Framnesbyggð

Vesturfarar

Staðsetning byggðarinnar:

Þegar Íslendingum í Ontario í Kanada varð ljóst að hvergi fundu þeir álitlegan stað fyrir Nýja Ísland í fylkinu beindist athygli þeirra í vestur. Landkönnunarnefnd fór vestur til Manitoba sumarið 1875 og kannaði svæði á vesturbakka Winnipegvatns. Þessir landkönnuðir fóru norður með ströndinni þangað sem bærinn Riverton stendur í dag og Íslendingafljót rennur í vatnið.  Þeir fóru upp ána og könnuðu svæðið þar sem áin rennur um og leist vel á. Það var samt ekki fyrr en um og eftir aldamót að landnám hófst. Svæðið upp með ánni skiptist svo: Fljótsbyggð er næst vatninu þá tekur Geysirbyggð við og því næst Framnesbyggð . Norður af Fljótsbyggð er Ísafoldarbyggð en vestur af Framnesbyggð myndaðist svo Árdaldbyggð. Eins og sjá má á kortinu var venjulega talað um Árdals- og Framnesbyggðir vegna náinna tengsla þessarra tveggja byggða. Má nefna að sameiginlegur kirkjugarður var skipulagður og samkomuhúsinu deildu íbúar beggja byggða. Loks skal nefna Víðirbyggð sem er norðan við Árdals- og Framnesbyggðir.

Landnemar: 

Guðmundur Sigurðsson Nordal var fyrstur til að setjast að í nýrri byggð, hann hafði búið með föður sínum, Sigurði Guðmundssyni Nordal í Geysirbyggð. Talið er að Guðmundur hafi ákveðið að setjast að á ókönnuðu svæði upp með ánni og hann valdi land. Á árunum um og eftir aldamót var nokkur hreyfing á íbúum ýmissa byggða í Nýja Íslandi svo og íslenskum byggðum í Bandaríkjunum. Eitt og annað olli þessu t.d. urðu fjölskyldur í Ísafoldarbyggð að flýja flóð í Winnipegvatni sem eyddi bæði ökrum og engjum. Yfirborð vatnsins hækkaði ótrúlega með vissu árabili og flæmdi iðulega bændur við vatnið af jörðum sínum. (Dr. Harvey Thorleifson skrifar einmitt um þetta á öðrum stað á vefsíðunni). Byggðir Íslendinga í Norður Dakota stækkuðu jafnt og þétt á árunum 1880-1890 og þar fjölgaði íbúum og unglingar fullorðnuðust og vildu hefja eigin búskap. Engin lönd í byggðum þessum voru lengur til og því varð að leita annað. Allstór hópur flutti t.d. vestur til Alberta á kanadísku sléttunni. Þá fóru margir þaðan norður í Lundarbyggð austan við Manitobavatn og á árunum eftir aldamótin komu landnemar bæði úr Ísafoldarbyggð svo og frá N. Dakota og einnig beint frá Íslandi. Fjölmennastir voru þeir síðastnefndu á árunum 1902-1904.

Frumbýlingsárin:

Segja má að landnám milli stóru vatnanna tveggja í Manitoba var í flestum tilfellum ósköp svipað. Í Framnesbyggð urðu landnemar að brjótast í gegnum skógivaxna árbakka Íslendingafljóts sem hlykkjaðist frá vestri til austurs. Menn völdu land á árbakkanum en reynslan hafði kennt flestum nauðsyn þess að leggja kapp á að tengjast nærliggjandi byggðum til að nálgast brýnustu nauðsynjar. Leiðin, sem tengdi Framnesbyggð og Geysirbyggð var um 10 km löng en frá Framnesi til Hnausabyggðar voru 32 km. Varla var hægt að kalla hana veg, miklu frekar slóða sem landnemar ferðuðust eftir með uxakerrur eða vagna, stndum tók slíkt ferðalag 2-3 daga fram og til baka. Í dag skutlast menn leiðina í bíl á 10 mínútum. Lengst var leiðin til Riverton, nærri 40 km. Tryggvi Ingjaldsson fór frá Akrabyggð í N. Dakota árið 1901 með föggur sínar og vistir á vögnum sem hestar drógu. Hann nam land ogopnaði litla verslun í kofa sínum sem bjargaði mörgum frumbyggjum. Annar landnemi, Guðmundur Magnússon, sem kom í byggðina úr Ísafoldarbyggð, keypti vistir og ýmsar nauðsynjar í Riverton og flutti í Framnesbyggðina á sama hátt og Tryggvi. Hann opnaði sömuleiðis verslun á sínu landi. Þegar þorpið Árborg fór að myndast hættu þeir báðir með verslun og þegar járnbraut var lögð til Árborgar árið 1910 þá áttu allir íbúar byggðarinnar greiðan aðgang að nauðsynjum og komu sinni framleiðslu á markað.

