Nova Scotia

Vesturfarar

Canadian Provinces and Territories

Nova Scotia eða Nýja Skotland er á austurströnd Kanada, norðan við Nýja England í Bandaríkjunun og sunnan við Nýfundnaland. Margbrotnar bergtegundir og jökulmynduð setlög frá síðustu ísöld mynda grubb fagurra landbúnaðarhéraða og víða skógivaxinnar strandlengju. Sumur eru sólrík og þægileg en vetur rakir og kaldir. Þegar ísaldarskeiði lauk og jökull hörfaði tók náttúran við sér, stórar og smáar dýrategundir fundu sinn samastað og hvers kyns jurtir skutu rótum. Frumbyggjar um alla álfuna rötuðu smám saman á áður óþekkt svæði þar sem draga mátti fram lífið í sátt við jurta- og dýralíf. Mi’kmaq ættkvíslin, sem er brot úr svonefndri Mi’kma’ki þjóð fór um þau norðaustur svæði Norður Ameríku sem seinna urðu hluti Kanada. Þetta þjóðabrot fylgdi árstíðum, kaus vestursetu í þykkum skóginum inn til landsins en flutti út á sjávarsíðuna á sumrin. Loftslagið bauð ekki upp á akuryrkju heldur stunduðu menn dýra- og fiskveiðar. Frumbyggjar höfðu sitt stjórnarfar,æðstaráð fór með völdin á svæði því þar sem þjóðin hafði sest að. Í æðstaráði voru sjö héraðshöfðingjar (District Chiefs) en landi Mi’kmaq þjóðarinnar var jafnan skipt í sjö, nokkuð sjálfstæð héruð. Héraðsstjórn framfylgdi lögum, úthlutaði veiðiheimildir, skipulagði herferðir og annaðist friðarsamninga.

Landkönnun frá Evrópu – Landnám: Það var Mi’maq þjóðin sem réði löndum þeim sem fyrstu landkönnuðir frá Evrópu kynntust á fyrstu ferðum sínum til Norður Ameríku. Fiskveiðar voru stundaðar frá Evrópu austur af ströndum Ameríku þar sem afli var saltaður og síðan var siglt með hann til heimalandsins. Nánast engin viðdvöl var höfð í landi en um 1520 settu menn upp fiskverkun í landi og munu Portúgalir hafa verið fyrstir, þeir voru með verstöð í Nýja Skotlandi á árunum 1551-1553 en sennilega lengur því til er heimild sem nefnir hana árið 1570. Árið 1578 voru sögð um 350 skip og bátar frá Evrópu í St. Lawrence árósunum sem eru þeir stærstu í heiminum. Flest voru þetta veiðiskip en nokkur voru þangað kominn til að kanna möguleika á skinnaverslun. Upp úr aldamótum 1600 voru Frakkar nokkuð atkvæðamiklir á þessum slóðum og árið 1605 verður til frönsk nýlenda sem nefndist Acadia og gerðu Port Royal að höfuðborg. Nýlendan óx hægt, byggðist í fyrstu nær eingöngu á landkönnuðum og kaupmönnum en smám saman fluttu fjölskyldur vestur og um 1863 eru slíkar siglingar frá Frakklandi nokkuð tíðar. Frumbyggjar létu fólkið afskiptalaust vegna þess að árið 1610 hafði einn æðsti höfðingi Mi’maq tekið kaþólska trú og undirritað samning við kaþólska kirkju. Segja má að þessi elsta nýlenda Evrópubúa í Norður Ameríku hafi fengið einstaklega hagstæðan byr í öll segla vegna þessa, ófriður við frumbyggja var enginn. En ekki fengu Acadians að vera í friði. Bretar réðust á frönsku byggðina frá Boston árið 1654 og tóku þar öll völd en með samningi 31. júlí, 1667 fengu Frakkar þar yfirráð á ný. Hollendingar voru næstir og hernámu Acadia árið 1674 og nefndu hana Nýja Holland en ekki tókst þeim að halda þar völdum. Á síðustu áratugum 17. aldar stækkaði franska byggðin nokkuð þegar fólk flutti frá Port Royal og nam land í Grand Pré, Chignecto, Cobequid og Pisiguit. Sjálfstæði Acadia leið undir lok því Bretar gátu ekki látið nýlenduna í friði enda áttu þeir í linnulausum deilum við Frakka.

 

Nýja-Skotland:  William Alexander nokkur í Skotlandi, menntaður vel og af tignum ættum, var í náðinni hjá bresku krúnunni og var settur yfirmaður mikils, bresks landsvæðis, barónsdæmis sem kallað var Nova Scotia árið 1629. Svæðið umrædda var þar sem í dag eru Nova Scotia, New Brunswick, Prince Edward Island og Nýfundnaland auk Main í Bandaríkjunum.  Höfuðstaður skosku nýlendunnar var Port Royal en illa gekk Skotum að nýta sér völdin vestra og svo fór árið 1632 að þeir gerðu samning við Frakka. Þrátt fyrir heldur  yfirráð þá urðu skosk áhrif til þess að síðan hefur eitt fylkja Kanada borið nafn Skotlands.  Frakkar og Bretar börðust um yfirráð og var Louisbourg miðpunktur þeirrar baráttu. Smám saman fóru línur að skýrast.  Árið 1763 varð Cape Breton eyja og St. John´s eyja (í dag Prince Edward Island) hluti Nova Scotia en 1769 varð St. John´s eyja sjálstæð nýlenda. Um miðja 18. öld var Halifax orðin höfuðstaður Nova Scotia, bresk yfirráð náðu nú nánast yfir alla austurströnd álfunnar. Sjálstæðisbarátta Bandaríkjanna leiddi til flutnings þúsunda frá Bandaríkjunum til Nova Scotia (Loyalists). Það var svo árið 1848 að Nova Scotia verður fyrsta breska nýlendan til að öðlast sjálfstjórn  og í júlí, 1867 ásamt með New Brunswick og Province of Canada (í dag Ontario og Quebec) var stofnað nýtt þjóðríki, Kanada.

 

 

Hér er mynd af fána Nýja Skotlands og þar má sjá áhrif frá tímum Skota í fylkinu á 17. öld. Þetta sést vel ef skjaldarmerki Williams við hliðina er skoðað.

 

 

 

.