Nebraska

Vesturfarar

 

Landnám: Kortið sýnir þá helstu staði í Nebraska sem mest koma við sögu landnáms Íslendinga þar seinni hluta 19. aldar.  Höfuðborgin Lincoln var ákvörðunarstaður þeirra sem fyrst könnuðu lönd í ríkinu en flestir þeirra komu frá Milwaukee.  Nokkru sunnar í Lancaster County er smáþorpið Firth og  rétt vestur af og örlítið sunnar er Cortland í Gage County. Þegar ekið er frá Lincoln í dag suður til Firth hækkar landið nokkuð sem sést á því að Linfoln er í 1176 feta hæð ydir sjávarmáli en Firth 1325. Þegar síðan er ekið vestur frá Firth til Guide Rock heldur landið áfram að hækka því þar er þorpið 1667 fetum yfir sjávarmáli. En hæst er það í Long Pine eða 2402 fet.  Landslagið er þó nokkuð breytilegt en víðast skiptast á akurlendi og bithagar. Landið umhverfis þorpin Firth og Cortland einkennist af frjósamri mold og er akuryrkja mest stunduð.  Á myndinni hér að neðan sést þetta bærilega, þessi dökka, frjósama mold var ríkjandi á savæðinu milli Lincoln og Firth og þar námu bræðurnir Torfi, Lárus og Aðalbjartur lönd. Land Torfa var nyrst í Lancaster County rétt suður af Lincoln. Lárus var sunnar í sömu sýslu en Aðalbjartur var nyrst í Gage County, sem er næsta sýsla sunnan við Lancaster. Myndin að neðan er tekin á landi Aðalbjarts.

 

Skógbelti eru víða og munu flest gerð af manna höndum til að skýla fyrir nöprum norðanvindum á veturna.        Flestir Íslendingar sem komu til Nebraska á fyrstu árum vesturferða sóttu mikið á svæði þetta sem nú hefur  verið lýst en lönd þeirra voru lítil og fljótlega kom í ljós að erfitt var að stækka við sig. Lönd gengu þó kaupum   og sölum en voru dýr. Lárus einn hélt kyrru fyrir og þótt land hans væri ekki stórt þá lét hann það duga. Landar hans sóttu alllangt norðvestur þar sem heitir Long Pine sem er í Brown County. Ekki skal fjölyrt um hvort Íslendingar hafi kannað löndin vestur af Cortland en Aðalbjartur fór ótroðnar slóðir því árið 1923 er hann sestur að á landi nærri þorpinu Guide Rock í Webster County. Á myndinni sem tekin var í sumar (2019) sést dável hvernig landslag hefur breyst. Í stað frjósamra akra er landið orðið öldótt og einkenna góðir bithagar svæðið nánast allt suðurlendi ríkisins vestur í Webster County.

Þessi mynd sýnir ágætlega landið syðst í Nebraska, austur af Guide Rock. Mynd JÞ

Að ofan var greint frá því að þegar komið er norðvestur í Brown County þá er landið hærra yfir sjávarmáli en þar sem áður er lýst. Landslagið breytist sömuleiðis, mikið er um grasigrónar öldur og þar er tilvalið beitiland. Hér um slóðir er nautgripa

Hér sést landið nokkuð austur af Long Pine Mynd JÞ

ræktin ráðandi og víða sjást stórar hjarðir á beit. Skógbelti eru færri en sums staðar þar sem landið lækkar nokkuð og myndar grunnan dal er iðulega mikill skógur. Annar staðar taka við grasigrónir sandhólar en víða þar um slóðir er jarðvegurinn nokkuð sendinn. Þorpið Long Pine varð einskonar miðstöð íslensku landnemanna en þangað gátu þeir sótt nauðsynjar og hvers kyns þjónustu.

 

 

 

Þessi mynd er tekin ofan af hæð sem er rétt suður af Long Pine. Hér sést næst hluti nautgripahjarðar á beit, fjær sjást svo skógbelti en efst á myndinni greinir í sléttara land sem þó er öldótt. Mynd JÞ