Big Point

Vesturfarar

Upphaf landnáms:

Miklir þurrkar í Þingvallabyggð í Saskatchewan urðu til þess að fjölmargir Íslendingar flúðu þaðan austur á vesturbakka Manitobavatns, þeir fyrstu fóru þangað árið 1894. Flestir stunduðu eingöngu kvikfjárrækt til að byrja með enda voru engjalönd góð. Híbýli manna á frumbýlingsárunum voru hefðbundin, bjálkakofar oftast með torfþaki eða þegar betur lét með leirþaki. Heyi og leir var blandað saman og þakið lagt úr þeirri blöndu. Slík þök dugðu betur en torfþökin. Margir þurftu að hreinsa lönd sín, ryðja skóg til að gera akurlönd. Fiskveiði var ekki mikil en helst veiddu menn í gegnum ís á veturna. Sumir urðu stórbændur og efnuðust vel. Keyptu smám saman fleiri jarðir og efldu akuryrkjuna og stækkuðu bústofninn. Byggðin var upphaflega hluti Westbourne héraðs.

Þegar fjölmennast var í byggðinni munu um 40 íslenskir bændur hafa búið þar. Langruth varð verslunarstaður bænda en þangað var lögð járnbraut árið 1908. Með tilkomu hennar fóru bændur að bæta við akuryrkju og sunduðu margir hana með kvikfjárræktinni. Íslendingar tóku frá upphafi þátt í héraðsstjórn og sátu einhverjir þeirra í stjórninni ár hvert. Árið 1898 var reistur skóli og var hann í notkun til ársins 1909. Þá var reist stærra og vandaðra skólahús. Hafa fjölmargir Íslendingar kennt við skólana frá upphafi.Sama ár var opnað pósthús sem nefndist Wild Oak. Þegar Langruth byggðist var pósthús opnað þar. Íslendingar önnuðust póstafgreiðslu frá fyrstu tíð.  Fyrstu árin sóttu nýlendubúar nauðsynjar í bæina Westbourne sem var sunnan við byggðina en einnig fóru þeir vestur til Gladstone. Verslun í Langruth óx hratt og lögðust þá af verslunarferðir til áðurnefndra bæja.

 

MINNISVARÐI UM LANDNÁM ÍSLENDINGA

 

 

 Samgöngur – Langruth

Á frumbýlingsárunum voru eðlilega engir vegir og því allar samgöngur erfiðar. Verst var þetta á vorin í leysingum og eftir miklar rigningar. Þá stóð allt fast í bleytunni og eðjunni, hestar og vagnar. Þurfti þá oft fjölmenni til að koma öllu á þurrt. Árið 1903 var skipulag komið á vegalagningu og lagði Manitobastjórn allmikið fé í samgöngumál byggðarbúa. Víða, þar sem land var blautt ræstu menn fram með skurðum og þurrkuðu þannig landið. Vegir voru síðan lagðir meðfram skurðum þessum og smám saman urðu samgöngur sómasamlegar.

Árið 1907 fengu tveir ungir menn í Ontario mikinn áhuga á tækifærum ungra manna í vestur Kanada. Eins og venja var um þær mundir leituðu þeir ráða hjá opinberum aðilum í Winnipeg um falt land. Þeir vildu  taka þátt í uppbyggingu samfélags á sléttunni og eftir nokkra leit þá leist þeim vel á svæði vestan við Manitobavatn. Þar var bændasamfélag Íslendinga í góðum vexti og hér sáu þeir tækifæri. Þeir keyptu mikið land og kynntu Íslendingum hugmyndir sínar.  Þeir ætluð að reisa þorp og buðu Íslendingum viðskiptatækifæri. Kaupa skika og opna verslun eða einhvers konar þjónustu. Og ekki minnkaði áhugi félaganna George Langdon og W.Ruth þegar í ljós kom að Íslendingarnir höfðu þegar sent beiðni um járnbraut til C.N.R járnbrautarfélagsins. Ólafur Þorleifsson sýndi gestum landnámið og kynnti hugmyndir þeirra. Og bærinn varð til og heitir í höfuðið á þeim félögum, Langruth.  Skömmu fyrir jól árið 1908 kom fyrsta lestin til nýlendunnar.

