nafn á frekar lítilli, íslenskri byggð á  Smith Island í Kyrrahafi. Nafnið er tilkomið vegna árósa Skeena River, næstmesta fljóts í Bresku Kolumbíu. Frá fornu fari hefur á þessi gegnt veigamiklu hlutverki fyrir ýmsar þjóðir frumbyggja svo sem Tsimshian og Gitxsan. Nöfn þessara þjóða tengjast Skeena því Tsimshian merkir ,,í Skeena ánni“ en Gitxsan þýðir ,,fólk Skeena árinnar“. Lífríki árinnar og óss hennar var einstak, ótal fiskitegundir veiddust og fjölmargar jurtategundir á bökkum árinnar. Þjóðirnar tvær lifðu í sátt og samlyndi, Tsimshian settust að við árósinn og aðeins upp með ánni en Gitxsan bjuggu mun lengra inn í landi. Ættbálkar hverrar þjóðar lifðu sjálfstætt með sína siði og venjur. Áin og umhverfi hennar voru lífæðin. Laxategundir eru sex og þegar best lét var sagt að árlega gengu 5 milljónir laxa upp í ána á hrygningarstöðvar.  Hið breska Hudson´s Bay Company kannaði vesturströnd Kanada og setti upp bækistöð (trading post) við Skeena árið 1834 sem var kölluð Port Simpson. Níu ættbálkar Tsimishian þjóðarinnar bjuggu þar nærri og voru helstu viðskiptavinir félagsins. Það var samt fyrst og fremst  þessi dæmalausa fiskigengd sem heillaðiviðskiptamenn og á síðustu áratugum 19. aldar opnuðu þeir niðursuðuverksmiðjur. Til að dæmið gengi upp þurfti fisk og hann var nægur. Þessar kringumstæður vöktu athygli manna víða í Kanada en líka í Bandaríkjunum. Um og eftir aldamótin fóru íslenskir landnámsmenn í Manitoba að gefa þessu tækifæri gaum og menn fluttu vestur, fyrst til Prince Rupert sem var þá í örum vexti.

Íslensk byggð:  Íslendingar á sléttum Manitoba, N. Dakota og Minnesota fylgdust vel með landnáminu á kanadísku sléttunni, sumir fluttu t.d. frá N. Dakota vestur að rótum Klettafjalla þar sem seinna varð Alberta fylki. Þeir höfðu sent landkönnuð alla leið vestur að Kyrrahafi en þar fann sá ekki þaðsem landar hans, sléttubændur í Mountain og Garðar leituðu eftir. Samfélagið í Bresku Kólumbíu óx og atvinnutækifæri voru mörg. Niðursuða fiskafurða hafði vaxið og fiskveiðar ákjósanlegur atvinnuvegur. Engan skyldi því undra að menn frá Vestmannaeyjum, t.a.m. Jón Filippusson, Vilhjálmur Grímsson, Þorsteinn Jónsson og Hallvarður Ólafsson sem fluttu vestur um haf á árunum 1902-1912 færu vestur að Kyrrahafi, fljótlega eftir að hafa eytt einhverjum árum í Manitoba. Þegar ljóst var að gríðarleg veiði var við ósa Skeena árinnar var eðlilegt að menn leituðu svæða þar sem mátti koma yfir sig og fjölskylduna þaki á ódýran hátt. Ströndin á austurhluta Smith eyju var kjörin, skógivaxin, nánast niður í fjöru og örstutt á miðin og þaðan í Cassiar niðursuðuverksmiðjuna en flestir unnu þar.