 Samkomuhús og kirkjugarður:

Flestir landnemar í ungri Framnesbyggð komu þangað úr öðrum byggðum Íslendinga annaðhvort í Manitoba eða N. Dakota. Þeir vissu vel hverjar brýnustu þarfir frumbyggja voru til að móta nýtt samfélag. Vesturíslensk heimild segir að eftir fyrstu árin hafi tala landnema í byggðinni nálgast 60. Sumir voru komnir á efri ár en þorri landnema byggðist á barnafjölskyldum. Allir kepptust við að byggja hús, hreinsa landið í kringum það og hefja búskap. Þegar þessum áfanga var náð fóru menn að hugleiða samfélagsmótun og venju samkvæmt var fyrsta málið að reisa samkomuhús. Húsið sem byggt var í þessum tilgangi var nokkuð miðsvæðis og þjónaði bæði Framnes- og Geysirbyggðum. Það var einfaldlega kallað Félagshús. Slík samkomuhús skiptu miklu máli í sérhverri byggð því ekki aðeins voru þar haldnir fundir eða hvers kyns skemmtanir heldur var þar líka messað. Í flestum byggðum Íslendinga vestra fór öll kennsla fram í heimahúsum fyrstu árin en þegar samkomuhús reis voru börn og unglingar flutt þangað og skólahald hófst. Skóli var svo reistur eftir einhver ár þegar nokkuð ljóst var hver nemendafjöldinn yrði. Lengri tíma tók oftast að móta söfnuði og var ein ástæðan sú að margir íbúar höfðu sótt messur hjá ólíkum kirkjufélögum, uxu þannig frá íslenskri þjóðkirkju. Ólíkar trúarskoðanir komu ekki í veg fyrir andlát og fljótlega varð að finna stað fyrir kirkjugarð. Um hann gátu allir sameinast því greftrun tilheyrði sérhverju kirkjufélagi í Vesturheimi. Í Framnesbyggð var engin undantekning, menn hugleiddu fljótlega hvar hentugast væri að grafa hina látnu. Aftur kom mönnum saman um að byggðirnar tvær í Framnesi og Geysir skyldu samenast um kirkjugarð. Enn kemur áðurnefndur Tryggvi Ingjaldsson við sögu því eftir að hann flutti af landi því sem hann í upphafi valdi og kaus annan stað, var samþykkt að eldra land hans yrði nýtt fyrir kirkjugarð.

Pósthús: 