Verslun og þjónusta

Á fyrstu árum landnámsins urðu landnemar að sækja vistir til Westbourne, sem var kaupstaður rúma 35 km sunnan við byggðina. Gladstone var annar kaupstaður um tæplega 50 km vestur af byggðinni. Frumbýlingarnir höfðu sumir öðlast einhverja reynslu í viðskiptum en alls staðar á sléttunni reyndu bændur að fá bærilegt fyrir framleiðslu sína til að geta keypt brýnustu nauðsynjar. Íslendingarnir þekktu nauðsyn þess að fá járnbraut til byggðarinnar og ekki liðu mörg ár þar til þeir sendu formlega beiðni um spor norður í nýlenduna. Þegar svo félagarnir George Langdon og W. Ruth kynntu áform sín um nýtt þorp í miðri byggðinni þá tóku hjólin að snúast. Ekki vildu allir ungir menn í nýlendunni leggja fyrir sig búskap, sumir þekktu til viðskipta úr öðrum byggðum Íslendinga t.d. frá Þingvallabyggð í Saskatchewan eða Mountain í N. Dakota.

Vorið 1910 byggðu þeir Soffonías Helgason og Björn Sigfússon fyrstu verslunina í Langruth. Ráku þeir saman verslunina til ársins 1913 en þá keypti Frímann Helgason, bróðir Soffoníasar, hlut Björns. Guðni Þorleifsson keypti síðan verslunina af þeim bræðrum árið 1914. Á myndinni eru bræðurnir Soffonías og Frímann, synir Jósefs Helgasonar og Guðrúnar Árnadóttur.

Bræðurnir Finnbogi og Erlendur Erlendssynir hófu verslunarreksur í nýrri byggingu í Langruth árið 1911. Á næstu þremur árum byggðu þeir tvö íbúðarhús við verslunina og bjuggu vel.  Á myndinn fyrir ofan eru frá vinstri Ingimundur Ólafson, Finnbogi Erlendsson, Sigurður Tómasson og kona hans, Katrín Halldórsdóttir, þá Erlendur Erlendsson og loks Erlendur Guðmundur Erlendsson.

Guðni Þorleifsson var sonur Óafs Þorleifssonar og Sesselju Guðbjargar Guðnadóttur úr Lundarreykjadal. Hann keypti járnsmíðaverkstæði í Langruth árið 1913 og rak verkstæðið um árabil. Fleiri Íslendingar komu við sögu verkstæðisins t.a.m. Eyvindur Eyvindsson, John Thorsteinsson, Björn Christianson og Kjartan Eyvindsson

Þorsteinn Björnsson (Steini B Olson) opnaði byggingavöruverslun árið 1913. Hann fæddist í Marklandi í Nova Scotia árið 1878 en þangað fluttu foreldrar hans sama ár frá Nýjabæ á Akranesi. Þau voru Björn Ólafsson og Guðrún Jónsdóttir. Steini kom á Big Point árið 1893 og kvæntist skömmu síðar Hólmfríði Ólafsdóttur. Hún var dóttir Ólafs Þorleifssonar og Sesselju Guðbjargar Guðnadóttur.

Kjötverslun Karls Franklins Björnssonar Lindal
Karl var sonur Björns Sæmundssonar og Svövu Björnsdóttur og kom í byggðina 1914. Hann opnaði kjötverslunina það ár og rak hana til dauðadags árið 1949. Hann var góður tónlistarmaður, stofnaði lúðrasveit í Langruth og sá um orgelspil við messur í kirkjunni.

Söfnuður – trúmál

Landnemarnir í Big Point byggðinni þurftu líkt og allir innflytjendur í Norður Ameríku að taka trúmálin í sínar hendur. Ólíkt og heima á Íslandi, var engin þjóðkirkja í Kanada og ef landnemar vildu iðka sína trú urðu þeir sjálfir að skipuleggja trúariðkanir.  Frá fyrstu tíð, 1894 var það séra Oddur Vigfús Gíslason sem kom í byggðina og messaði nokkrum sinnum árlega. Hann skírði börn, gaf saman hjón og jarðsöng látna. Fljótlega varð til félag sem einfaldlega var kallað Hið kristilega félag Big Point búa

Það var svo á nokkuð fjölmennum fundi, 19. apríl, 1906 að formlegur söfnuður var stofnaður og nefndur Herðibreiðarsöfnuður. Á sama fundi var séra Bjarni Þórarinsson ráðinn prestur og gegndi hann því embætti til ársins 1916 en flutti það ár til Íslands. Þá var gripið til þess ráðs að fá séra Carl J. Olson frá Gimli til að heimsækja byggðina til að vinna hefðbundin prestverk.  Gerði hann það frá haustdögum árið 1916 fram á sumar árið 1917. Það vor réði söfnuðurinn séra Sigurð Sigurjónsson (Christopherson) í embættið og starfaði hann í byggðinni allmörg ár. Söfnuðurinn var fjölmennastur árið 1923 en þá voru sóknarbörnin rúmlega tvö hundruð.

