Landsvæði það sem nú er Minnesota varð bandarískt svæði árið 1803. Áður tilheyrði svæði þetta Chippewas, Sioux eða Dakotas indjánaþjóðum. Franskir landkönnuðir urðu fyrstir Evrópumanna til að fara þar um, það voru skinnakaupmenn og trúboðar. Þetta var árið 1659 en Duluth setti upp vöruskiptastöð (trading post) árið 1678 og í dag stendur þar samnefnd borg. Árið 1858 varð svo Minnesota eitt ríkja Bandaríkjanna. Nafnið er úr indjánamáli og merkir ,,skýjað vatn“. Orðið er samsett, minne merkir vatn og er náskylt winne úr tungumáli annarrar indjánaþjóðar sbr. Winnipeg sem merkir leirugt vatn. Í Minnesota eru stór og smá stöðuvötn, litlar og stórar tjarnir. Á sólbjörtum, heitum sumardögum myndast oft skýjabólstrar á himni sem speglast í sléttum vatnsfletinum, það er minnesota. Landamæri ríkisins ná norður að Manitoba og Ontario í norðri, Wisconsin í austri, Iowa í suðri og Norður – og Suður Dakota í vestri. Nyrst einkennist landið af miklum skógum og hæðum og er þar sundað skógarhögg og námugröftur. Um miðbik tekur við sléttlendi, mikið akuryrkju- og nautgriparæktarsvæði. Þrjú stórfljót eiga upptök sín í ríkinu; vestast er Rauðá sem rennur norður til Winnipeg í Manitoba og áfram út í Winnipegvatn. Mississippi á upptök sín í Itasca þjóðgarðinum norðarlega í ríkinu, rennur í suður og út í Mexíkóflóa um New Orleans. Loks rennur Minnesotaáin úr vestri saman við Mississippi rétt sunnan við Minneapolis.
Norskir frumbýlingar:
Bandaríkjaþing ákvað árið 1849 að þorpið St.Paul, á austurbakka Mississippi yrði höfuðstaður ríkisins. Það var þá ellefu ára gamall verslunarstaður. Árið áður fóru fjórir, norskir landkönnuðir vestur frá Wisconsin inn á Minnesota svæðið og norskur prestur, Séra C. L. Clausen fór upp Mississippi árið 1849 til að leita svæðis undir nýtt, norskt landnám. Hann kom til St.Paul en taldi landið umhverfis þorpið óhentugt fyrir norska nýlendu. Ákvað þá að fara yfir fljótið þar sem borgin Minneapolis stendur nú en aftur varð hann fyrir vonbrigðum því bæði þótti honum landið lítið og sendið. Ekkert varð því úr nýrri, norskri byggð þar um slóðir að sinni en í dag telst Minneapolis vera höfuðstaður Norðmanna í Norður Ameríku.
Á árunum 1850-1870 leituðu norskir landnemar í Wisconsin inn á nýtt svæði, þeim fjölgaði í ungu ríki úr 7 árið 1850 í 35.940 árið 1870 (HNPA 1925, bls. 181). Á þessu tuttugu ára tímabili urðu til norskar nýlendur í suðursýslum ríkisins svo sem Fillmore 1851, Carver og Winona 1852, Dakota, Houston og Nicollet árið 1853 og loks Dodge, Olmsted, Steele og Mower árið 1854. Smám saman fluttu norskir vestar á boginn en skýringin á þessum nýju landnámum er sú að í Wisconsin var nánast allt land numið, ungir afkomendur norskra frumbýlinga urðu að leita annað. Þá héldu fólksflutningar frá Noregi áfram vestur og þeir kröfðust nýrra svæða undir norskt landnám. Norðmenn skipta sögu sinni í Bandaríkjunum í þrjú tímabil: 1. Norska tímabilið 1825-1860 2. Norsk-Ameríska tímabilið 1860-1890 og Ameríska tímabilið 1890-1925. Á norska tímabilinu segja Norðmenn að landnemar þeirra hafi verið meiri Norðmenn en Bandaríkjamenn. Á Norsk-Ameríska tímabilinu voru þeir orðnir meiri Bandaríkjamenn en Norðmenn og hér er vert að staldra við og kanna hvað þeir eiga við. Þeir notuðu jöfnum höndum norsku og ensku, fylgdust af sama ákafa með viðburðum í Noregi og Bandaríkjunum, héldu jafnt upp á 17. maí (þjóðhátíðardagur Norðmanna) og 4. júlí (þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna) og flögguðu stoltir fánum beggja landa hlið við hlið þegar við átti. Það var einmitt á þessu tímabili sem Íslendingar kynnast veröld Norðmanna í Bandaríkjunum. (HNPA 1925, bls. 181).
