
Kortið sýnir Norður Ameríku árið 1873. Fylkin í Kanada, Ontario, Quebec, Prince Edward Island, New Brunswick, Nýja Skotland og Nýfundnaland eru austanvert í Kanada, Manitoba er fyrsta fylkið á sléttunni en vestur við Kyrrahaf er Breska Kolumbía vestur við Kyrrahaf. Alaska í norðvesturhorni álfunnar og Bandaríkin syðst. Grænland síðan austur af.
Nova Scotia eða Nýja Skotland er eitt elsta fylki Kanada og tók þátt í stofnun nýs þjóðríkis árið 1867. Samfélagið í fylkinu á sér langa sögu sem rekja má aftur til 16. aldar þegar fiskimenn frá Evrópu fóru að vinna fisk í landi. Franskir landnemar stofnuðu fyrstu nýlenduna og vinguðust við frumbyggja, svonefnda Micmaq þjóð sem þar hafði búið öldum saman. Seinna urðu bresk áhrif sterk og smám saman náði breska heimsveldið völdum. Helstu atvinnuvegir voru fiskveiðar og skógarhögg, fylkið bauð hvorki upp á hagstætt loftslag né frjósaman jarðveg, sem hentaði miklum og fjölbreyttum landbúnaði. Snemma í sögu ungs þjóðríkis, Kanada, fóru stjórnvöld að huga að innflytjendamálum. Leið þúsunda innflytjenda til Ameríku frá Evrópu lá um St. Lawrence flóa til Quebec og þaðan til Toronto í Ontario. Flestir hurfu svo þaðan suður til Bandaríkjanna til Michigan og Wisconsin en um miðja 19. öld óx landnám í Bandaríkjunum hratt í vestur. Útþensla Bandaríkjanna var kanadískum stjórnvöldum nokkuð áhyggjuefni því ljóst var að yfirráð Bandaríkjanna náði frá Atlantshafi vestur að Kyrrahafi. Alaska í norðvestri höfðu Bandaríkin keypt af Rússum og því veltu menn því fyrir sér hversu langt norður ætluðu Bandaríkin að stefna. Fljótlega eftir að Bandaríkin urðu til á 18.öld hurfu Bretar þaðan með sitt lið norður til Bresku Norður Ameríku (British North America) og landamæradeilur blossuðu upp. Það var lán Kanada að árið 1871 varð Breska Kolumbía vestur við Kyrrahaf eitt fylkja ríkisins en það styrkti stöðu Kanada í landamæradeilum. Nýlendustjórnin í Bresku Kolumbíu sá ýmsa kosti við að sameinast Kanada. Ríkið rauf ekki tengslin við breska heimsveldið og allt samband við Bretland var betur tryggt gegnum Kanada en Bandaríkin og þá féllst Kanada á járnbrautarlagningu frá Toronto vestur að Kyrrahafi.