Líkt og tíðkaðist í flestum frumbyggjabyggðum á vesturfaratímabilinu þá reistu menn ekki kirkju strax í Big Point byggð heldur var messað í samkomuhúsinu eða skólanum í Langruth. Söfnuðurinn réðst í það þrekvirki að kaupa hús í þorpinu handa presti og var það býsna mikil fjárfesting upp á annað þúsund dali.

Jón Þórðarson var kjörinn fyrsti formaður sóknarnefndar árið 1906 og gegndi hann því embætti til ársins 1916 en við tóku fyrst Ágúst Eyjólfsson og seinna Finnbogi Erlendsson. Bjarni Ingimundarson var féhirðir safnaðarins um árabil og Halldór Daníelsson ritari frá stofnun hans árið 1906 til ársins 1923 en það ár flutti Halldór annað. Við starfi hans tók Carl F. Líndal.

Söfnuðurinn gekk í Hið evangeliska Lúterska Kirkjufélag Íslendinga í Vesturheimi vorið 1916 og hafa valdir einstaklingar sótt árlegt kirkjuþing félagsins, menn eins og Águst Eyjólfsson, Davíð Valdimarsson, Finnbogi Erlendsson, Jón Þórðarson, Magnús Pétursson og Þorleifur Jónsson.

Kirkjan í Langruth

Prestar

Séra Oddur Vigfús Gíslason fæddist 8. apríl, 1836 í Reykjavík. Hann útskrifaðist úr Reykjavíkurskóla 8. Júlí, 1858 og úr prestaskólanum 21. ágúst, 1860. Við tóku ýmiss störf t.a.m. var hann leiðsögumaður enskra ferðamanna því hann var vel fær í ensku, auk þess vann hann við verslun og stundaði sjómennsku. Honum var veittur Lundur í Lundarreykjadal 3. september, 1875 og vígður 28. nóvember. Hann þjónaði í Grindavík frá 10. ágúst, 1878 en fékk lausn frá því embætti 9. maí, 1894. Það ár flutti hann vestur um haf og var þjónandi prestur í Nýja Íslandi  svo og í Big Point byggð. Hann lést í Winnipeg 10. janúar, 1911.

Séra Bjarni Þórarinsson fæddist 2. apríl, 1855 í Árnessýslu. Hann útskrifaðist úr Reykjavíkurskóla 8. júlí, 1881 og prestaskólanum 5. september, 1883. Vígður 16. september, 1883 og settur prestur  í Kirkjubæjarklaustri sama haust. Veittir Útskálar 4. mars, 1896 og var prófastur í V. Skaftafellssýslu frá 1885 til ársins 1896. Hann fékkk lausn 28. desember, 1899 og flutti til Winnipeg í Manitoba árið 1900. Þar gerðist hann prestur Tjaldbúðarsafnaðar og frá 1906 til 1916 þjónaði hann í Herðibreiðarsöfnuði á Big Point. Flutti til Íslands haustið 1916 og bjó í Reykjavík.

Séra Carl J. Olson var fæddur í íslenskubyggðinni í Lincolnhéraði í Minnesota 24. nóvember, 1884. Hann var prestvígður 30. Apríl, 1911 og varð prestur á Gimli og í Big Point byggð. Þar starfaði hann frá haustdögum árið 1916 til vors árið 1917.

Séra Sigurður S. Christopherson fæddist við Mývatn 21. apríl árið 1876. Hann fór vestur með foreldrum sínum árið 1893. Hann var í prestaskóla í Chicago þar sem hann útskrifaðist árið 1909. Vígður prestur 27. júní, 1909 í lútersku kirkjunni í Winnipeg og starfaði í byggðum Íslendinga austan Manitobavatns um árabil. Var ráðinn prestur í Big Point byggð vorið 1917 þar sem hann þjónaði til ársins 1924.