Íslenskt landnám hefst í Minnesota
Vesturfaratímabil Íslendinga hefst árið 1870 og það endar 1914. Á hverju ári þessa tímabils fór einhver Íslendingur til Vesturheims, sum árin fáeinir, önnur allmargir og þá líka stundum stórir hópar. Reyndar fóru íslenskir mormónar að flytjast til Utah árið 1854 og fáeinir næstu árin en vanalega eru þeir flutningar ekki taldir til Vesturfaratímabilsins af því að þangað fóru ekki vesturfarar af Íslandi á hverju ári. Fyrstu vesturfarar tímabilsins fóru til Bandaríkjanna, Wisconsin, vegna þess að þaðan bárust bréf til Íslands frá dönskum verslunarþjóni sem starfað hafði á Eyrarbakka. Páll Þorláksson var einn þeirra sem fyrstir fóru þangað og hann meir en aðrir lagði kapp á að kynna sér samfélagið þar. Hann kynntist norskum prestum sem buðu honum með sér í heimsóknir í hinar ymsu byggðir norskra landnámsmanna í ríkinu. Í þessum ferðum komst Páll að þeirri niðurstöðu að margt gætu Íslendingar af Norðmönnum lært. Honum var ljóst að allur landbúnaður í Ameríku var gerólíkur þeim sem stundaður var á Íslandi, íslenskir bændur í Norður-Ameríku yrðu í framtíðinni að tileinka sér ný vinnubrögð ef vel ætti að fara. Hann hreifst sömuleiðis af safnaðarmálum sem voru í höndum Norðmanna sjálfra, hér var engin þjóðkirkja. Hann lýsti þessari hrifningu sinni í bréfum ekki aðeins til vina og ættingja heldur og ritstjóra blaða á Ísland. Í einu slíku til ritstjóra Norðanfara dagsettu 27. janúar, 1873 segir hann m.a.,, Merkilegt er það, að þessi liðug 30 ár, sem fólksflutningar hafa verið frá Noregi, þá sýnist Norvegur standa jafnréttur sem áður, og þó verða bráðum svo margir Norðmenn í Bandaríkjunum sem í Norvegi sjálfum. Þenna stutta tíma hafa Norðmenn hér í ríkjunum framkvæmt ótrúlega mikið; þeir hafa smátt og smátt dregið sig saman, hafa myndað söfnuði, reist kirkjur og barnaskóla, stofnað kirkjufélög, og latínuskóla í ríkinu Iowa, sem kallast “Lúter College“, og kostaði hina norsku söfnuði 87.000 dollara. Sjálfir borga þeir allan kostnaðinn. ….Bezt mun fyrir þá sem hingað koma, einkum Íslendinga, að fara ekki strax að spila upp á sínar eigin spýtur, heldur bera sig að læra, sem flest í byrjuninni af því sem nytsamlegt er…“. (FATV bls.24-25) Um haustið kom allstór hópur frá Íslandi vestur um haf og fóru allmargir þeirra til Wisconsin. Páll hafði rætt komu þessa hóps við norska innflytjendur og kannað hvort mögulegt væri að vista sem flesta hjá norskum bændum fyrst um sinn svo þeir mættu læra. Þessu var vel tekið og þáðu flestir nýkominna með þökkum tilboðið frá norskum bændum. Einn þeirra var Gunnlaugur Pétursson.