Þegar stjórnvöld samþykktu nýja byggð í Manitoba eða reyndar öllu heldur hvar sem var í Vesturheimi var land mælt og ný byggð skipulögð. Landnemar komu því næst á svæðið og völdu sér land samkvæmt landmælingunni. Póstþjónustan í Kanada var í höndum fylkisstjórnar sem fóru yfir umsóknir bænda um að opna pósthús heima hjá sér. Umsókn var skrifleg og með henni fylgdi hugmynd um nafn á pósthúsið. Íslensk nöfn voru eðlileg í sérhverri íslenskri byggð og þegar Jón Jónsson Jr. eins og hann skrifaði sig, sótti um þá fylgdi með nafnið Framnes. Pósthúsið í Framnesi gegndi sama hlutverki og öll önnur pósthús í Vesturheimi, þar var heimilisfang sérhvers landnema byggðarinnar. Þegar landnemi skrifaði bréf í Framnesbyggð þá tók hann fram nafn pósthússins og skrifað Framnes P.O. Þegar einhver á Íslandi sendi einhverjum í byggðinni bréf þá skráði hann nafn móttakanda og þar fyrir neðan nafn pósthússins, þá Manitoba og loks Kanada. Íslendingar vestra áttuðu sig fljótlega á því að algeng íslensk mannanöfn, t.d. Jón Jónsson gætu ruglað póstþjónusuna. Fyrir kom að einhver Jón Jónsson kom á pósthúsið á leið sinni heim eftir verslunarferð og fékk afhent bréf, stílað á Jón Jónsson í sömu byggð. Það var eðlilega pirrandi að koma loks heim í kot sitt, setjast niður, opna bréfið til að fá fréttir að heiman og komast strax að því að bréf það sem hann hafði í höndum var ætlað alnafna hans. Þetta var ein skýring á breytingum nafna í Vesturheimi, menn tóku upp ættarnöfn, kenndu sig við sveitina sína, fjörðinn sinn eða dalinn. Pósthúsin voru líka nokkurs konar samkomustaðir, menn hittust og sögðu tíðindi. Sums staðar var boðið upp á kaffi og með því, og fyrir kom að hægt var að kaupa gistingu. Jón Jónsson Jr. annaðist pósthúsið í Framnesbyggð til ársins 1922 en þá flutti hann annað. Guðmundur nokkur Magnússona, bóndi í byggðinni tók þá við til ársins 1933 en þá var Framnes P.O. sameinað pósthúsinu í Arborg.

Söfnuðir:

Árdalssöfnuður var stofnaður árið 1902 en 1904 höfðu flestir í báðum byggðum gengið í söfnuðinn í Arborg. Kirkja hafði ekki verið reist svo guðþjónustur voru í samkomuhúsinu. Séra Runólfur Marteinsson söng messur en hann var þá prestur á Gimli. Árið 1908 var séra Jóhann Bjarnason ráðinn prestur í nyrstu byggðum Nýja Íslands. Þegar kirkjan reis í Arborg árið 1911 lögðust messur í félagsheimilinu af. Íslendingar settu fljótlega upp sunnudagaskóla í sínum byggðum í Vesturheimi, einkum þar sem strjálbýlt var. Kennslan í Framnesbyggð fór fram í félagsheimilinu fyrstu árin. Aðalkennari var Hólmfríður Andrésdóttir, eiginkona Tryggva Ingjaldssonar. Þar kenndi líka Guðmundur Magnússona sem flutti í byggðina úr Ísafoldarbyggð. Þau tvö voru í Framnesbyggð, Eiríkur Jóhannsson kennari bjó í Árdalsbyggð. Þegar Framnesskólinn var byggður árið 1905 flutti sunnudagaskólinn þangað. Helsti söngmaður byggðarinnar var Þorsteinn Hallgrímsson, sem flutti norður frá N. Dakota. Söng hann við messur, stjórnaði söng í Sunnudagaskólanum og á samkomum.

Fyrsti skólinn í Framnesbyggð Mynd A Century Unfolds

Skólar.:

Framnesskóli var byggður árið 1905 á landi Þorsteins Hallgrímssonar við Íslendingafljót. Hann tilheyrði skólahéraði númer 1293. Sautján nemendur voru skráðir i skólann frá 1. janúar til 1. júní árið 1905 en um haustið voru þeir orðnir 39 sem sýnir að mikil fjölgun varð í byggðinni yfir sumarið. Fyrsti kennari skólans var Kristveig, fóttir Metúsalems Jónssonar og konu hans, Ásu Ingibjörgu Einardóttur, bæði úr N. Þingeyjarsýslu. Fyrstu skólanefndinni tilheyrðu Metúsalem Jónsson, Þorsteinn Hallgrímsson, formaður og Jón Jónsson Jr. ritari. Annar skóli var byggður í byggðinni árið 1913 og hét sá Vestri. Hann var í skólahéraði númer 1669. Í skólanefnd sátu Guðmundur Oliver, formaður, Gísli M. Blondal, ritari og Daníel Pétursson (Pjeturson). Fyrsta áriðsóttu 19 nemendur skólann og voru laun kennara 55.00 dalir á mánuði. Fyrstu kennarar voru Bertha Johnson, haustönn og Björg Jónsdóttir vorönn. Fyrsta vesturinn varð að loka skólanum í janúar og febrúar vegna kulda og ófærðar.