Geysirbyggð

Vesturfarar

Kortið sýnir hvar Íslendingafljót rennur hjá Árborg í Árdals- og Framnesbyggð, gegnum Geysirbyggð og Riverton í Fljótsbyggð út í Winnipegvatnið. Kort JÞ

Mynd Gunnhildur Skaftadóttir Ms-ritgerð 2008: Frá Víðirnesi til Vindhljóma.

Geysirbyggð eða Geysisbyggð er vestur af annars vegar Hnausabyggð og hins vegar Fljótsbyggð. (Sjá Afstöðumynd) Árið 1875, 5. ágúst luku þeir Sigtryggur Jónasson og Einar Jónsson við skýrslu ,,Hinna Íslenzku Sendimanna“ í Winnipeg og vottuðu með undirskrift. Þeir höfðu farið skoðunarferð norður Winnipegvatn í júlí til að kanna vesturbakka þess. Grípum niður í skrif þeirra þar sem þeir lýsa svæðinu sem seinna varð Geysirbyggð:,, Hérumbil bæar leið norður frá Sandrifi er á, sem fellur frá útsuðri útí höfnina (Riverton); hún hefur verið kölluð Whitemud River, en vér höfum kallað hana Íslendingafljót. Upp eftir á þessari fórum vér í stóra bátnum þriðjung þingmanna leiðar (rúml. 12 km), en þá komu brot og fljót í milli. Litla bátnum einum gátum gátum vér komið yfir brotin, og fórum vér þá góðan spöl lengra; en alls komumst vér þrjá fjórðunga (rúm. 28 km) þingmanna leiðar frá árósunum; er það, ef til vill, ekki nema hálf þingmannaleið, þegar beint er farið (tæp. 19 km). Þar sem vér snerum aptur, er nokkuð stórum bát gengt eftir ánni, því að hún er þar djúp….Er vér héldum lengra upp með ánni, urðu fyrir oss víðirbörð, svo og furuskógar nokkrir; þeir eru og lengra suður með vatninu. Þar er og álmur, eik og birki. Sumsstaðar er skógurinn mjög þykkur en svo smár, að trén eru eigi til annars nýt en til girðinga, þar sem þau standa. Þar sem trén standa þétt, er skógurinn nýr, því að skógur þessi brann fyrir nokkru. Þar sem trén standa gisnari eru þau stærri. Askirnar eru að jafnaði minna en fet að þvermáli, en nokkrar finnast þó digrari. Þar sem furan vex er all mikið af góðum húsavið. Eigi er þó landið alþakið skógi frá því er aspirnar taka við á árbökkunum, því að beggja meginn árinnar, þar sem vér fórum, fundum við mýrar vaxnar grasi og valllendi innanum skóginn hvarvetna.  Að jafnaði eru ekki meira en 400 faðmar milli grasblettanna….Slæu löndin eru bezt fram með Íslendinga fljóti, en þó ætlum vér, að nægar slæur megi fá hvarvetna í landnámi þessu. Getur því landnámsmaðurinn þegar haft svo margar kýr sem hann vill. Eigi teljum vér efamál á því að landið er hið bezta til kornyrkju, og betra en hið allra bezta land, sem vér höfum séð í fylkinu Ontario.“   Alveg er ljóst að hingað ætluðu þeir Sigtryggur Jónasson og félagar í skoðunarnefndinu með fyrsta hópinn haustið 1875, þann sama sem hrökklaðist í land á Víðirnesi rétt sunnan við Gimli.

Þessi uppdráttur sýnir fáeinar jarðir íslenskar í Geysirbyggð. Þeir sem ekið hafa leiðina frá Árborg til Riverton hafa áreiðanlega stöðvað við Arnheiðarstaði en þar nam Jóhann Magnús Bjarnason land árið 1894. Fögruvellir eru skammt frá. Geysir, bær Páls Halldórssonar er svo neðst í horninu hægra megin. Uppdráttur Gunnhildur Skaftadóttir Ms-ritgerð 2008: Frá Víðirnesi til Vindhljóma.