Gunnlaugur Pétursson: Guðni Júlíus Oleson í Glenboro í Manitoba skrifaði þátt um íslensku byggðina í Minnesota í bókinni Saga Íslendinga í Vesturheimi V og segir svo um Gunnlaug:“Maður er nefndur Gunnlaugur Pétursson, fæddur á Jökuldal 10. september, 1830. Höfðu forfeður hans búið á Hákonarstöðum mann fram af manni í marga mannsaldra, að sagt er í níu eða tíu liði. Tuttugu og sjö ára kvæntist Gunnlaugur Guðbjörgu Jónsdóttur Einarssonar og Guðnýjar Sigfúsdóttur, sem bjuggu í Snjóholti. Gunnlaugur tók um þær mundir við Hákonarstaðabúinu af föður sínum og bjó þar rausnarbúi, unz hann fluttist til Vesturheims 1873, þá allnokkuð hniginn að aldri. Var hann með allra fyrstu Íslendingum, er fluttust af Austurlandi vestur í hinn nýja heim. Er talið að hann hafi haft þó nokkur efni Gunnlaugur fluttist til Wisconsinríkis í Bandaríkjunum og var þar í 2 ár eða þar um bil. Voru Norðmenn allfjölmennir þar, og margir úr þeirra hópi á vesturleið. Þá voru að opnast fyrir almenningi miklar lendur og víðar í vesturhluta Minnesotaríkis. Þangað var ferðinni heitið, og með þeim straumi fylgdist Gunnlaugur í maí, 1875. Ók hann á vagni, er uxum var beitt fyrir, og flutti þar með búslóð sína. Voru það um 500 mílur vegar. Eftir 3 vikna ferð náði hann til Lyon County og nam hann staðar á bakka Yellow Medicine- árinnar og nam þar land. Nefndi hann bæ sinn Hákonarstaði. Hann var fyrsti Íslendingur, er festi byggð og land nam í Minnesotaríki.“ Gunnlaugi vegnaði vel frá upphafi í nýrri byggð í Minnesota þar sem frumbýlingar voru flestir norskir og þýskir innflytjendur auk Bandaríkjamanna. (Frumbýlingur af breskum uppruna fæddur í Bandaríkjunum). Ekki aðeins lýsti Gunnlaugur nýju landnámi í bréfum til vina og vandamanna í Wisconsin og á Íslandi. Þau höfðu áhrif því á næstu árum fluttu fjölmargir til Minnesota og allt gekk frumbýlingum þar í haginn. Á næstu árum óx íslenska byggðin og dafnaði á meðan allt sem hugsast gat mistókst í Nýja Íslandi. Báðar þessar nýlendur voru stofnaðar sama ár (1875) sú í Minnesota af mönnum sem öðlast höfðu reynslu hjá norskum bændum í Wisconsin en í Nýja Íslandi komu menn beint frá Íslandi og skorti alla þekkingu og reynslu í norðuramerískum búskaparháttum. Þegar land allt í Lyon hafði verið numið, námu menn lönd í nærliggjandi sýslum, Lincoln og Yellow Medicine. Á frumbýlingsárunum var talað um fjórar, aðskildar sveitir í sýslum þessum en þar sem stutt var á milli byggðanna var yfirleitt talað um ,,Íslensku nýlenduna í Minnesota. Bærinn Minneota er miðsvæðis en 20 km austar er bærinn Marshall, höfuðstaður Lyon sýslu.
Búskapur og aðrir atvinnuvegir: Árið 1900 birti Almanak Ólafs Þorgeirssonar eftirfarandi lýsingu á búskapnum í Minnesotabyggðinni á upphafsárunum:,,Land það, er Íslendingar í Minnesota byggja er hentugt bæði til akuryrkju og kvikfjárræktar. Af korntegundum eru ræktaðar: hveiti, hafrar, bygg, rúgur, mais og hör. Margskonar garðávextir eru og ræktaðir. Af afurðum jarðarinnar er hveiti mesta verzlunarvara bænda; mun meðal uppskera af því vera 12 til 15 bushel af hverri ekru lands. (Bushel var mælieining notuð á 19. öld og jafngilti 1 bushel 25 kg.) Jafnframt akuryrkjunni stunda allir bændur kvikfjárrækt. Hafa margir þeirra fjölda hesta og nauta, sauðfénaðar og svína, og auk þess hænsn og aðra alifugla. Allir hinir fyrstu landnemar eignuðust jarðir sínar ókeypis, sem stjórnarland. Jarðir þessar eru að stærð 160 ekrur (um 64 ha). Land það er Íslendingar hér bygðu var algerlega skóglaust land, en síðan hefur skógur verið ræktaður, svo nú er skógarlundur í grend við flest heimili. Er það bæði til skjóls og prýðis.“ Í bæjunum Minneota og Marshall sóttu allmargir Íslendingar vinnu, margir hverjir voru daglaunamenn, aðrir handverksmenn og nokkrir verzlunarþjónar. Þá réðust nokkrir í verzlunarrekstur og fáeinir urðu embættismenn. Frekari upplýsingar í Minneota og Marshall.