Íslendingar: Haustið 1874 fór allstór hópur vestur til Ontario í Kanada og hafði Sigtryggur Jónasson undirbúið komu hans. Hópurinn fór til Kinmount og þangað kom Jóhannes Arngrímsson, umboðsmaður fylkisstjórnarinnar í Nova Scotia. Sigurður J. Jóhannesson lýsti komu hans þangað svo og landnámi í NS í grein í Almanakinu árið 1900:,, Skömmu eftir þangaðkomu flokks þessa (hópsins frá Íslandi Innskot. JÞ), kom þangað austan frá Nýja Skotlandi (Nova Scotia) ungur maður, Jóhannes Arngrímsson (prests frá Bægisá í Eyjafjarðars.). Kvaðst hann vera sendimaður stjórnarinnar þar, og hafa fult umboð til að bjóða mönnum þangað til landtöku með hinum glæsilegustu kjörum, og lét hann allmikið af landkostum og öðru þar. Og með því hann var lipur maður og fylgdi máli þessu allfast fram, varð honum talsvert ágengt. Kveikti það brátt upp talsverða sundrung og óánægju hjá mörgum, sem líka var ekki farið að lítast sem best á framtíðarhorfur þar í Kinmount….Jóhannes fór til baka aftur um haustið til Halifax, höfuðborgar Nýja Skotlands, og með honum nokkrir ungir, lausir menn, sem dvöldu þar um veturinn. Allmargir fjölskyldumenn skrifuðu sig líka hjá honum og réðust til ferðar næsta vori og næsta hausti; og mun það hafa verið um eða yfir 80 manns. Síðan smábættist við fólk, er að heiman kom, svo fólkstalan mun hafa komist upp í 200, eða jafnvel þar yfir, þegar flest varð, bæði í nýlendunni (Marklandi Inns. JÞ) og litlum bæ, sem Lockport heitir. Þeir sem settust að í þeim bæ, höfðu atvinnu á niðursuðuhúsum, og við fiskverkun og róðra.“
Markland: Innflytjendamálin voru ofarlega á baugi hjá kanadískum yfirvöldum frá upphafi (1867), ekki síst eftir að Breska Kólumbía varð eitt fylkja ríkisins. Kanadíska sléttan allt frá Ontario vestur að Klettafjöllum beið bænda, firnastór og frjósöm. Fylkin í Austur Kanada sóttust að sama skapi eftir vinnuafli, iðnaður var að taka miklum framförum í Ontario, landbúnaður í Quebec og fiskveiðar og skógarhögg í fylkjunum við Atlantshafið. Hvernig Jóhannes Arngrímsson varð umboðsmaður fylkisstjórnar Nova Scotia var aldrei útskýrt, hann fór vestur til Milwaukee í Wisconsin árið 1872 og hefur trúlega verið í sambandi við menn eins og Sigtrygg Jónasson í Ontario, sem gerðist umboðsmaður stjórnarinnar þar. Sú mikla umræða bæði vestanhafs og eins heima á Íslandi um að mynda íslenska nýlendu í Vesturheimi fór örugglega ekki framhjá Jóhannesi og svo virðist sem hann hafi verið Sigtryggi Jónassyni sammála um að sú skyldi mynduð í Kanada. Kannski er skýringin á samningum hans við Nova Scotia stjórn sú að Sigtryggur vildi nýlenduna í Ontario svo um annan stað í Kanada árið 1874 var varla að ræða og staðsetningin við Atlantshafið hafði etv sitt að segja. Vigfús Sigurðsson frá Granastöðum í S. Þingeyjarsýslu var staddur í Parry Sound í Ontario á árunum 1874-1875. Hann var reglulega í sambandi við landa sína í Bandaríkjunum og Kanada og var duglegur að senda fréttir til Íslands. Í einu bréfi dagsettu í Parry Sound 25. janúar, 1875 lýsir hann tilboði Nova Scotia stjórnarinnar og segir:,, Nýlega hefir það borist í bréfum landa til okkar frá Kinmount, að þeir sumir þar væru að hugsa um að fara til Nova Scotia (Nýja Skotlands), því Jóhannes Arngrímsson, sem sagt er að sé orðinn agent stjórnarinnar þar, hefir borið þeim mikið kostaboð frá henni, t.a.m. skuli hver, sem kominn er yfir 15 ár, fá gefins land, 100 ekrur, þar af tvær ruddar og brendar ásamt hús og nýbyggjarastyrk 11 dollara m.m.“ Ekki getur Vigfús þess hver sendi honum þessar fréttir en eitthvað eru upplýsingar þær sem hann skrifar og sendir til Íslands ónákvæmar. ÞÞÞ segir í 2. hefti SÍV bls. 301: ,,Fjárstyrksins minnist enginn nema Vigfús, sem einnig hefir frétt til Parry Sound, að ruddu ekrurnar væru tvær í stað einnar.“ Þá segir Eiríkur Hansson (sjálfæfisaga Jóhanns Magnúsar Bjarnasonar) að hver fjölskyldufaðir hafi að auki fengið :,, eldstó (hitunarvél) og önnur nauðsynleg búsáhöld, ásamt nægri matarbjörg handa allri fjölskyldunni, til eins árs, eða því sem næst; og alt þetta án nokkurs endurgjalds, því þótt það ætti að heita lán í fyrstu, þá var aldrei gengið eftir borgun fyrir það.’‘ (Eiríkur Hanson bls. 49).
