Lesliebyggð myndaðist umhverfis samnefnt þorp þar sem C.P.R. reisti lestarstöð árið 1909. Þorpið var nefnt eftir John Leslie, fjármálastjóra járnbrautarfélagsins. Byggðin teygist 6 – 10 km í allar áttir út frá þorpinu sem varð miðpunktur samfélagsins. Liðlega 50 Íslendingar námu þar land eða bjuggu í þorpinu. Upphaflega var þorpið ekkert annað en lestarstöðin og hét því í fyrstu Leslie Station. Þangað var járnbrautin komin árið 1909 en lagning brautarinnar tafðist um ár vegna deilna landeiganda við járnbrautafélagsins. Sá vildi fá betur greitt fyrir landið sem járnbrautin átti að fara um. Töfin varð hins vegar hagur þorpsins því þegar ljóst var hvar stöðin skyldi reist flykktust athafnamenn að með sínar fjölskyldur og uppbygging hófst. Nyrstu lönd Lesliebyggðar lágu að syðstu löndum Kristnesbyggðar og austan við þorpið lágu lönd byggðarinnar við vestustu lönd Foam Lake byggðarinnar. Sunnan við Leslie urðu svo til tvær litlar, íslenskar byggðir, Hólarbyggð og Heklubyggð. Seinna tengdist svo Lesliebyggðin austasta hluta byggðarinnar út frá Elfros.
Landið í Lesliebyggð hentaði vel blönduðum búskap, flestum landnemum vegnaði þar vel. Þjónustu alla svo og nauðsynjar sóttu bændur í Leslie svo og íslenskar samkomur svo sem leiksýningar, þorrablót og sumarfagnað.