Manitoba er fylki í suður Kanada milli Ontario og Saskatchewan. Landamæri Bandaríkjanna skilur fylkið frá Minnesota og N. Dakota. Landið í suðurhluta fylkisins einkennist af 2 milljarða ára gömlu graníti við Ontario mörkin, og 500 þúsund ára ára gömlum kalksteinslögum vestan til á svæðinu milli Winnipeg- og Manitobavatns. Í vestur hluta fylkisins hækkar landið skart þar sem við taka þykk, leirkennd lög. Loftslag á sumrin er rakt og heitt en vetur eru býsna kaldir og snjóþungir. Akuryrkju er nánast ómögulegt að stunda þar sem jarðvegur er sendinn og grýttur austan við Winnipegvatnið. Landið umhverfis vötnin tvö einkennist af kalksteini sem þakinn er siltkenndum jarðvegi. Í Rauðárdalnum suður af Winnipegvatni myndaðist firnastórt stöðuvatn, Agassiz vatn, fyrir 10.000 árum þegar ísaldarjökullinn hörfaði. Leirkennt en næringaríkt jarðlag myndaðist á þá flötum vatnsbotninum sem nú umlykur Winnipeg. Leirsteinsbelti í suðvesturhluta fylkisins einkennist af grasivöxnum, frjósömum hæðum (öldur) sem rísa hærra en grýtt kalksteinsbelti Millivatnasvæðisins.
Millivatnasvæðið: Stöðuvötnin tvö í Manitoba, Winnipeg- og Manitobavatn eru á kalksteinssléttu norður af Winnipeg. Nærri hundrað kílómetra breitt svæði milli þeirra er í daglegu tali kallað Interlake á ensku eða Millivatnasvæðið. Þunnur, grýttur jarðvegur þekur kalksteinsberggrunninn, sem mótaður var af ísaldarjöklinum. Íslendingar settust að í sveitum þessa svæðis þar sem þorp og bæir eins og Arborg og Lundar urðu til, auk Langruth vestan við Manitobavatn. Á sumrin er loftið rakt og heitt, en vetur eru kaldir og jafnan snjóþungir. Akuryrkja er sums staðar möguleg, en víðast erfið á þessu raka og grýttu, öldóttu landi.
Suðvestur Manitoba: Þessi hluti Manitoba hvílir á þykkum, leirsteinslögum sem ná vestur yfir kanadísku sléttuna frá Brandon í Manitoba til Calgary í Alberta. Þetta leirsteinsbelti í suðvestur Manitoba liggur nokkuð hærra en bæði kalksteinsbelti Millivatnasvæðisins norður af Winnipeg og leirsteinsberggrunns Rauðárdalsins. Landslagið hér er öldótt og grasi vaxið, þakið næringaríkum jarðvegi sem hentar einkar vel til akuryrkju. Hér myndaðist svonefnd Argylebyggð upp úr 1880, en íslenskar sveitir einkenndu svæðið við Baldur, Grund, Brú og Glenboro. Á þessu svæði eru svonefndar Tígrishæðir (Tiger Hills) og fleiri þeim líkar, sem jökull mótaði áður en ísaldarjökullinn hörfaði endanlega. (Texti: Dr. Harvey Thorleifson, University of Minnesota. Þýðing JÞ. Yfirlestur Dr. Áslaug Geirsdóttir, Háskóli Íslands)