Landnám hefst sennilega árið 1881 þegar Jón Bjarnason kom frá Mikley með konu sína, Halldóru Guðrúnu Guðmundsdóttur og aldraðan föður sinn, Bjarna Guðmundsson. Jón nefndi bæ sinn Fögruvelli og á fyrstu árum landnáms hér var byggðin iðulega kölluð Fögruvallabyggð. Þeir sem fluttu hingað úr byggðum Nýja Íslands vildu fyrst og fremst helga sig landbúnaði, lögðu minni metnað ef þá einhvern í veiðar í vatninu. Samfélagið sem mótaðist hér í byggðinni samanstóð af landnemum fyrstu ára vesturferðatímabilsins, þeirra börnum svo og nýkominna landnema frá Íslandi til Vesturheims. Þessi blanda, ef svo má kalla, reyndist afar vel á sléttum Kanada á komandi árum, reyndar fram á 20. öld í Saskatchewan og Alberta. Þar fór saman reynsla hinna eldri, frumbýlinganna frá fyrstu árum vesturferða og dugnaður og kraftur sona þeirra. Við þetta bættist svo ferskur, íslenskur andblær vesturfara að heiman. Koma þeirra efldi notkun íslenskunnar í sveitunum og íslensk arfleifð festist í sessi. Páll Halldórsson var sonur Halldórs Jónssonar, landnema í Fljótsbyggð. Jón kvæntist Jónönnu Jónsdóttur árið 1880 og fluttu þau á land sitt í Geysirbyggð nokkrum árum síðar. Það nefndi Páll Geysi. Hann sótti um leyfi til að opna pósthús og fékk. Hann rak svo Geysir P.O. í allmörg ár. Söfnuður var myndaður í byggðinni árið 1890 og hét sá Fljótshlíðarsöfnuður en nafni hans var breytt árið 1900 og hét hann þá Geysirsöfnuður.  Geysir skólahérað var formlega stofnað árið 1894.

Samgöngur: Landnemarnir í Geysirbyggð þurftu iðulega að leggja mikið á sig til að komast á lönd sín því vegir voru ekki til. Margir bændur sem komu úr öðrum byggðum ráku gripi sína landleiðina til byggðarinnar en aðrir, t.d. konur og börn sem komu frá N. Dakota eða beint af Íslandi fóru vatnaleiðina. Sigldu frá Winnipeg eða Selkirk norður til Hnausa. En þaðan þurfti annaðhvort að ganga eða berjast áfram í vagni dregnum af uxa. Nauðsynjar voru þannig fluttar úr verslunum í Hnausa eða Lundi (seinna Riverton). Landnemar gátu lítið treysta á ána því það ýmist stíflaðist eða varð svo vatnslítið vegna þurrka. Um þetta skrifaði Bjarni Jóhannsson landnemi í Engihlíð í Geysirbyggð í endurminningum sínum (Sjá S. Ísl. í V. 3 bindi bls. 389-390): ,,Ekki var fljótið breiðara en svo, að það stíflaðist þegar það kom fyrir, að tré féll í það, sem stóðu andspænis hvort öðru á bökkunum. Náðu þau þá saman og safnaðist þar fyrir alls konar rusl unz stíflugarður myndaðist. Voru þessar stíflur víða í fljótinu, sem sökum þeirra flæddi yfir bújarðir manna í mestu rigningum og vorleysingum. Eitt árið gengu miklar rigningar. Flæddi þá yfir alt láglendi og stóð ekki upp úr nema hæstu öldurnar á landinu. Girtu nokkurir bændur utan um skepnur sínar á fjóshaugum, og sumar þeirra settu þeir upp á fjósþökin. En á sumum löndum voru svo háar öldur, að skepnunum var þar borgið. Inn í suma bæi flæddi svo mikið, að fólkið flúði upp á loftin, þar sem þau voru og aðrir á hóla eða hæðir (öldur), sem stóðu upp úr vatninu. Hægt var sums staðar að róa á byttu að bæjardyrunum, og úr sumum býlum flúði alt fólkið…Vatnagangur þessi olli oft miklum skemmdum. Kom þetta óhug í æði marga og sumir fóru að hyggja á burtflutning. Fóru menn jafnvel á stúfana að skoða lönd vestur í Manitoba og Saskatchewan, en fanst þar alls staðar eitthvað að. Tóku þá byggðarmenn sig saman um að hreinsa farveg fljótsins, og ruddu öllum stíflum úr vegi. Til þessa nauðsynja starfs fékst ofurlítill  styrkur frá Manitobastjórn. Var mönnum borgað annað dagsverkið með dollar. Útvegaði Gestur Oddleifsson í Haga fjárveitingu þessa. Var hann helzti maður byggðarinnar á þeim árum og var sendur til að herja á stjórnina, sem Greenway  (Thomas Greenway var forsætisráðherra fylkisstjórnarinnar 1888-1900. Innsk. JÞ) veitti þá forsæti, en milligöngumaðurinn var F. W. Colcleugh þingmaður kjördæmisins. Hafði Gestur ævinlega eitthvað upp úr krafsinu þegar hann fór þessar ferðir fyrir bygðarmenn sína. Þannig fékk hann dálítinn styrk frá stjórninni til að leggja veginn úr Breiðuvík (Hnausar) vestur yfir Geysirbygð.“  Með vegi þessum bötnuðu samgöngur umtalsvert og mun auðveldara var fyrir bændur að koma afurðum sínum á markað og draga björg í bú.

Íslendingafljót. Myndin sýnir ána í Fljótsbyggð nærri Riverton því á bökkum hennar má sjá báta. Þarna sigldu þeir upp ána í skoðunarleiðangrinum í júlí árið 1875.