Mikley er eyja í Winnipegvatni í Manitoba sem Íslendingar komu fyrst til árið 1875 þegar Nýja Ísland varð til. Eyjan var nyrsta byggð nýlendunnar . Rúmlega 1000 ferkílómetrar að stærð, er 30.5 km að lengd frá suðvestri til norðausturs og tæpir 10 km þar sem hún er breiðust. Eyjan var skógivaxin með lítið undirlendi svo enginn landnemi settist þar að með akuryrkju í huga. Heldur ruddu menn skika, byggðu kofa og fjós. Vesturbakki Winnipegvatns og þar með talin Mikley einkennist af miklu kalksteinsbelti, strandlengjan víðast grýtt, sendin og blaut allt frá nyrsta odda eyjunnar til syðsta enda Nýja Íslands sunnan við
Gimli. Íbúar í Mikley fundu fljótlega leið til að veiða í vatninu, jafnt vetur og sumar og urðu fiskveiðar strax aðalatvinnuvegur eyjarskeggja. Annarri atvinnu lýsir Þorleifur Jóakimsson í ,,Frá Austri til Vestur“ svo.,, Í tilliti til að fá atvinnu og fá sagaðan við til húsabyggingar, sýndist það vera hagur fyrir frumbyggja Mikleyjar, að sögunarmylna var þar þegar þeir settust það að árið 1876, en það var öðru nær. Mylnueigendur reyndust eyjarbúum hið versta, sviku suma er unnu hjá þeim um verkalaun, og hjuggu niður tré hjá húsum manna, erbændur ætluðu að láta standa og jafnvel hótuðu að taka tré, er landeigendur sjálfir voru búnir að fella og höfðu fullan rétt til. Snemma í desember árið 1878 tóku þeir með valdi 200 viðarbjálka, er eyjarmenn höfðu felt og bútað til kirkjubyggingar, og svo jókst ofbeldi mylnueigenda, að í janúar 1879 var álitið að menn gætu ekki lengur búið undir slíku, ef þeir næðu ekki rétti sínum.“ Þess má geta að dag einn ekki löngu síðar voru myllueigendur horfnir á braut með allt sitt hafurtask og sáust ekki framar.
Mannlífið: Landnemarnir í Mikley gerðu sér strax grein fyrir því að allt samband við aðra landnema Nýja Íslands yrði erfitt fyrstu árin því samgöngur mikki meginlandsins og eyjarinnar byggðust á siglingum um vatnið. Hvorki bátar né stærri fley voru til staðar fyrsta árið en fljótlega smíðuðu menn báta og komust þannig leiðar sinnar. Fámennið í eyjunni fyrstu árin bauð ekki upp á öflugt félagslíf en menn hjálpuðust að við nauðsynleg störf og sáu til þess að enginn leið skort. Leiðtogar Nýja Íslands voru frá upphafi stórhuga og eitt það mikilvægasta þ´tti þeim að fá prest í unga byggð. Séra Jón Bjarnason tók kalli og flutti norður í Nýja Ísland frá Minneapolis. Grípum niður í frásögn Þorleifs Jóakimssonar í ,,Frá Austri til Vesturs“ þar sem hann lýsir fyrstu heimsókn prestsins í eyna:,, Það sem fyrst verður séð um kirkjulega starfsemi á eyjunni, er það að séra Jón Bjarnason kemur þangað 22. nóvember, 1877, þá nýfluttur til Nýja Íslands. Hann heldur guðsþjónustu í húsi Benedikts Péturssonar á Lundi þann 25. (á sunnudag). Var þar saman komið um 50 manns. Í guðþjónustulok voru börn spurð, og að því loknu var haldinn fundur til að tala um safnaðarmál. Næsta vetur, á laugardag 16. febrúar 1878, kom kandidat Halldór Briem út í eyjuna. Hann prédikaði í Lundi á sunnudaginn. Fjöldi fólks var við messu. Að lokinni messu yfirheyrði hann börn, og þótti þau fremur vel að sér. Þá voru á eyjunni tuttugu og fimm búendur, en fækkaði stuttu þar á eftir á útflutningaárunum, svo safnaðarlíf er í dái í nokkur ár.“