 

Myndin hér að ofan sýnir vel þessa sérstöku íslensku byggð við Kyrrahafið. Húsin standa ekki þétt, sérhver fjölskylda fékk nægilegt rými til að rækta grænmeti í heimilisgarðinum, reisa mátti kofa fyrir hænsn eða geitur. Verkfærir menn byggðu sínar smiðjur, margir voru góðir trésmiðir aðrir unnu með járn. Skógurinn veitt skjól á veturna sem voru þó sjaldan harðir, nægur var eldiviður og byggingarefni. Kristján Einarsson frá Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum þótti einkar laghentur smiður, vann alla glugga og hurðir í hús byggðarinnar. Hann vann mikið þrekvirki nótt eina í júlí árið 1917. Áður en að þeirri sögu kemur er rétt að útskýra svolítið sjávarbotninn upp við eyjuna en myndin, sem tekin var þegar fjaraði, sýnir vel eðjuna. Flóðið náði mishátt upp og skýrir það hvers vegna húsin standa nokkuð hærra og ofar í landinu. En nú kemur sagan. Sigríður Þorsteinsdóttir, eiginkona Kristjáns átti von á sér, hríðir byrjaðar en eitthvað var að. Yfirsetukona, sem þar var Sigríði til aðstoðar, kemst að því að naflastrengurinn er vafinn um háls barnsins, nú bráðvantaði lækni. Einn slíkur var í Cassiar verksmiðjunni og reru nú þangað tveir efnismenn á bát sínum upp á líf og dauða, fundu lækninn sem fúslega kom með. Kristján vissi vel hvað var í vændum, það var byrjað að fjara út og farið að rökkva. Hann klæddi sig vel, kveikti á olíuljósi og óð út í eðjuna þar til hann náði til sjávar. Þar beið hann bátsins sem nálgaðist og festist innan skamms í eðjunni. Krtistján greip til læknisins og skellti honum á bakið og bar hann alla leið í land. Læknirinn leysti allan vanda og að morgni 17. júlí, 1917 fæddist Elín Jóhanna sem skráði þessa sögu í heimildarritið um Ósland, Memories of Osland . Ef grannt er skoðað sér á eina ,,veginn“ í byggðinni en þetta var viðargangbraut (sidewalk) sem náði þvert í gegnum byggðina og var eina færa leiðin milli bæja. Eftir þessu gengu börnin svo í skólann sinn, húsmæður sóttu nauðsynjar í einu verslun bæjarins, karlmenn fluttu net sín út á bryggju í hjólbörum, fengu sína hnífa brýnda hjá járnsmiðnum og á pósthúsinu biðu bréf frá Íslandi eða frá öðrum íslenskum byggðum í Ameríku. Þetta var líka leikvangur barnanna og mæður nutu þess að rölta eftir brautinni með kornbörn sín í kerru eða vagni á sólríkum sumardögum. Byggðin varð ekki stór, náði um 90 sálum þegar best lék á þriðja áratugnum. Smám saman flutti svo fólk af eynni en sumir héldu tryggð við staðinn og byggðu sér sumarbústaði.

Svipmyndir:

Fyrsta skólahúsið í byggðinni. Mynd MoO

Gangbrautin gegnum byggðina var úr við og þannig lögð að vatn gat runnið undir hana en sjávarföll gátu verið varasöm. Mynd MoO

Íbúarnir í Ósland lögðu sig allir fram við að gera mannlífið í byggðinni eins gott og kostur var, sumt vissu þó allir að ekki gæti gengið en það var íslenskur söfnuður. Til þess voru þeir of fámennir og byggðin þeirra afskekkt. Það var því mikið fagnaðarefni þegar prestur frá Prince Rupert kom í heimsókn dag nokkurn og bauð þjónustu sína. Hann vann á trúboðsstöð og sigldi milli eyja og heimsótti byggðir frumbyggja og landnema. Þegar fley hans, Northern Cross (sjá mynd) birtist á haffletinum fögnuðu allir, nú yrði sungin messa. Hann hafði meðferðis lítið hljóðfæri sem hann notaði við messurnar í skólabyggingunni. Á sumrin bauð hann stundum börnum og unglingum, jafnvel mæðrum með í siglingu á nærliggjandi eyju þar sem allir eyddu fögrum degi í sátt og samlyndi. Mynd MoO.