 

Lestrarfélag – íslenskur menningararfur

Hvarvetna um Norður Ameríku þar sem íslenskir landnemar settust að saman voru lestrarfélög snemma sett á laggirnar. Iðulega áttu félagsmenn fáeinar bækur og tímarit sem skráð voru hjá lestrarfélaginu sem síðan hafði umboð til útlána. Félagsgjald var ákveðin upphæð og þannig varð til sjóður sem nýttur var til kaupa á lesefni og þá stækkaði safnið smám saman. En lestrarfélögin voru annað og meira, þau stuðluðu að notkun íslenskunnar manna á meðal. Kappræður voru skipulagðar í lestrarfélögunum og voru einstaklingar skráðir í keppni. Þeir fengu úthlutað efni með einhverjum fyrirvara og gátu undirbúið mál sitt. Keppendur fengu sama efni:  annar átti að vera einhverju meðmæltur en andstæðingur hans mótmælti. Áheyrendur voru oft dómarar en stundum sérstaklega valdir einstaklingar.  Þessar kappræður neyddu keppendur til að hugsa á íslensku og færa fram rök sín á sem bestu máli. Kappræður þessar voru vinsælar og sóttu þær fjölmargir félagsmenn.

Það var 1. febrúar árið 1898 að landnemarnir í Big Point byggð stofnuðu lestrarfélag sem lifði lengi. Á 25 ára afmæli félagsins 1. febrúar, 1923 átti félagið 514 titla og voru félagsmenn milli 30 og 40 það árið. Ársgjaldið var upphaflega 50 cent en það var seinna hækkað í einn dal. Bókasafnið samanstóð af alls kyns lesefni, íslensku og norðuramerísku, flest á íslensku en þónokkuð á ensku. Íslenskur fróðleikur prýddi sérhvert safn og á Big Point átti lestrarfélagið allar Íslendingasögurnar, fjörutíu Íslendingaþætti sem Þorleifur Jónsson á Skinnastað gaf út. Þar var Flateyjarbók öll í þremur bindum, Fornaldarsögur Norðurlanda, Snorra-Edda svo og Edda Sæmundar svo dæmi séu tekin. Af tímaritum þá var Eimreiðin þar öll og margir árgangar af Andvara og Skírni.

Sumarhátíðir

Íslendingar flykktust ekki vestur um haf til að gleyma uppruna sínum, segja skilið við land og þjóð. Öðru nær, þeir hugleiddu frá upphafi aðferðir og leiðir til að varðveita tengslin við Ísland og íslenska þjóð og til að minnast upprunans. Snemma á Vesturfaratímabilinu varð atburður á Íslandi til þess að gefa tóninn. Ný stjórnarskrá var afhent á Þingvöllum 2. ágúst, 1874. Fremur fámennur hópur íslenskra vesturfara sem kominn var vestur til Bandaríkjanna það ár ákvað að taka þátt í hátíðarhöldunum með eigin þjóðminningarhátíð sama dag í Milwaukee í Wisconsin. Dagskrá hátíðarinnar vestra varð seinna grundvöllur sumarhátíða Íslendinga í byggðum þeirra vítt og breitt um Kanada og Bandaríkin.

Í Big Point byggðinni liðu ekki mörg sumur þar til efnt var til sumarhátíðar en sú fyrsta var haldin 1. júlí árið 1903.  Fólk dreif að alls staðar að úr byggðinni til að taka þátt. Á dagskrá voru ræður, keppni í íþróttum, söngur og dans. Ræður á þessum samkomum voru minni en mælt var fyrir Íslandi, Kanada og vesturförum.  Íþróttir voru fyrst og fremst skemmtun; ungir kepptu við eldri í kapphlaupi og reiptogi, keppt var í íslenskir glímu og austur- og vesturbyggð kepptu í reiptogi.  Frásagnir í blöðunum íslensku af þessum viðburðum voru einatt svipaðar og enduðu iðulega svona:,, Alt fór fram með siðsemi og reglu´´.

Þótt frumbýlingsárin væru erfið og vinna mikil gáfu íbúar á Big Point sér ætíð tíma til að koma saman við ýmiss tækifæri til að gleðjast. Hér flytur ónafngreindur Íslendingur (trúlega Davíð Valdimarsson) ræðu á sumarhátíð við skólann í Langruth sumarið 1913.

Amerískar íþróttir
Ungir, íslenskir unglingar voru fljótir að aðlagast norður amerísku samfélagi. Einn þáttur í aðlöguninni var að sjálfsögðu þátttaka í hvers kyns íþróttum.  Ungir menn gengu í íþróttafélög, sum voru nánast alíslensk eins og þetta hornaboltalið í Langruth árið 1912. Talið frá vinstri: Harry Robertshaw, Valdimar Erlendson, Pete Halldorson, Finnbogi Erlendson, Freeman Helgason, John Oliver, Erlendur Erlendsson, John Finnbogason og Ben Cook