Brottflutningar: Frá upphafi landnáms Íslendinga í Nýja Íslandi á vesturströnd Winnipegvatns var augljóst að lífsbaráttan yrði hörð. Engar samgöngur voru frá nýlendunni á markaði í Selkirk eða Winnipeg og sama má reyndar segja um samgöngur milli byggða nýlendunnar. Engir vegir eða brýr voru til að auðvelda flutninga og samskipti manna, landið gaf sáralítið af sér og þorri landnema átti ekki greiðan aðgang að fiskveiðum. Það versta var kannski hugarfar manna, voru allir sem þangað fóru á árunum 1875-1876 sáttir við tilgang nýlendustofnunarinnar? Að setjast að úti í óbyggðum Kanada (Nýja Ísland tilheyrði ekki Manitoba á þessum árum) á landi sem var ýmist grýtt, sendið eða blautt og því víða óræktanlegt. Fóru menn vestur um haf til Kanada eða Bandaríkjanna þess að vera áfram Íslendingar og lifa utan við kanadískt eða bandarískt samfélag sem óx hratt og mótaðist af ólíkum innflytjendahópum. Nýja Ísland átti að vera griðarstaður íslenskunnar, íslenskrar arfleifðar og standa utan við kanadískt samfélag. Sennilega kom skoðunarmunur landnemanna best í ljós þegar kom að trúmálum. Tveir prestar íslenskir buðu þjónustu sína, mynduðu söfnuði og unnu mikið starf. Annar, séra Jón Bjarnason, var prestur að heiman en hinn, séra Páll Þorláksson var menntaður hjá útlensku kirkjufélagi suður í Bandaríkjunum. Hvor ætli hafi nú tengst Íslandi, íslenskri arfleifð fastari böndum? Hvernig gátu Pálsmenn réttlætt að flykkjast um prest sem hafði mjög ólíkar skoðanir og menntaður, íslenskur sóknarprestur úr Þjóðkirkju Íslands? Enginn landnámsmaður gat komið í veg fyrir skyrbjúg sem herjaði svo mjög á mjólkurlausa nýlendu fyrsta veturinn, hvað þá átt ráð við skelfilegri bólusótt sem fylgdi í kjölfarið veturinn á eftir. Á árunum 1875-1878 urðu sáralitlar framfarir í nýlendunni, fólk í flestum byggðum bjó við ömurleg kjör. Ekki var hjá því komist að aum kjör víðast hvar, sundrung manna á meðal og illdeilur næðu til Mikleyjar og þegar Pálsmenn byrja flutninga burt úr Nýja Íslandi á annað svæði suður í N. Dakota í Bandaríkjunum þá fylgdu sumir með úr Mikley. Og Jónsmenn sátu ekki eftir, þeir hópuðust saman í nýrri byggð í suðvestur Manitoba. Sjálfur leiðtogi þeirra, séra Jón Bjarnason sneri við þeim baki og flutti heim til Íslands.
Uppbygging og framfarir í Mikley: Vesturförum varð snemma ljóst að trúmál voru í höndum innflytjendanna sjálfra, engin þjóðkirkja var í Kanada eða Bandaríkjunum. Hvar sem Íslendingar settust að fáeinir saman fóru þeir fljótlega að ræða safnaðarmál. Að ofan kom fram að íbúar Mikleyjar ræddu slík mál eitthvað haustið 1877 en fjör komst í umræðuna eftir að séra Jón Bjarnason sneri aftur til Vesturheims og sameinaði fjölmarga íslenska söfnuði víðs vegar í Norður Ameríku í eitt kirkjufélag árið 1875. Hann hafði ekki gleymt sóknarbörnum sínum í Nýja Íslandi og heimsótti Mikley árið 1886. Kíkjum á frásögn Þorleifs Jóakimssonar, sem birt var í ,,Frá Vestri til Austurs“.,, Í febrúarmánuði 1886 kom séra Jón Bjarnason út í Mikley, eftir beiðni nokkurra bænda þar. Hann hélt guðþjónustu og gerði ýmis prestsverk. Hvatti hann menn þá til að fara að hugsa frekar um safnaðarmál, og þar af leiddi að fundur var haldinn 14. febrúar til að ræða um safnaðarmál, prestsþjónustu og