Félagsskapur: Fyrstu árin í sérhverri nýbyggð voru ætíð erfið öllum landnemum, hreinsa þurfti land og koma því í rækt, reisa hús, bæði íbúðarhús og fjós. Byggingarefni í byggðinni var af skornum skammti því enginn var skógurinn og því þurfti að sækja efnið, stundum langan veg. Eftir nokkurra ára strit fóru landnemar að huga að mannlegum þáttum svo sem safnaðarmálum, lestrarfélögum og samkomum. Upphaf alls í þessum dúr voru fundir sem haldnir voru á heimili einhvers landnámsmannsins sem bjó nokkuð miðsvæðis í hverri byggð. Árið 1878 varð til félag í Lincolnbyggð sem annast átti stofnun lestrarfélags, útvega bækur og tímarit. Þá vann félagið að því að finna stað fyrir grafreit og efna til vikulegra húslestra. Úr þessum félagsskap urðu til tvö félög, annað kallaðist ,,Framfarafélagið“ og svipaði til Íslendingafélagsins sem stofnað var í Milwaukee haustið 1874. Átti félagið að stuðla að framförum í byggðum Íslendinga. Eftir fáin ár þróaðist þetta félag í ,,Lestrarfélagið“ en starfsemi þess miðaði að almennri menntun og bókalestri. Árið 1884 kom félagið upp samkomuhúsi þar sem fundir og alls kyns samkomur voru haldnar. Þarna voru líka haldnar guðþjónustur um árabil. Auk þessa tóku margir Íslendingar þátt í starfsemi félaga, sem störfuðu að almennum hagsmunum samfélagsins t.d. búnaðarfélaga, sem annarra þjóða landnemar tilheyrðu líka.
Safnaðarmál: Kíkjum aftur í greinina í Almanakinu frá árinu 1900 sem fjallar um íslensku byggðina í Minnesota. Þar segir svo um trúmál:,,Það var haustið 1878, að samtök byrjuðu til myndunar kirkjulegum félagsskap. Voru þá haldnir fundir í hvorttveggju bygðunum, og var kosin nefnd manna á báðum stöðunum til þess í sameiningu að semja safnaðarlög.(innskot JÞ: Hér er átt við Austur- og Vesturbyggð. Austurbyggð var norðaustur af Minneota, bæði í Lyon- og Yellow Medicine byggð en Vesturbyggð var í Lincolnsýslu) Í Austurbygð voru kosnir í nefnd þessa: Snorri Högnason, Eiríkur H. Bergmann og Guðmundur Henry Guðmundsson; en í Vesturbygð Árni Sigvaldason og Stefán Sigurðsson. Nokkru fyrir jól, hið sama ár, kom nefnd þessi saman, að heimili Árna Sigvaldasonar, og ræddi málið. Þær tvær stefnur, sem um þær mundir réðu í kirkjumálum Íslendinga í Nýja Íslandi, höfðu einnig náð til Íslendinga í Minnesota. Eins og kunnugt er, var séra Jón Bjarnason forvígismaður stefnu þeirrar er fylgdi lúterskum lærdómi á sama hátt og kirkjan á Íslandi, en séra Páll Þorláksson talsmaður hins lúterska lærdóms Missourysýnódunnar, eða þeim parti hennar sem kallaðist Norska-sýnódan. Í fyrstu urðu deildar skoðanir meðal nefndarmanna um það, hverri stefnunni ætti að fylgja. Eiríkur H. Bergmann og Guðm. Henry Guðmundsson vildu fylgja stefnu séra Páls, en Stefán Högnason, Árni Sigvaldason og Stefán Sigurðsson héldu fram stefnu séra Jóns Bjarnasonar. Þá kom nefndin sér saman um frumvarp til safnaðarlaga, sem á næsta vori var borið undir álit almennings, og myndaðist þá ,,Lincoln County-söfnuður“ í Vesturbyggðinni og síðar ,,Vesturheims-söfnuður“ í Austurbyggð. Nokkru síðar myndaðist ,,St. Páls-söfnuður“ í Minneota og svo ,,Marshall-söfnuður“ í Marshall. “