Elgsheiðar: Jóhann Magnús Bjarnason lætur Eirík Hanson lýsa nýlendusvæðinu:,, Nýlenda Íslendinga í Nýja Skotlandi, var á hálsum nokkrum, um 50 mílur enskar frá borginni Halifax. Hálsar þessir voru vaxnir hrikalegum skógi, sem var mjög erfiður viðfangs fyrir frumbýlinginn. Jarðvegur er þar ófrjór og fram úr hófi grýttur. Hér og þar eru lyngmóar, og foræði vaxin mosa. Ár og lækir og tjarnir eru þar hvarvetna, og vatnið silfurtært og svalandi. Loftslagið er heilnæmt og hafgolan hressandi. Aldrei er þar mjög kalt á vetrum, né mjög heitt á sumrum. Frá nýlendunni suðaustur til sjávar, eru að eins 12 enskar mílur. Ströndin er þar vogskorin mjög og má heita að þorp sé í vogi hverjum og vík. Vestanverðu við hálsana, er dalur mikill og fagur, sem heitir Musquodoboit, gömul og blómleg bygð…Þegar komið er út úr skógunum og fram á hálsbrúnina, blasir þetta undurfagra hérað móti sjónum manns …Eftir dalnum rennur Musquodoboit -áin, lygn og fögur í ótal bugðum út til sjávar.“ Lýsingin á dalnum er fögur en höfundur fer fáum orðum um vankanta landnámsins. Skógurinn á Elgsheiðum var þéttur og unnu landnámsmenn sleitulaust asð hreinsun landsins, höggva skóg, rífa upp rætur og reyna að plægja. Trjástofna, sem ekki voru nýttir sem byggingarefni var hrúgað saman í mikla kesti og brenndir. Engin leið var fyrir frumbýlinga að koma efninu niður í sögunarmyllur við sjávarsíðuna. Lýsingar Jóhannesar Arngrímssonar byggðust á umsögnum heimamanna sem virtust heldur ekki hafa kynnt sér umrætt svæði. Frumbyggjar og franskir landnámsmenn svo og seinna breskir, höfðu ekki litið við þessu svæði síðustu áratugina og það segir kannski sína sögu, enginn hafði reynt búskap og hvers vegna ætti þá svæðið að henta íslenskum landnámsmönnum? Lýsingunum á nýlendusvæðinu fylgd líka miklar sögur af gnægð veiðidýra og vatnafiska en þegar á hólminn var komið þá voru veiðidýr öll á bak og burt og silungur komst ekki upp í ár og vötn vegna þess að stíflur höfðu verið gerðar neðarlega í helstu ám. Íslendingarnir höfðu vart verið á svæðinu meir en ár þegar ljóst varð að svæðið stóð ekki undir væntingum og því afréð fylkisstjórn að afturkalla gylliboð til Íslendinga sem þangað vildu fara á næstu árum,. Þetta gekk meira að segja svo langt að umboðsmenn stjórnarinnar fóru um borð í vesturfaraskip og hittu þar fyrir Íslendinga sem ætluðu til Marklands. Réðu þeir öllum frá að fara til Marklands.

Íslendingafélagið í Nova Scotia hefur kortlagt byggðina og víða lagt möl í stíga. Á þessari mynd stóð Vatnsdalur, bær Brynjólfs Brynjólfssonar. Lengri stígurinn liggur að náðhúsi sem stoð aftan við bæinn. Mynd Icelandic Society of Nova Scotia.