fleira. Á þeim fundi skrifuðu sig nokkrir í söfnuð, sem stæði í sambandi við hið þá fyrir ári síðan stofnaða kirkjufélag Íslendinga í Vesturheimi, og voru menn þá kosnir til að semja safnaðarlöf o.s. frv. Svo var haldinn fundur 22. marz og voru þá safnaðarlögin samþykt og undirskrifuð af flestum eyjarbúum. Safnaðarfulltrúar voru kosnir Jóhannes Helgason, Jón Jónsson, Sigurgeir Stefánsson, Ragnheiður Þorláksdóttir (féhirðir), meðhjálpari og skrifari Lárus Helgason, aðstoðar meðhjálpari Stefán Friðbjörnsson. Tala safnaðarlima var þá 26 fullorðnir. Söfnuðurinn, í sambandi við utansafnaðarmenn, keypti samkomuhús úr söguðum við, 24 fet á lengd og 18 á breidd.“
Kirkja, barnaskóli og kvenfélag. Mikleyjarsöfnuður var ekki stór á upphafsárunum en á síðasta áratug aldarinnar réðst hann samt í stórvirki og byggði kirkju. Var hún vígð 14. september, 1902 og voru guðþjónustur eðlilega haldnar þar síðan en fram að þeim tíma voru messur sungnar í samkomuhúsinu. Þar hafði líka verið sunnudagaskóli en hann var nú starfræktur í nýrri kirkju sumur og vetur. Ennfremur fór allur undirbúningur fermingabarna fram í kirkjunni.
Íslenskir innflytjendur í Ameríku, jafnt Kanada og Bandaríkjunum, fluttu með sér vestur ýmsa siði og hætti daglegs lífs á Íslandi. Í fámenninu í dreifbýlinu heima hafði kennsla farið fram í heimahúsum og á þessu varð engin breyting þegar vestur kom. Í elstu byggðum Íslendinga í Vesturheimi eru finnast frásagnir af einhvers konar skólahaldi áður en kom til stofnunar skólahéraða. Mikley var engin undantekning og þegar aftur fjölgaði í eynni um og eftir 1883 var fundinn staður til að kenna börnum. Þannig var barnaskóli rekinn í eynni í þrjá mánuði veturinn 1885-1886 og sóttu hann 20 börn. Þorfinnur Þorsteinsson hét kennarinn sem fékk 9 dali greidda á mánuði auk fæðis. Bændur slógu saman og með samskotum ráku þeir skólann en tala þeirra var þá (1886) komin í 30. Helgi Tómasson kom við sögu skólahalds því barnaskólinn var haldinn á heimili hans, Reynistað, áður en skólahérað var stofnað 1891. Fyrsti kennarinn var Jón skáld Runólfsson. Með stofnun skólahéraðs samþykktu íbúar menntastefnu Manitobastjórnar en Mikley varð hluti Manitoba þegar landamerki fylkisins voru færð norðar árið 1881. Reynistaður var miðpunktur samfélagsins í Mikley því þar var póshús eyjarinnar sett upp árið 1887 en þangað var allur póstur sendur um árabil.
Konurnar létu sitt ekki eftir liggja til að efla samfélagið í Mikley því þær komu saman 4. mars, 1886 og stofnuðu kvenfélag. Það var kallað Undína og voru stofnendur: Jakobína Sigurðardóttir,Jóhanna Jónsdóttir, Björg Kristjánsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Sigríður Þorsteinsdóttir, Elínborg Elíasdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Hólmfríður Jósepsdóttir, Þorbjörg Guðmundsdóttir, Valgerður Sveinsdóttir, Sesselja Friðbjörnsdóttir, Guðný Sigmundsdóttir og Sigríður Jónsdóttir. Kvenfélagið starfaði vel og kom ýmsu merkilegu í verk. Á fundi sem haldinn var 15. október, 1895 kaus félagið fimm konur í nefnd til að annast bókakaup en umræða um lestrarfélag var nokkur í eyjunni. Það var svo 6. febrúar, 1896 að lestrarfélaginu var gefið nafnið Morgunstjarnan og samþykkt að það skyldi vera almenningseign.