Að duga eða drepast: Þegar landnámsmönnum og umboðsmönnum varð ljóst að landið á Elgsheiðum yrði aldrei auðunnið og að þar yrði seint stundaður arðbær landbúnaður reyndi fylkisstjórn hvað hún mátti til að gera lífið í byggðinni bærilegt. Lét hún leggja veg gegnum nýlenduna á fyrstu árum landnáms og fengu Íslendingar vinnu við vegagerðina. Vorið 1876 sá fylkisstjórnin landnemum fyrir útsæði og sáðu menn í þá litlu bletti er þeir höfðu náð að hreinsa. Áfram héldu svo landnemar við skógarhögg, unnu í félagi þrír til fjórir saman en þannig gekk verkið betur. Hvorki eignuðust bændur uxa eða hross á þessum frumbýlingsárum og þegar ljóst var að einhver uppskera sá dagsins ljós var eina ráðið að draga hafra og hveiti tæpa 30 km í næstu myllu. Fleira gerði fylkisstjórn vel því um vorið 1876 var risið skólahús í miðri byggðinni og réði stjórnin breskan kennara til að annast kennsluna. Þetta var í fyrsta sinn í sögu íslensks landnáms að yfirvöld reistu skóla og hófu kennslu í ungri, íslenskir byggð í Vesturheimi. Guðbrandur Erlendsson landnemi í Marklandi skrifaði endurminningar sínar og þar segir hann um skólahúsið og samkomur þar:,, Ekki lét stjórnin lengi bíða eftir skólahúsi. Hún lét reisa það í miðri byggðinni og réð til þess enskan kennara. Ekki var lagður á okkur svo mikið sem eins dollars skattur þau árin, er við dvöldum í Nýja Skotlandi. Er það eitt af mörgu, sem sýnir að stjórninni var áhugamál, að okkur gæti liðið vel. – … Strax og skólahúsið var fullgert, áttu nýlendumenn þar fund með sér. Var fyrsta umræðu efnið hvað nýlendan ætti að heita, og var hún kölluð Markland. Þótti eiga vel við að taka upp það nafn, er Leifur Eiríksson gaf Nýja Skotlandi þá er hann fann Ameríku. Þá var hafið máls á því, að koma saman í skólahúsinu til guðþjónustu á sunnudögum, eins oft og aðstæður leyfðu. Voru allir því samþykkir. – Brynjólfur Brynjólfsson var lífið og sálin í þeirri kristilegu starfsemi eins og öðru því, er að framförum laut. Ber honum þökk og heiður fyrir það og margt fleira. Þessar guðræknis samkomur voru vel sóttar, þótt allir yrðu að ganga, og mátti það merkilegt heita eins og unnið var virku dagana, því víst var um það, að enginn lá á liði sínu heldur keptist hver við annan að koma sem mestu í verk.“ Íslenskur prestur kom aldrei til Marklands en þýskir landnemar í Lunenburg, snotrum bæ út við Atlantshafið brugðust vel við og sendu presta af til í byggðina. Skírðu þeir börn og fermdu og gáfu saman hjón en Brynjólfur Brynjólfsson jarðsöng látna. Þarna á Elgsheiðum þraukaði fólk, sumir í nærri sjö ár. Góðar fréttir úr íslenskum byggðum vestur á kanadísku sléttunni, í N. Dakota og Minnesota bárust austur til Marklands og fólk fór að hugleiða brottflutning. Þegar ljóst var að menn fýsti brott var samið við fylkisstjórn um eignarhald á jörðum. Ekki stóð á stjórnvöldum, allir fengu óskorið eignarbréf fyrir löndum sínum og tókst sumum að selja fyrir lítið en það sem hafðist upp úr krafsinu dugði fyrir fjölskylduna að flytjast brott í farsælli, íslenskar byggðir.